Eigendur Brúneggja, sem hafa sannfært almenning um að hænur á búum þeirra njóti „ástar og umhyggju“ í vistvænni framleiðslu, en hafa árum saman brotið reglugerðir um dýravernd og ekki uppfyllt skilyrði um vistvæna landbúnaðarframleiðslu, högnuðust ævintýralega í fyrra á sama tíma og loka átti hænsnabúum þeirra vegna slæms aðbúnaðar.
Bræðurnir Kristinn Gylfi Jónsson og Björn Jónsson eiga sitt hvorn helmingshlutinn í Brúneggjum ehf. í gegnum einkahlutafélög sín. Þessi félög þeirra högnuðust um tæpar hundrað milljónir króna hvort árið 2015.
Seldu egg dýrari vegna dýraverndar
Á sama tíma og Brúnegg hafa hagnast verulega hafa forsvarsmenn félagsins meðal annars beitt fyrir sig þeirri vörn gagnvart athugasemdum Matvælastofnunar við faraldur fuglakóleru á búum þeirra, að of kostnaðarsamt hafi verið að bólusetja fuglana.
Brúnegg auglýsa vöru sína undir þeim formerkjum að þau komi frá „frjálsum hænum“ og séu „vistvæn“. Þannig eru þau seld á um það bil 40% hærra verði en hvít búrhænuegg, eða á um 970 kílóið í stað tæpra 700 króna kílóið, samkvæmt umfjöllun Kastljóssins á Rúv.
Síðla árs 2013 sendi dýralæknir Matvælastofnunar atvinnuvegaráðuneytinu póst þar sem greint var frá því að Brúnegg væru að blekkja neytendur. „Matvælastofnun telur að neytendur séu blekktir með merkingu eggja frá Brúneggjum ehf,“ sagði í bréfinu. Atvinnuvegaráðherra, og þar með landbúnaðarráðherra, á þeim tíma og yfirmaður ráðuneytisins var Sigurður Ingi Jóhannsson, sem nú er forsætisráðherra. „Þrátt fyrir að Matvælastofnun hafi ekki eftirlit með vistvænni framleiðslu, þá kemur augljóslega fram í eftirlitsheimsóknum að kröfur sem gerðar eru eru ekki uppfylltar. Þess vegna vill Matvælastofnun bera erindið undir ráðuneytið. Hvernig skal halda áfram í málinu til að tryggja að neytendum séu veittar réttar upplýsingar með matvælum sem þeir kjósa að kaupa?“ Skrifstofustjórinn sagði málið verða skoðað, en Matvælastofnun fékk aldrei svar við því hvernig bregðast ætti við. Ný lög um velferð dýra tóku gildi áramótin á eftir.
Töldu of dýrt að bólusetja - græddu tugi milljóna
Fram kom í skýrslu Matvælastofnunar að forsvarsmenn Brúneggja teldu of kostnaðarsamt að bólusetja fuglana við henni. Árið 2012 kom fram að mýs hefðu hlaupið eftir eggjafæribandi, forsvarsmenn Brúneggja neituðu að koma upp handlaugum og skilgreina hrein og óhrein svæði, auk þess sem of margir fuglar voru á hvern fermetra. Þetta ár var methagnaður hjá Brúneggjum, tæplega 50 milljónir króna.
Sumarið 2013 var fuglakólera enn að ganga á búum Brúneggja, eins og kom fram hjá Matvælastofnun: „Almennt verður að telja að velferð og aðbúnaður hænanna sé ekki sem skyldi.“ Þetta ár högnuðust Brúnegg um 42 milljónir króna. Á sama tíma þurftu varphænurnar að dvelja í tvo til þrjá mánuði í hýsingu þar sem saur hafði flætt upp úr saurgeymslum.
Í viðtali við Bændablaðið 11. september 2014 virðist Kristinn óbeint játa að ekki takist að halda fjölda hæna innan þeirra krafna sem gerðar eru.
„Við reynum að vera með níu til tíu fugla á fermetra. Í drögum að nýrri reglugerð um aðbúnað varpfugla í vistvænni ræktun er talað um níu fugla á fermetra að hámarki,“ sagði hann. Í umfjöllun Kastljóss kemur fram að sama ár hafi skoðun leitt í ljós að 13 fuglar voru á hvern fermetra, 60% fleiri en heimilt er í vistvænni framleiðslu.
Þá lýsti Kristinn degi í lífi varphænu á búi Brúneggja í viðtali við Bændablaðið. „Þegar þær vakna á morgnana fá þær sér að borða og fara svo að huga að varpi. Þær verpa mest fyrri part dags. Síðan eftir hádegi, þegar þær eru farnar úr hreiðri, er blandað geði við aðrar hænur, sinna þörfum sínum og svo fara þær í svokallað rykbað. Þá þyrla þær ryki og undirburðinum yfir sig og hrista sig síðan vel.“
Í ljós hefur komið að híbýli hænsnanna uppfylltu ekki þarfir þeirra og voru skaðlegar heilsu þeirra í mörgum tilfellum. 95 prósent fugla á Stafholtsveggjum, búi Brúneggja, lifði við slæmt eða mjög slæmt ástand á fiðurham, sem rekja má til vöntunar á fóðurlínu, þrengsla, blauts undirburðar og vanþrifa, samkvæmt frásögn Rúv.
„Kannski má segja að menn hafi gengið á lagið vegna þess að það var ekki nógu gott eftirlit með því,“ sagði Kristinn Gylfi í samtali við Rúv. Spurður af fréttamanni Rúv hvort ábyrgðarmenn félagsins hafi fallið í freistni vegna þess að ekki var eftirlit með starfsemi þeirra og haft meiri fjölda fugla en leyfilegt er á hvern fermetra sagði Kristinn: „Já, það má vel vera, að svo hafi verið. Að menn hafi haft meira sjálfdæmi um það hvað væri gott og eðlilegt varðandi fjölda fugla per fermeter. Það kann vel að vera. Eins og dæmin hafa sýnt. Við eftirlit.“
Kristinn kvartaði undan seinagangi Matvælastofnunar við að veita starfsemi hans eftirlit. „Við vorum bara fegnir því að Matvælastofnun kom með sterkara eftirlit. En það tók ansi mörg ár.“
Árin 2009 til 2016 hefur hagnaður Brúneggja ehf. verið vel yfir tvö hundruð milljónir króna samhliða því að þeir blekktu neytendur með markaðssetningu sinni, samkvæmt áliti Matvælastofnunar.
Viðtal Tryggva Aðalbjörnssonar, fréttamanns Rúv, við Kristinn Gylfa Jónsson.
Sektin aðeins rúmt prósent hagnaðarins
Matvælastofnun beitti Brúnegg ehf. dagsektum upp á 2,6 milljónir króna vegna skelfilegra aðstæðna í fuglabúi sem sagt var vistvænt, en síðustu sjö ár hefur hagnaður Brúneggja verið samtals 215 milljónir króna.
Sektir Matvælastofnunar eru því aðeins 1,2 prósent af hagnaði Brúneggja á síðustu sex árum, sem er tilkominn meðal annars með markaðssetningu á vöru sinni sem vistvænni, án þess að hún hafi uppfyllt skilyrði sem vistvæn.
Þar með er ekki öll sagan sögð. Þannig hagnaðist eignarhaldsfélag Kristins Gylfa, Geysir-Fjárfestingarfélag ehf, sem á 50% hlut í Brúneggjum, um 97 milljónir króna, aðeins á árinu 2015. Þar af eru vaxtatekjur 42 milljónir króna og áhrif hlutdeildarfélaga tæpar 55 milljónir króna.
Björn, bróðir hans og meðeigandi í Brúneggjum, hagnaðist einnig um 97 milljónir króna í einkahlutafélagi sínu Bala ehf, sem á hin 50 prósentin í Brúneggjum, á árinu 2015. Þar af fékk félag hans 42,5 milljónir króna í vaxtatekjur og 55 milljónir krónur vegna áhrifa hlutdeildarfélaga, eða nákvæmalega sömu upphæð og félag bróður hans fékk vegna hlutdeildarfélaga.
„Óásættanlegt með öllu“
Sama ár og bræðurnir högnuðust um samtals tæpar 200 milljónir króna í gegnum einkahlutafélög sín sem eiga Brúnegg, sögðu dýralæknar Matvælastofnunar frá því að ástandið hefði versnað á búum þeirra þar sem þeir framleiddu egg sem þeir sögðu neytendum að kaupa vegna þess að hænurnar nytu „ástar og umhyggju“ en lifðu við aðstæður sem voru á köflum „óásættanlegar með öllu“.
Árið 2015, þegar eigendurnir högnuðust um tæpar 200 milljónir, sendi Matvælastofnun fjölda beiðna um úrbætur á aðbúnaði dýranna og hótaði að svipta eigendurna vörslu dýranna.
Þegar landbúnaðarráðuneytið lagði af vistvæna vottun haustið 2015 kvartaði Kristinn í samtali við Rúv. „Það er mjög miður að landbúnaðarráðuneytið og stjórnvöld skyldu ekki hafa fylgt eftir eftirliti með vistvænu regluegerðinni og sérstaklega fyrir okkur í eggjaframleiðslunni sem höfum lagt mikla áherslu síðustu ár, að bjóða vistvæn egg.“ Sama dag var honum tilkynnt af Matvælastofnun um lokun á starfsemi hans, en af henni varð ekki og neytendur fengu engar upplýsingar.
6. október 2015, mánuði eftir að frestur til úrbóta rann út, hafði ástandið versnað á Stafholtsveggjum. Músaeitur í eggjageymslu, lirfur, dauðar mýs, fiðurlausir fuglar, 90% fleiri fuglar en mátti, á blautu undirlagi, fastar hænur milli rimla, ammoníaksmettað loft, uppfullar saurgeymslur og saur á gólfi, alls 21 frávik frá lögum og reglum um dýravernd og matvælaframleiðslu, þar af 9 alvarleg. Á Teigi í Mosfellsbæ voru dauðir fuglar á jörðinni, uppþornaðir og á kafi í skít, og aðrir með einkenni fuglakóleru, þegar Matvælastofnun kom að. Í samtali við Rúv sagði Kristinn Gylfi hænur líklega hafa kroppað skít yfir aðrar.
Athugasemdir