Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Stóra Gaslýsingin

Maður fær stundum illt í sálina þegar maður rökræðir þjóðfélagsmál við ókunnuga á netinu. Þá er ég ekki að meina tröllin, sem kannski orðljót, fávís og illa stafandi hvetja til mannvonsku. Nei, það sem fær sálartetrið í mér fyrst og fremst til að verkja er þegar ég rekst á fólk sem er á launum og vinnur við að gaslýsa allan daginn í þágu hagsmunaaðila, reynir að sannfæra mig um að við í grunninn séum sammála um að það sé öllum fyrir bestu að hrófla aldrei við neinu óréttlæti, og ræða aldrei nein aðalatriði.

Þessir atvinnu-gaslýsarar vinna stundum fyrir samtök, ef þeir eru ekki beinlínis beint á launaskrá einhvers sjávarútvegs-fyrirtækis við að hrella fólk, og stundum heyra þeir beint undir einhvern stjórnarráðinu. Þeir eru sérstaklega áberandi þessa daganna vegna umræðu um stjórnarskrá.

Þó svo að umgangast þetta fólk rafrænt sé eflaust óhollt fyrir geðheilsu þína, þá hvet ég þig kæri hlustandi til að smjatta á röksemdum þessa fólks, og svara, og hafa hugfast að láta ekki teyma þig af leið heldur spyrja alltaf að aðalatriðunum. Aðalatriði er ekki endilega hvort forseti eigi að sitja sex ára kjörtímabil í stóli eða fjögur, heldur eitthvað eins og, en af hverju innihalda þessar tillögur ekki eitthvað um að þjóðin hafi eignarrétt á auðlindum sínum, að Íslendingar eigi rétt á náttúru, heilsu, menntun, eða geti krafist þess að hafa einhver áhrif á stjórn landsins sem þeir búa í.

En auðvitað eru takmörk á hversu lengi maður getur þolað að láta teyma sig rafrænt á asnaeyrunum. Sumt fólk vinnur við að snúa út úr, og annað fólk hefur alvöru vinnu (eða hafði áður en Covid kom og ríkisstjórninni tókst að missa efnahagsmálin úr höndum sínum). Mundu samt að þú gerir öðrum greiða þegar þú leiðréttir rangfærslur og sýnir hinum sem algórithminn leiðir að þessum net-þrætum að þau séu ekki klikkuð, þeim hafi ekki bara dreymt það, þjóðin í alvöru kaus um tillögur að nýrri stjórnarskrá fyrir átta árum og niðurstöðurnar hafa verið hunsaðar síðan þá.

Og þessi ríkisstjórn hunsar líka þjóðaratkvæðagreiðsluna, sama hvað öllu tali um samráð, samráðsgáttir, og rökræðukannanir líður. Því barátta fyrir nýrri stjórnarskrá hófst með draum um betra Ísland, frjálsara, jafnara og heiðarlegra, ekki baráttu fyrir breyttum skrifstofutíma á Bessastöðum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni