Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Reddum sumrinu, björgum vetrinum

Við erum öll í þessu saman er frasi sem heyrist oft þessa daganna, en sumar kennitölur eru jafnari en aðrar. Þetta á sérstaklega við um kennitölur sem tilheyra fyrirtækjum ekki fólki, sem er skrítið, í ljósi þess að það er mannfólkið sem heldur samfélaginu og fyrirtækjunum gangandi en ekki öfugt. Fyrir-tæki er fyrst og fremst það sem orðið segir að það sé, tæki. Þetta tæki getur greitt skatta heima þar sem það býr til tekjurnar sínar, eða falið þá í skattholi einhvers staðar, það getur greitt eiganda sínum arð, stundum mengar það án þess að hreinsa upp eftir sig, og þessa hluti þolum við sem samfélag þrátt fyrir að flest eigum við ekki fyrirtæki.

Við þolum stundum slæma hegðun í von um að fyrirtæki ráði fólk í vinnu, og við viljum flest hafa vinnu af því með þeirri leið náum við að lifa. Fyrir utan lífsviðurværið er vinnan svo oft líka stór hluti af sjálfsímynd og sjálfsvirðingu fólks, en ég þarf varla að skrifa það fyrir þá sem lesa þennan pistil. Ég get eiginlega gefið mér að allir lesendur mínir séu fólk en ekki fyrirtæki og viti vel hvernig það er að vera manneskja sem ýmist hefur vinnu eða ekki.

Samt hefur ríkisstjórnin gert allt sem hún getur fyrir fyrirtækin og gleymt fólkinu í sumum tilvikum. Sem er undarlegt, fyrirtæki gæti gufað upp og skipt um kennitölu án þess að það kosti mannslíf, en það sama er ekki hægt að segja um hina kennitöluhafana. Og þar að auki eru flest fyrirtæki hvort sem er dauðadæmd ef fólk hefur ekki pening milli handanna.

Gott dæmi um fólk sem heldur uppi fyrirtækjum eru námsmenn. Nemendur við háskóla og menntaskóla landsins fara nú flest út í sumarið án þess að hafa vinnu. Í fyrstu kann það að hljóma illa en þó ekki hrikalega, mjög margir búa hjá foreldrum og eru ekki í hættu á að skorta lífsnauðsynjar. En mjög margir nemendur, jafnvel í menntaskóla búa ekki við slíkan lúxus, um þann hóp þarf að hugsa sérstaklega vel augljóslega.

Ódýrir matsölustaðir, skemmtistaðir, fatabúðir, kvikmyndahús, menningarrými, alls kyns frumkvöðlar og námskeiða-haldarar eru háðir því að námsmenn hafi eitthvað milli handanna þegar þeir koma út úr sumrinu. Vegna þess hversu miklu máli neysla námsmanna skiptir fyrir litlu tannhjól hagkerfisins getur það haft geigvænleg áhrif að hunsa atvinnukrísu þeirra. Þessi skortur á kaupmætti námsmanna gæti orðið að snjóbolta sem vindur upp á sig allan vetur með þeim afleiðingum að sumarstörfin verði enn færri árið eftir.

Þá skiptir engu máli þó svo fyrirtækinu hafi boðist að segja upp starfsfólki og að ríkið borgi uppsagnarfrestinn, starfsmaðurinn verður ekki endurráðinn ef eftirspurnin eykst ekki í haust eða vetur. Það skiptir heldur ekki máli þó starfsmaðurinn sé settur í hlutastarf og atvinnuleysisbætur sjái um rest, starfsmanninum verður þá bara sagt upp í haust eða hlutfallið minnkað enn frekar þegar samdrátturinn eykst.

Á meðan tillögum um að hjálpa námsmönnum var hafnað, var peningum dælt svokallaða hlutabótaleið sem mörg fyrirtæki misnotuðu. Eitt fyrirtæki greiddi sér 600 milljónir í arð en lét ríkið taka á sig aukin kostnað til að spara sér pening. (Ef fyrirtæki hefðu sálir myndi maður kannski höfða til samvisku þess, eða jafnvel útskýra fyrir því hversu skammsýn þessi aðgerð væri, því ekki myndi fyrirtækið selja mikið í næsta ársfjórðungi ef allir höguðu sér svona).

