Þýskt samfélag hefur leikið á reiðiskjálfi eftir að upp komst um aðila innan þýska hersins sem skipulögðu hryðjuverkaárásir með það að markmiði að flóttamönnum yrði kennt um þær. Tveir hermenn hafa verið handteknir auk samverkamanna utan hersins, en grunur leikur á um að þeir hafi meðal annars ætlað sér að myrða dómsmálaráðherra Þýskalands, Heiko Maas, sem og fyrrum forseta landsins, Joachim Gauck. Rannsókn hefur leitt í ljós að mennirnir voru hallir undir fasíska hugmyndafræði en þýska herlögreglan rannsakar nú 275 aðila innan hersins sem grunur leikur á um að tengist öfgafullum hópum á jaðri hægrisins. Óttast yfirvöld jafnvel að málið sem nú er til rannsóknar sé einungis toppurinn á ísjakanum.
Í þýskum fjölmiðlum er nú spurt hvernig í ósköpunum 28 ára gömlum liðsforingja í þýska hernum tókst að lifa tvöföldu lífi í rúmlega ár án þess að nokkur tæki eftir því? Maðurinn sem gengur einfaldlega undir nafninu Franco A í umfjöllunum fjölmiðla gegndi herþjónustu á þýsk-franskri herstöð í borginni Illkirch-Graffenstaden á sama tíma og hann dulbjó sig sem sýrlenska ávaxtasölumanninn David Benjamin og sótti um hæli í Bæjarlandi í janúar 2016. Hann fékk síðar skjól á heimili fyrir hælisleitendur og tók við mánaðarlegum fjárstuðningi frá þýska ríkinu. Svo virðist sem markmiðið hafi verið að beita skotvopni til að myrða þýska stjórnmálamenn á vinstri væng stjórnmálanna og kalla þannig fram reiðiöldu samfélagsins gagnvart flóttamönnum þar sem fingraförin á byssunni hefðu vísað á sýrlenska flóttamanninn David Benjamin, og það á kosningaári.
Athugasemdir