„Jóhanna! Þú ert lesbía! Steingrímur! Þú ert sköllóttur!“ Svo hljómar brot úr texta lagsins „Arðrán hinnar nýju valdastéttar“ eftir pönkhljómsveitina Vafasöm síðmótun. Bassaleikari hljómsveitarinnar er betur þekktur sem aðstoðarmaður forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Jóhannes Þór Skúlason. Í samtali við Stundina segir Jóhannes Þór ekki hafa spilað með hljómsveitinni um nokkurt skeið en hann sé þó hvergi nærri hættur í pönkinu.
Hljómsveitin hefur gefið út fjórar plötur, meðal annars Bylting og étin börn árið 2011 og Íslensk þjóðmenning sem kom út 1. október 2013, sama dag og þing var sett eftir kosningasigur Framsóknarflokksins. Árið 2008 vann hljómsveitin pönklagasamkeppni Þjóðleikhússins og Rásar 2 og kom í kjölfarið fram í Kastljósi þar sem þeir spiluðu lagið „Ísland er fokk“. Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.
Sigmundur er vöðvastæltur sigurvegari
Vinsælasta lag Vafasöm síðmótun er sennilega lagið „Sigmundur“ en það fékk nokkra spilun á X-inu. Hér er texti fyrri hluta þess lags:
Sigmundur er íslenskur.
Sigmundur er langbestur.
Sigmundur er griðastaður.
Bjargvættur
og ekkert blaður!
Góðir gestir!
Framtíðarvonin!
Gleðilega hátið!
Það er kominn!
Gleðilega hátið!
Það er kominn!
Sigmundur Davíð!
Hann Sigmundur er ljóshærður.
Sigurvegarinn, vöðvastæltur!
Sigmundur er ekki Freud.
Nei, Sigmundur,
hann er ekki Deutch.
Ekki hættur
„Ég hef nú ekki spilað með hljómsveitinni lengi. Meðlimir eru nú svo sem ekki nafngreindir heldur,“ segir Jóhannes Þór.
Hann lítur ekki svo á að þetta sé vafasöm tónlist fyrir aðstoðarmann forsætisráðherra. „Er pönk ekki bara góð músik? Það er ýmislegt sem pönkarar taka sér fyrir hendur. Ég er ekki hættur að spila pönk en ég hef ekki komið fram með Vafasöm síðmótun í þó nokkurn tíma,“ segir Jóhannes Þór.
Athugasemdir