Fjármálaráðherra kallaði þessa hegðun rýtingsstungu, en hann var varaður við. Fólk með kennitölu hefur samvisku, hinar kennitölurnar hafa það ekki og það verður að haga regluverkinu eftir því. Fyrirtækin greiddu sér arð á meðan ríkið greiddi þeim styrk til að segja upp fólki, og ekki einu sinni var gerð krafa um að þessi fyrirtæki forðuðust að nota skattaskjól. Sem þýðir náttúrulega að þau sem geta komist undan skatti og fengið aðstoð engu að síður munu gera það áfram þótt það sé álíka fáránlegt og ef tryggingafyrirtæki myndi greiða manni skaðabætur sem aldrei hefði greitt neitt tryggingagjald.

Í fljótu bragði lítur það út eins og krísa hafi verið nýtt til þess að dæla fé almennings til einkaaðila, en maður ætti svo sem aldrei að gera ráð fyrir illum ásetningi þegar heimska og klunnaskapur dugar til skýringar.

Þarna fór margt fé til spillis, en maður á aldrei að láta góða krísu fara til spillis eins og Winston Churchill sagði. Við getum nýtt krísuna til að gera góð hluti sem gagnast fólki, og jafnvel til lengri tíma.

Þann 18.mars skrifaði ég pistil um að nú væri að losna hópur fólks með mikla grunnþekkingu sem gæti hjálpað okkur að bjarga íslenskunni. Ef okkur er alvara um að viðhalda þessu örmáli þá þurfum við að tryggja aðgengi að íslensku efni á netinu. Það felur í sér að styðja við fjölmiðla og framleiðslu á alls kyns íslensku efni, en það þarf ekki alltaf að vera jafn stórtækt og heill kvikmyndaiðnaður eða risa efnisveitur.

Á hverjum degi nota ótal Íslendingar wikipedia til að fletta upp sér til gamans, eða vegna þess að þau þurfa að vita eitthvað, og þau neyðast oftar en ekki til að leita inn á ensku útgáfu síðunnar. Enda eru þar sex milljónir færslna (6,075,132), sem oft á tíðum eru mun ítarlegri en þær 49 þúsund(49,690) sem eru á íslensku útgáfunni. (Sem er ekki slæmt miðað við höfðatölu, en samt ekki nógu gott).

Jafnvel þó við réðum tvö hundruð námsmenn í að þýða eða skrifa færslur frá grunni heilt sumar, þá myndi það sennilega ekki færa okkur í flokk með tungumálum á borð við spænsku og ensku, en kannski gætum við náð að keppa við Esperanto með sínar 279 þúsund (279,788) færslur, eða Velsku með sínar 130 þúsund (130,711). Og það myndi dýpka þekkingu þeirra sem vinna við það, jafnvel á því sviði sem þau eru að læra akademískt.

Annað mikilvægt verkefni sem krefst gríðarlegs mannafla er endurheimt votlendis á Íslandi og skógrækt. Ef verstu spár rætast og Grænlandsjökull bráðnar gæti sjórinn í kringum Ísland kólnað með ófyrirséðum og hrikalegum afleiðingum. Svo maður tali nú ekki um ef Golfstraumurinn breytir um átt.

En fyrir utan hversu miklu máli það gæti skipt Ísland að hægja á hlýnun jarðar, þá væri það líka siðferðisleg skylda okkar þó svo lítið væri í húfi fyrir okkur. Milljónir, jafnvel milljarður manna gæti þurft að flýja hlýjustu svæði jarðar á þessari öld, og það er sviðsmynd sem mér langar helst ekki til að draga upp því hún er mjög óhugnanleg.

Þó það væri lítið á vogarskálarnar að þessu sinni, þá væri það snjallt og réttmæt ákvörðun að ráða alla þá námsmenn sem vildu í að moka ofan í skurði og planta trjám þannig að skógar og votlendi skili sér aftur á þá staði sem þeir voru eitt sinn.

Því það eru litlu neytendurnir á borð við námsmenn sem halda hagkerfinu gangandi. Fyrirtæki koma og fara, en þau eru háð því að einhver kaupi vörurnar þeirra. Hvers vegna ekki að sinna brýnum verkefnum, og redda sumrinu til að bjarga vetrinum?

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu