Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Trump sveigir til vinstri

Fyrir tveimur árum síðan byrjaði Hillary Clinton að gagnrýna Obama í fjölmiðlum. Hún var ekki lengur í ríkisstjórn og vinsældir Obama lækkandi, hún vildi skapa fjarlægð milli þeirra tveggja og ímynd miðjusinna. 

Sennilega sá hún ekki fyrir sér að nein raunveruleg áskorun kæmi gagnvart sér á vinstrihlið, en flestum til undrunar kom gamall sósíalisti (óflokksbundinn fram til þessa) frá Vermont og hrifsaði til sín fylgi.

Clinton hefur síðan þá hlaupið aftur til vinstri. Byrjað að tala fyrir ókeypis háskólagöngu, og byrjað að verja Obama heiftarlega, reyndar hefur hún nú margoft lýst yfir aðdáun sinni á forsetanum núna og ásakað andstæðing sinn um að hafa verið andstæðingur Obama.

En hvers vegna fór Hillary til hægri?

Í raunveruleikanum var hún mun lengra til vinstri en orð hennar fyrr á kjörtímabilinu vísuðu til. Hún barðist þrátt fyrir allt fyrir mun róttækari umbótum á heilbrigðiskerfi Bandaríkjana þegar hún og Bill voru fyrst í Hvíta húsinu, heldur en Obama nokkurn tímann. Bernie Sanders er í raun hlynntur gamla Clinton-kerfinu.

Það er þekkt taktík hjá bæði repúblikönum og demókrötum að sveigja inn á miðju eftir sigur í forvalinu. Hillary Clinton tapaði á móti Obama þegar kjósendur álitu hann vinstrisinnaðri kostinn, en eftir það tók Obama að tala í hægrisinnaðri tón. Það sama gildir um repúblikana, í forvalinu hljóma þeir hægrisinnaðri en í sjálfum kosningunum, þá skyndilega byrja þeir að tala um að þeir sjái ekki fyrir sér að banna allar fóstureyðingar, eða leyfa byssur allsstaðar og ætla alls ekki að skera niður velferðarkerfið ... bara nútímavæða það aðeins.

En hvað er Trump að gera núna.

Þetta viðtal á Fox-news sýnir glögglega að hann telur sig vera nú í framboði á móti Hillary og Bernie. Hann talar um að hann vilji ekki sjá fólk deyja út á götu og því verði að vera gott heilbrigðiskerfi. (Segist ekki ætla að afnema Obama-Care nema eitthvað komi í staðinn ... sem í raun þýðir að hann ætli ekki að afnema það).

Svo er hann líka allt í einu frekar virðuglegur. Andstæðingar hans eru gáfað fólk, sem sé núna fyrirgefið gamlar syndir.

Ofan á þetta bætist að Trump hefur verið mjög gagnrýninn á George Bush, Íraksstríðið og jafnvel gengið lengra en margir demókratar með því að ásaka forsetann um að hafa logið að þjóðinni. (Sem hann gerði ...)

Er Donald Trump að færa sig of snemma inn á miðjuna? Hann gæti tapað 10% fylgi á landsvísu og samt hugsanlega unnið forval repúblikana. Þetta gæti verið fulldjarft hjá honum, en þetta er djarft engu að síður. Við skulum ekki útiloka að bráðum byrji hann að koma betur út í skoðanakönnunum á móti Bernie og Hillary.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni