„Ráðningin var framlengd um nokkra mánuði. Vinnan felst í því að skoða og innleiða ákveðnar breytingar í stjórnarráðinu, það er að segja öllum ráðuneytum, samhæfa vinnulag, einfalda og gera samskipti og upplýsingagjöf skilvirkari,“ segir Hrannar Pétursson almannatengill sem starfað hefur sem verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu frá því í desember í fyrra. Áður var hann framkvæmdastjóri samskiptasviðs hjá Vodafone.
Þegar forsætisráðuneytið tilkynnti um ráðningu Hrannars á sínum tíma kom fram að hann hefði aðeins verið ráðinn til tveggja mánaða til að stýra heildarendurskoðun á stefnu Stjórnarráðsins í upplýsinga- og samskiptamálum. Horft væri til þess að almenningur – þar með talin fyrirtæki, stofnanir og aðrir lögaðilar – fengi aðgengilegar og skýrar upplýsingar um réttindi sín og skyldur og nyti nauðsynlegra leiðbeininga.
Þá kom fram að framsetning upplýsinga á vef Stjórnarráðsins og einstakra ráðuneyta yrði endurskoðuð og horft til samfélagsmiðla og annarra miðla sem gegna vaxandi hlutverki í upplýsingagjöf. Auk þess yrði reynt að ná betur til ungs fólks. Samkvæmt upplýsingum Stundarinnar hefur þessi vinna reynst tímafrekari en gert var ráð fyrir að hún yrði. Er því áfram þörf á starfskröftum Hrannars.
Athugasemdir