Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Þegar sum atkvæði eru jafnari en önnur

Það er rosa margt sem hægt er að vera ósammála um. Hvað er gott álegg á pizzu, hvað er góð tónlist eða góður smekkur, hvort við eigum að setja vatn á tannburstann fyrir eða eftir að tannkremið kemur úr túpunni. Það eru líka ótal skoðanir á hvernig samfélag við eigum að reka, um 80% Íslendinga vilja að sjúkrahús séu rekin af hinu opinbera, meðan aðrir vilja blanda einkarekstri og ríkisrekstri, sumir vilja leyfa sölu á bjór í matvörubúðum og aðrir vilja geta keypt búsið sitt allt á sama staðnum, sumir sjá ofsjónum yfir styrkjum til menningar eða íþrótta, meðan öðrum finnst við frekar nísk gagnvart fólkinu sem fegrar heiminn og fyllir skjáina af einhverju athyglisverðu til að horfa á.

Með öðrum orðum þá eru kjósendur á mörgum stöðum í hinu pólitíska litrófi. Það er eðlilegt að til sé íhaldsamt fólk sem vill ríghalda í hefðir, og hrís hugur við því sem aðrir kalla frjálslyndi, og sömuleiðis er gott að til sé fólk sem vill leyfa meira og ekki standa í vegi fyrir leit annarra að hamingjunni. Það er frábært að til sé fólk sem er svo annt um aðra í samfélaginu að það myndi með gleði borga mun hærri skatta ef það tryggði að allir hefðu það aðeins betra, og sömuleiðis skiljanlegt að sumir vilji ekki greiða hærri skatta en þeir gera nú þegar.

Með öðrum orðum þá hef ég mínar skoðanir og skil það vel ef við erum ekki sammála í öllu, en eina skoðun fæ ég þó ekki skilið, og hún varðar hvorki pizzaálegg né plön um landbúnaðarstefnu, heldur hvernig lýðræðið sjálft á að virka í framkvæmd.

Því það er greinilegt að sumum finnst að ekki eigi öll atkvæði að vega jafnþungt. Sem er sérkennilegt, því að maður hefði haldið að það væri það sem við gætum öll verið sammála um. Var ekki einhvern veginn þannig sem við áttum að leysa úr öllum hinum ágreiningsefnunum? Áttum við ekki að kjósa um þau, og sjá svo til næstu fjögur árin?

En eins undarlegt og það kann að hljóma þá komst alþingi að þeirri niðurstöðu að atkvæði allra Íslendinga ættu alls ekkert að vera jöfn. Við eigum öll rétt á okkar skoðun samkvæmt stjórnarskrá, megum tjá hana, en hversu þungt hún fær að vega í kosningum skal velta á póstnúmerinu sem kjósandinn á lögheimili sitt í, og engu öðru.

Enn skrítnara er að sumir sem eru á þingi komust að þeirri niðurstöðu að atkvæði þeirra sem komu þeim þangað ættu að vega minna. Reykjavíkurþingmennirnir Katrín Jakobsdóttir og Kolbeinn Óttarson Proppé telja greinilega að þau atkvæði sem komu norðausturkjördæmis-þingmanninum Sigmundi Davíð inn á þing eigi að vega þyngra heldur en þeirra sem greiddu þeim atkvæði í ráðhúsi Reykjavíkur eða Hagaskóla. Og Kraga-þingmönnunum Bjarna Benediktssyni og Jón Gunnarssyni fannst greinilega að þeir sem greiddu Guðjón S. Brjánssyni og Lilju Rafney í Norðvesturkjördæmi atkvæði sitt, eigi að skipta meira máli en þeirra sem greiddu þeim atkvæði á Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi.

Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem að þingmenn Kragans og Reykjavíkur lýsa yfir algjöru vantrausti á dómgreind kjósenda sinna. En það er spurning hvort að þeir þingmenn sem vilja að kjósendur í Hafnarfirði séu hálfdrættingar á við kjósendur á Flateyri, ættu kannski frekar að bjóða sig fram í þeim kjördæmum þar sem atkvæðin vega þyngra. Af því greinilega finnst þeim þeir kjósendur og þeirra skoðun skipta mun meira máli.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni