Sigurlaug Helga Guðmundsdóttir flutti með manninum sínum og barni frá Reykjavík til Krokstadelva, skammt frá Osló í Noregi, árið 2010. Eftir fjögur ár höfðu þau bætt við einum heimilismeðlimi, voru bæði í mjög góðri vinnu og höfðu kynnst mörgum Norðmönnum. Engu að síður ákváðu þau að flytja aftur heim til Íslands. Hún segir reynsluna dýrmæta en ekkert komi í staðinn fyrir Ísland.
„Við búum við þau forréttindi að eiga nána fjölskyldu og okkur fannst mikilvægt að börnin myndu alast upp í nánu samneyti við afa, ömmur og önnur skyldmenni. Við hugsuðum bara með okkur að valið stæði milli þess að ala börnin upp sem Norðmenn eða koma heim, við völdum að koma heim,“ segir Sigurlaug.
Eignuðust lífstíðarvini
Sigurlaug segir að fyrsta árið hafi verið langerfiðast, það hafi tekið tíma að komast inn í samfélagið og venjast breyttu umhverfi. Þá varð hún ólétt stuttu eftir að þau fluttu. „Ég ætlaði að pakka niður og flytja örugglega fjórum sinnum á fyrsta árinu,“ segir Sigurlaug. „Eftir að maður hefur búið svona langt frá nánustu fjölskyldu lærir maður að meta lífið á nýjan hátt og lærir hvað raunverulega skiptir máli í lífinu. Nálægð við fjölskylduna skipti okkur mestu máli. Að eignast barn, nýfluttur í nýtt land, er ekki auðvelt og þá saknar maður fjölskyldunnar mikið.“
Noregur er vinsælasti áfangastaður Íslendinga sem flytja frá Íslandi og oft er það vegna nýrra atvinnutækifæra eða tilboða sem dregur fólk að.
„Maðurinn minn fékk atvinnutilboð. Við höfðum verið með byggingarfyrirtæki á Íslandi en eftir hrun var lítið um verkefni. Þegar honum bauðst vinna var því lítið því til fyrirstöðu að stökkva á það og prufa eitthvað nýtt.“
Sigurlaug segir að Norðmenn hafi tekið þeim gríðarlega vel. „Við eignuðumst góða vini fyrir lífstíð og okkur leið mjög vel úti, vorum bæði vinnandi en það var samt alltaf eitthvað sem togaði okkur heim aftur. Það er gríðarlega þroskandi að prufa að búa í útlöndum en það er líka gott að hafa það bara sem prufu og koma svo heim aftur reynslunni ríkari.“
Athugasemdir