Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Hnattvæðing og alþjóðaremba

Ég hitti hann Jim frá Ástralíu í Frakklandi árið 2003. Greindur karl og geðslegur, ákveðinn í skoðunum. Hann taldi innrásina í Írak hið besta mál, Saddam hefði örugglega átt gjöreyðingarvopn.

Bandarískt efnahagslíf væri mjög traust og þar vestra væri enginn rasismi.

Hnattvæðingin væri sigurverk, í framtíðinni myndu borgríki taka við af nútímaríkjum í krafti þessarar væðingar. Og innan tuttugu ára yrðu ungir Frakkar jafn vel mæltir á ensku og Norðurevrópumenn.

Ekki reyndist spávísi hans mikil, bandarískt efnahagslíf hrundi fimm árum síðar, ekki bólar á borgríkjum og ungir Frakkar jafn illa talandi á ensku sem  fyrr.

Þarf að nefna að Saddam átti engin gjöreyðingarvopn og að  rasismi lifir góðu lífi í Bandaríkjunum? Hefði Trump orðið forseti án hans?

Frá alþjóðarembu til þjóðrembu.

Í byrjun aldarinnar virtist sem alþjóðahyggja, jafnvel alþjóðaremba, hefði skákað þjóðernishyggju svo hressilega að hún ætti sér ekki viðreisnar von.

En á síðustu árum hefur þjóðernishyggju og þjóðrembu heldur betur vaxið fiskur um hrygg.

Stjórnlyndir þjóðrembungar  tóku völdin víða, menn á borð við Donald Trump, Victor Orbán, Kaczynski bræður í Póllandi, Xi Jinping og Vladimir Pútín.

Sá síðastnefndi  leikur á rússneska þjóðrembustrengi þegar hann sigar soldátum á Úkraínumenn, þeir séu eiginlega Rússar og þeim beri því að lúta Moskvuvaldinu (þjóðremban kveður á um að allir sem tala tiltekið mál eigi að tilheyra sama ríkinu).

Xi Jinping hinn kínverski boðar fremur þjóðernishyggju en kommúnisma, Orbán og flokkur Kaczynskis eru öfgaþjóðernissinnar.

Spyrja má hvort alþjóðahyggjan hafi gengið of langt, „tesa“ vill oft kalla á „anti-tesu“, öfgar á gagnstæðar öfgar. Þannig hafi það sem ég kalla  „alþjóðarembu“  getið af sér nýja þjóðrembu.

Rodrik um hnattvæðinguna

Alþjóðaremban var frjálshyggjuættar, í hugum frjálshyggjumanna virkar markaðurinn því betur því alþjóðavæddari sem hann sé.

Tony Blair var kannski ekki hreinræktaður frjálshyggjumaður en hann sagði í frjálshyggjuanda að ekkert vit væri í að spyrja hvort hnattvæðingin héldi áfram, það var eins og að spyrja hvort haust kæmi á eftir sumri (skv Rodrik 2019: 27).

Þannig talaði fjöldi  frjálshyggjumanna (þ.á.m. Jim)  í byrjun aldarinnar, þeir töldu sig geta séð fram í tímann. Rétt eins og skoðanabróðir þeirra Herbert Spencer forðum tíð  og æði margir marxistar um ár og síð.

Ég hef áður tekið undir gagnrýni Karls Poppers á slíka spávísi og hyggst ekki endurtaka það.

Við má bæta að árstíðarnar okkar eru ekki hnattrænt fyrirbæri, í Asíu sunnanverðri er ekkert vit í að tala um annað en tvær árstíðir, regntímann og þurrkatímann. Og við miðbaug eru engar árstíðir.

Kannski hefur hnattvæðingin takmarkað gildi rétt eins og skipting okkar í árstíðir.

Alla vega gagnrýnir tyrknesk-bandaríski hagfræðingurinn Dani Rodrik það sem hann nefnir „ofurhnattvæðingu“ (e. hyperglobalization), þ.e. hnattvæðingu eftir forskriftum frjálshyggjunnar.

Hnattvæðingin á síðustu áratugum hafi verið þeim anda, hún væri ein af orsakavöldum fjármálakreppunnar 2007-2009.

Betra væri að fara sér hægar, leyfa þróunarríkjum að þróa efnahag sinn með breiðum hætti í stað þess að sérhæfa sig í því sem þau ættu að gera best samkvæmt frjálshyggjuformúlum (Rodrik 2019: 26–33).

Þessi kenning er svo sem ekki ný af nálinni, fræðimenn á borð við nóbelshagfræðinginn Joseph Stiglitz hafa bent á að flest iðnríki  hafi iðnvæðst bak við tollmúra.

Þetta hafi verið skynsamleg stefna, vernda varð hinn viðkvæma frumiðnað þessara landa fyrir samkeppni rétt eins og smábörn fyrir vélum hennar verslu (Stiglitz 2000).

Nefna má að hinn sífrjói hugsuður John Gray staðhæfði að hnattvæðingin sé happadrjúg hryðjuverkamönnum, glæpahringjum og dópsölum.

Kapítalisminn þurfi ekki frjálsan heimsmarkað til að virka, öðru nær. Markaðskerfið þarfnist friðar og öryggis auk skynsamlegra reglna fyrir kaupsýslu.

En hnattvæðingin ógni friði, öryggi og traustum viðskiptum og getur því reynst markaðskerfinu skeinuhætt (Gray 2002) (sjá einnig Stefán Snævarr 2011: 229–254).

En getur Gray neitað því að hnattvæðingin hafi átt mikinn þátt í að gera milljónir  örfátækra manna bjargálna?

Um leið má spyrja hvort hnattvæðingin hafi verið vistkerfum heimsins til góðs. Á hún þátt í hamfarahlýnun? Spyr sá sem ekki veit. 

Hættur hnattvæðingar

Bæta má við  Jens Stoltenberg segir  í nýlegu viðtali að hann hafi trúað eindregið á hnattvæðinguna lengi (Stoltenberg 2022).

En hann hafi á síðustu árum séð að hún hafi gert Vesturlönd efnahagslega háð einræðisríkjum eins og Kína og Rússlandi. 

Þau  noti hana til að efla herstyrk sinn og berjast gegn lýðfrelsi (samanber það sem Gray segir um að hnattvæðingin geti leitt til ófriðar).

Pútín hefði ekki getað notað sem vopn  það að hindra kornútflutning frá Úkraínu án hnattvæðingar. Erdogan hefði heldur ekki getað notað flóttamenn sem vopn nema vegna hnattvæðingar.

Þjóðverjar tala um „Wandel durch Handel“, umbreytingu vegna verslunar. Gagnkvæm viðskipti þjóða stuðli  að friði milli þeirra og efldi lýðræði og frelsi (þetta er vinsæl frjálshyggjukenning).

En spyrja má hvort leiðtogar Rússlands og Kína noti  aukna verslun við önnur lönd til að ná kverkataki á þeim (ég hef áður nefnt hvernig Rússar nota Wagnerherinn til að ná tökum á Afríkuríkjum).

Alla vega segja sumir að  Kínverjar láni þriðja heims ríkjum stórfé, lán sem þau geti ekki borgað aftur og verði með því háð Kínverjum. Nýlega tóku þeir höfn í Sri Lanka upp í skuldir, mega ráða henni í tæpa öld.

 Og þrátt fyrir mikil viðskipti við Tævan láta Kínverjar dólgslega við Tævanbúa, munu líklega reyna að taka Tævan herskildi er fram líða stundir.

Athugið að Tævan framleiðir um helming allra kísilflagna (e. chips) í heiminum, leggi Kínverjar landið undir sig gætu þeir náð hreðjataki á Vesturlöndum.

Það mögulega hreðjatak er afurð hnattvæðingarinnar. Ekki bætir úr skák að í  Kína má finna ýmis snefilefni sem nauðsynleg eru í tölvuiðnaðinum. Þessi efni er hvergi annars staðar að finna. 

Ekki skorti viðskiptatengsl milli Rússlands og Úkraínu, samt réðust Rússar á landið. Og heimurinn hafði aldrei verið hnattvæddari en 1914, þrátt fyrir það hófst mikill hildarleikur þar sem „viðskiptavinir“ bárust á banaspjótum.

Bæta má við að  núverandi spenna milli Vesturlanda annars vegar, Kína og Rússlands hins vegar, gæti gengið að hnattvæðingunni dauðri.

Það væri mjög af hinu illa þar eð hún hefur ýmsa kosti, sennilega fleiri kosti en ókosti. Lífskjör Kínverja hafa ekki batnað eilítið hennar vegna en ekki hefur það aukið lýðræði og frelsi í landi þeirra.

Þvert á móti notar kommúnistaflokkurinn kínverski tækni, sem er afurð viðskiptafrelsis, til að kúga þjóðina.

Lokaorð

Það er  engin formúla til fyrir því hvernig efla megi frelsi, friðsemd, velsæld og lýðræði. Engin ástæða er til að trúa kenningunni um „Wandel durch Handel“.

Alþjóðarembungar skilja ekki að flest sverð eru tvíeggja, það gildir í hæsta máta um hnattvæðinguna.  

Illskást er að leita meðalhófsins, vera hófsamur hnattvæðingarsinni en um leið gætin þjóðernissinni.

Reyna að sameina hið „glóbala“ og hið „lókala“, forðast jafnt alþjóðarembu sem þjóðrembu.

