Kvartað var undan „málmbragði“ í hummus framleiddum af Bakkavör Group fyrir matvælaverslanir í Bretlandi. Guardian greinir frá málinu og lýsir því hvernig „hummuskreppa“ skall á í Bretlandi vegna mistaka fyrirtækisins.
Bakkavör framleiðir meðal annars hummus fyrir matvælakeðjur á borð við Sainsbury’s, Marks & Spencer og Co-op og var hummusinn víða tekinn úr sölu í kjölfar kvartana.
Bakkavör Group er alþjóðlegt matvælafyrirtæki sem gerir upp í Bretlandi og var stofnað af Ágústi og Lýði Guðmundssonum árið 1986. Bræðurnir voru umsvifamiklir í íslensku viðskiptalífi á útrásarárunum, misstu félagið eftir hrun en eignuðust Bakkavör aftur ásamt meðfjárfestum í fyrra. Samkvæmt nýjustu ársskýrslu fyrirtækisins námu tekjur þess 1,8 milljónum punda á síðasta ári, eða 7 milljörðum íslenskra króna.
Fjöldi fólks hefur kvartað vegna hummusar Bakkavarar á samfélagsmiðlum og hefur fyrirtækið viðurkennt að mistök hafi orðið í framleiðsluferlinu. Bragðið af hummusinum sé vissulega undarlegt, en heilsu fólks stafi engin hætta af gölluðu vörunum.
Athugasemdir