Sérstakur saksóknari hefur gefið út ákæru á Hendriki Birni Hermannssyni og Halldóri Leví Björnssyni. Báðum er gefið að sök að hafa stundað fjársvik í mars og apríl árið 2012 í tengslum við innflutning á áfengi. Hendrik hefur áður komist í kast við lögin og var til að mynda árið 2008 gert að greiða 77 milljónir króna í fjársekt vegna svika á vörslusköttum. Halldór Leví er fyrrverandi formaður Þroskahjálpar á Suðurnesjum, en árið 2011 var hann bendlaður við fjárdrátt hjá samtökunum. Ósamræmi var í bókhaldi samtakanna en hætt var við lögreglurannsókn í kjölfar þess að Halldór Leví endurgreiddi upphæðina. Halldór Leví starfaði enn fremur sem aðstoðarmaður Bjarkar Guðjónsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Hendrik er í dag annar eigandi Players í Kópavogi en hann eignaðist skemmtistaðinn ásamt Magnúsi Steinþórssyni úrsmiði á dögunum.
„Þetta á ekki við nein rök að styðjast,“ segir Hendrik í samtali við Stundina. Hann segist ekki reiðubúinn að lýsa sinni hlið á málinu fyrr en hann hafi rætt við lögmenn sína, en hann muni skýra sína hlið á málinu á næstunni.
Athugasemdir