Og fyrir alla muni, ekki leika spámann!

Heimildir:

„China: Is it Burdening Developing Countries with Unsustainable Debt?“ BBChttps://www.bbc.com/news/59585507 Sótt 6/8 2022

Gray, John 2002: "The End of Globalization", Resurgance, 212, maí/júní. http://www.resurgence.org/magazine/issue212-kamasutra-the-art-of-love.html. Sótt 10/5 2005.

Rodrik, Dani 2019: „Globalization‘s Wrong Turn. And How it Hurt America“, Foreign Affairs, júlí/ágúst, Vol. 98, No. 4, bls. 26–33.

Stefán Snævarr 2011: Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið við henni. Reykjavík: Heimskringla, bls. 229–254.

Stiglitz, Joseph 2000: "What I learned at the World Economic Crisis. The Insider View", The New Republic, 17. apríl, http://www.mindfully.org/WTO/Joseph-Stiglitz-IMF17apr00.htm. Sótt 1/3 2002.

Stoltenberg, Jens 2022: Viðtal í Aftenposten.https://www.aftenposten.no/verden/i/x8od8G/krigen-har-endret-europa-den-har-ogsaa-endret-jens-stoltenberg

 

Athugasemdir (9)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • IK
    Ingibjörg Kolbeins skrifaði
    Takk fyrir pistilinn. Hér er smá spuni (kannski spá!) við setninguna hjá þér: „En getur Gray neitað því að hnattvæðingin hafi átt mikinn þátt í að gera milljónir örfátækra manna bjargálna?“
    Ég er tiltölulega hlutlaus um hvort hnattvæðing sé af hinu góða eða illa. Augljóslega eyðileggur hnattvæðingin býsna margt í þjóðlegri menningu, siðum og stjórnarháttum, störf glatast og flytjast yfir landamæri. Það er ýmislegt sem kemur í staðinn, allskonar menningarheimar sem áður voru aðskildir blandast, vitund um að við eigum þennan hnött saman verður til, að ekki sé ónefnd tæknivæðingin og framþróun á því sviði sem á eftir að margfaldast með því að leysa úr læðingi sköpunarmátt milljóna/milljarða manna um allan heim. Það er hið síðastnefnda sem skiptir sköpum að mínu áliti.
    Ef grannt er skoðað er hnattvæðingin rekin áfram af sömu undirliggjandi viðskiptalegum ástæðum og markaðsvæðing (kapitalisering) þjóðríkjanna á 19. og 20. öldinni. Stórar viðskiptablokkir eru augljóslega hagkvæmari, verkaskipting milli landa með just-in-time hagkerfi er sömuleiðis ábatasamari (fyrir kapitalistanna, hvað annað?). Hnattvæðingin hefur hins vegar opnað dyr fyrir milljörðum manna utan Vesturlanda (eins og sveitafólkinu á Vesturlöndum á sínum tíma), sem eygja möguleika á störfum, menntun og uppfyllingu drauma sinna.
    Hnattvæðingin stafar því ekki af einhverri alþjóðastefnu eða meðvitaðri ákvörðun um að fara þá leið. Þjóðremban, valdbrölt Pútíns og Kís, Brexit, mAga o.fl., eru hins vegar meðvitað andóf gegn hnattvæðingunni. Ég á von á því að þeir muni vinna sigra hér og þar, og reyna að spyrna við hnattvæðingunni um lengri eða skemmri tíma, jafnvel steypa mannkyninu í þriðju heimsstyrjöldina. Þegar til lengdar lætur mun þó sá heimur sem hefur opnast mannkyninu með hnattvæðingunni ekki verða lokaður.

