Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Öskurgrenjað á heiminn

Það er sennilega ekki hægt að skrifa of mikið um markaðsátök eða auglýsingaherferðir, enda eru þær ljóðlist nútímans, tjáningarmátinn sem umlykur okkar allan tímann og situr í okkar sameiginlegu undirmeðvitund. Stundum eigum við fátt annað sameiginlegt við næsta mann, annað en að hafa alist upp við sömu auglýsingarnar og eigum þannig sameiginlegan gagnabanka sem við getum vísað í. Já, já, já, ég er tilbúinn. Bræðum hann, skerum hann, sneiðum hann. Öruggur staður til að vera á. Ég mun kannast við ryþmann og hljómfallið í þessum einföldu textum þar til ég dey, jafnvel þó ég muni hafa gleymt nöfnum barnabarna og börnum barnabarna verði ég svo heppinn að eiga slík.

Svo er líka ekkert sem er gott eða slæmt við umtal í sjálfu sér. Umtalið er bara umtal og það á að tala um auglýsingar svo þær heppnist, og það má tala um auglýsingar því þær eru allsstaðar oní kokinu á okkur hvort sem okkur líkar betur eða verr, og stundum njósna þær jafnvel um okkur á samfélagsmiðlum eins og sérhæfð rándýr í leit að auðveldri bráð.

Svo hvað getur maður sagt um Let it out, öskur auglýsinga herferð M&C Saatchi, þessa sneiðmynd af nútíma-markaðssetningu.

Þetta er í sjálfu sér falleg hugmynd. Opinn mic út í náttúruna. Vanalega er það öfugt, að við viljum komast í tæri við náttúruna, ekki senda náttúrunni okkur. Guðmundur Andri Thorsson talaði um urðunarstað, en ég held að öskuhauga líkingin nái ekki alveg að fanga það. Við hendum rusli og viljum gleyma því, en í þessu tilviki vill fólk heyra öskrin sín, eða það er að minnsta kosti meiningin, að það veiti fólki gleði að vita að hrópið þeirra ómar einhvers staðar í fjarska.

Ég veit svo sem ekki hvað mér þætti um auglýsingaherferð frá Kína sem byði mér að öskra á tölvuna mína og senda öskrið út þannig að það bergmálaði á Kínamúrnum, eða skammaði kannski hóp af jakuxum upp á Tíbesku hásléttunni.

Fyrr á öldum ferðuðust Kínverjar, þeir sem tilheyrðu þeirri efri stétt sem gat ferðast sér til ánægju, fyrst og fremst til að sjá staði sem komu fyrir í ljóðum. Og þegar þeir mættu á staðina þá þótti til siðs að semja ljóð, gott ljóð eins og góð ljósmynd gat svo lifað áfram sem sneiðmynd að þessari stund og stað, olli því að staðurinn varð frægari og eftirsóttarverðari að heimsækja og svo gerðist það sem gerist alltaf fyrir ljóð sem eru léleg. Þau gleymdust, og kannski staðirnir með þeim.

Ég er ekki markhópurinn fyrir Ísland, en ég hef ferðast um Kína og ég er sennilega markhópur fyrir ótal staði sem ég hef ekki heimsótt eins og Suður-Ameríku, Marokkó, Indland, Ástralíu og önnur fjarlæg svæði sem gætu tælt mig með einhverju móti og jafnvel sannfært mig um að eyða stórfé til að komast þangað.

Ég veit að mig langar ekkert að öskra á hrægamma í Andezfjöllum, mig langar ekki að angra skjaldbökur eða finkur á Galapagos-eyjum, kæri mig ekki um að trufla sandsnáka og ketti á veiðum í Sahara, vill síður en svo láta viðkvæm kóralrif skjálfa fyrir raddböndum mínum, held að ég myndi ekki heldur vilja láta rödd mína glymja yfir forngrískum rústum á Kýpur ef út í það er farið.

En það er lýsandi að það fyrsta sem lagt er til af auglýsingastofunni M&C Saatchi er þetta öskurgrenj, að bjóða okkur upp á að öskra af því okkur vantar eitthvað í líf okkar.

Þannig nær auglýsingastofan að umbreyta okkur öllum í ungabörn. Við erum ófullnægð í Covid19 eitruðum lífum okkar og þráum eitthvað og af því við fáum það ekki þá megum við öskra.

Megum.

En svo erum við auðvitað ekki ungabörn. Við erum mörg hver nokkurra áratuga gömul og höfum upplifað ýmislegt. Lært tungumál og sum okkar jafnvel tvö eða fleiri.

Af hverju ætti einhver að vilja öskra á sauðfé, tófur eða lóur? Myndi maður ekki frekar vilja segja þeim eitthvað ef ske kynni að einhver hlusti? Kannski hugleiðingar, kannski ljóð, kannski bara kyrja lótussútruna, fara með faðirvorið eða segja brandara.

Því opinn mic er svo ótrúlega margt.

En samt auðvitað viðeigandi að byrja á öskurgrenjinu. Þannig komum við öll í heiminn.

Og það er ekki eins og við höfum lært nokkuð síðan þá.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni