Ég hef fengið ansi margar fyrirspurnir um mat og ýmislegt matartengt í gegnum tíðina. Sumar um einfalda hluti eða grundvallaratriði, sumar um flóknari eða sérhæfðari hluti, sumar um matarvenjur, geymsluþol, bökunartíma, kryddjurtaræktun, gæludýrafóðurgerð, síldarsöltun og – ja, eiginlega bara alla skapaða hluti. Sumar hafa verið um hluti sem ég gjörþekki og hef kunnað skil á síðan ég var smástelpa, aðrar um hluti sem ég er satt að segja afskaplega fáfróð um (til dæmis síldarsöltun). En ég hef nú yfirleitt reynt að leysa úr því sem til mín er beint eftir bestu getu, eða vísa allavega á einhverja sem gætu vitað svör.
Marensbotn úr lofti?
Sumar spurningarnar hafa verið svolítið undarlegar – eða mér hefur þótt það en fyrirspyrjandanum líklega ekki. Þó held ég að langundarlegasta spurningin sem ég hef fengið hafi verið hafi verið þessi: Veistu nokkuð um uppskrift að sykur- og eggjalausum marensbotni?
Nú er marens í sinni einföldustu mynd samansettur úr þremur þáttum, sem eru eggjahvítur, sykur og loft. Og það er alveg ljóst hvað eftir er þegar eggjahvíturnar og sykurinn eru tekin út. Svo að þessari spurningu gat ég með góðri samvisku svarað: nei, ég veit ekki um neina uppskrift að eggja- og sykurlausum marens.
Það er langt síðan þetta var og mikið hefur gerst í matarheiminum – ja, eða gervimatarheiminum. Ýmiss konar sykurlíki og sætuefni hafa komið fram, svo og eggjalíki og margt annað, og ég efast ekki um að nú sé hægt að baka eitthvað úr þessu og kalla það marens. Og það getur verið að þetta minni dálítið á marens og það getur vel verið að þetta sé meira að segja gott, allavega ef maður er hrifinn af marens og vill gjarnan telja sér trú um að þetta sé bara víst marens og maður geti haldið áfram að borða hann þrátt fyrir eggja- og sykurleysið.
Getur pizza verið gerð úr blómkáli?
Þetta er bara ekki marens. Marens er vel skilgreint hugtak og eitthvað sem gert er úr eggjalíki og sykurlíki verður aldrei marens, ekki frekar en að blómkálsbotn eða eggjabotn með pizzuáleggi verður pizza. Það getur verið alveg ágætur matur en er komið ansi langt frá pizzunni – en ég skrifa þetta reyndar stödd í Róm, þar sem pizzur eru teknar mjög alvarlega og matseðlinum á pizzeríunum er oftast skipt í pizza rosso og pizza bianco – með eða án tómatsósu – og ég sé ekki alveg fyrir mér pizza cavolifiore í þeim félagsskap. Fyrir mér er þetta svolítið eins og kjötlausar kjötbökur.
En heyrðu, spyr kannski einhver, varst þú ekki að gefa út bók um sykurlaust sætmeti? Ójú, og það er einmitt þess vegna sem ég er búin að vera mikið að velta þessum hlutum fyrir mér að undanförnu. Ég veit að það er ákveðin mótsögn í þessu. Ég get reyndar bjargað mér fyrir horn með því að benda á að ég er fyrst og fremst að benda á leiðir til að forðast viðbættan sykur og verksmiðjuframleidd sætuefni en nota ávexti í staðinn (og nei, það er engin marensuppskrift í bókinni), en það sama má örugglega segja um blómkálspizzuna og annað slíkt.
Ber maturinn ábyrgð?
Ég var áðan að fletta ensku tímariti sem heitir Free-From Heaven. Fallegar myndir og girnilegar uppskriftir en mér finnst samt pínulítið dapurlegt að sjá að því sé líkt við himnaríki að losna við hinar og þessar fæðutegundir. Mér finnst visst áhyggjuefni hvað mataruppskriftir og umfjöllun um mat er farin að beinast mikið að því að forðast eða útiloka alveg ákveðna þætti úr mat. Að gera matinn að sökudólgi eða blóraböggli – og þar er ég auðvitað sek líka. Sumir þurfa þess vissulega með vegna sjúkdóma, óþols eða annars og sumir telja sig bæta heilsuna, losna við meltingarvandamál og annað ef þeir sleppa ákveðnum fæðutegundum eða fæðuflokkum. Sjálf hætti ég að borða sykur vegna þess að blóðsykurinn var orðinn óeðlilega hár. En ég veit vel að það var ekki sykrinum að kenna, heldur mér.
Athugasemdir