    Ómar Harðarson
    0
    • SVS
      Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
      Takk fyrir þetta en ekki sýnist mér þú vera hlutlaus um hnattvæðinguna heldur henni mjög fylgjandi. Hnattvæðingin gerir framferði Pútins og Xi mögulegt, einnig væri lítið um öfgaíslömsk hryðjuverk á Vesturlöndum án hnattvæðingar. Hún er tvíeggja sverð eins og svo margt annað.
      0
    • SVS
      Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
      Þú talar eins og hnattvæðingin hljóti að sigra á endanum. En tæpast gerir hún það ef heimsstyrjöld verður. Lifi einhver hluti mannkynsins af þann hildarleik þá mun hann lifa nánast á steinaldarstigi, ekki mun verða mikil hnattvæðing þá.
      0
    • IK
      Ingibjörg Kolbeins skrifaði
      Ómar Harðarson skrifar
      Ég er ekki hlutlaus hvað það varðar að mig langar ekki til að skipa mér í lið með þjóðernisöfgamönnum.
      Hins vegar er hnattvæðingin tvíeggjað sverð á svipaðan hátt og stórkapitalisminn Á síðustu öld kallaði hann fram andsvar í formi kommúnisma í Sovjetinu, fasisma á Ítalíu og nasisma í Þýskalandi. Milljónir manna létu lífið af þeirra völdum. Hefðu menn vitað það fyrir, myndu menn hafa þess vegna verið á móti kapitalismanum?
      Auðvitað er vart hægt að hugsa þriðju heimsstyrjöldina til enda og lítið gagn af því að spá, en af öllum sviðsmyndum er samt steinaldarútgáfan sú ólíklegasta að mínu mati.
      0
    • SVS
      Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
      Takk er að miklu leyti sammála þér en ekki var fasismi og nasismi andsvar við stórkapítalisma á sama hátt og kommúnisminn. Tengsl nasista og fasista við kapítalismann eru flókin, þeir hófu valdaferil sinn á mikilli einkavæðingu og nutu stuðnings ýmissa stórkapítalista. En nasistar notuðu þessa peningamenn sér til framdráttar, leyfðu þeim að græða, t.d. með því að fá að nota fanga sem vinnuafl. Samt réðu nasistabroddarnir því sem þeir vildu ráða, fangelsuðu t.d. iðnjöfurinn Thyssen þegar hann snerist gegna þeim eftir að hafa legið flatur fyrir þeim lengi. Hvað sem því líður er ekki hægt að kalla nasista og fasista andkapítalíska þótt vinstriarmur flokka þeirra hafi verið það. Til dæmis var stefnuskrá nasista skrifuð af vinstriarminum áður en Hitler gekk í flokkinn og færði hann til hægri-í megindráttum. Nasistar voru tækifærissinnar í mörgu, efnahagsstefnu, heimspeki og trúarbrögðum. En ofstækisfullir rasistar og Gyðingahatarar, lýðræðisóvinir og andkommúnstar.
      0
    • IK
      Ingibjörg Kolbeins skrifaði
      Ómar Harðarson skrifar
      Við eru að verða nær alveg sammála! Auðvitað var nasisminn og fasisminn ekki sambærilegur kommúnismanum ef litið er á stefnuskrár og orðræðu. Allir ná þó völdum eftir fyrri heimsstyrjöldina í kjölfar gríðarlega andúð alls almennings á þeim öflum sem höfðu steypt þjóðunum í stríðsrekstur og efnahagskreppu.
      Svo er líka í dag. Boris, Putin, Kí, LePen, Urban og Trump eiga margt sameiginlegt skoðanalega séð, en kannske ekki með Khameini í Íran. Engu að síður sækja þau þó öll almannastuðning í andóf við hnattvæðingu og drauma um glæsta fortíð.
      Að mínu mati verður ekki hægt að stöðva hnattvæðinguna. Svarið er því ekki að rembast gegn henni, heldur reyna að snyrta agnúana af henni á klassískan sósíaldemókratískan hátt. (Er þetta kannski leiðin sem Mette Frederiksen er að feta?)
      0
    • SVS
      Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
      Hér koma síðbúnar athugasemdir: Sammála um að kratavæða beri hnattvæðingu, t.d. með Tobinskatti, sé hann raunhæfur. En óssammála að hnattvæðing verði ekki stöðvuð: Hún myndi stöðvast af kjarnorkustríði, sennilega líka hamfarahlýnun og mögulegum geimhamförum. Þess utan eru óskilyrtar spásagnir (hnattvæðing mun halda áfram) þekkingarlega inntaksrýrar eins og heimspekingurinn Karl Popper bendir á. Vitrænar spásagnir eru skilyrtar: Ef þættir x, y og z verða áfram til staðar og þættir a, b og c bætast ekki við þá heldur hnattvæðing áfram. En við getum ekki vitað með öruggri vissu hvort þættirnir verða viðvarandi og að aðrir bætist ekki við. Þetta þýðir að við getum ekki spáð fyrir um framtíðina af neinu viti. Þetta er vísindalegt viðhorf, sérfræðingar um hamfarahlýnun gera sviðsetningar (e. scenarios) af þessu skilyrta tagi: Ef r, s. og t, þá hlýnun um 1.5 % ef x, y og z þá hlýnun um 2.5%. Svo má reyna að reikna líkurnar á því að sviðsetningar rætist. Auðvitað gæti viljað svo til að spásögn þín rætist en hún getur ekki talist vera þekkingarleg.
      0
  • SSS
    Sigurjón Smári Sverrisson skrifaði
    Takk Stefán enda góður að vanda.
    Þetta finnst mér skera sig úr sem algjör gullmoli.

    "Reyna að sameina hið „glóbala“ og hið „lókala“, forðast jafnt alþjóðarembu sem þjóðrembu.

    Og fyrir alla muni, ekki leika spámann!"
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu