Þessi færsla er meira en ársgömul.

Lestrargeta sem píptest

Kæru menntamálayfirvöld,

Hér er hugmynd hvernig við getum aukið lestrarhraða í þágu atvinnulífsins:

Ég legg til að við mælum leshraða svipað og við mælum þol. Með píptesti. Start level one. Sami textinn skal lesinn aftur og aftur. Píp! Start level three. Síðan byrja þau sem ærast af leiðindum fyrst að hellast aftur úr lestinni.

Start level three. Píp. Eitt af öðru detta þau út greyin litlu sem ekki stautað sig í gegnum textann til gagns. Að lokum eru bara þrjóskustu krakkarnir eftir. Með rauðþrútin augu þylja þau upp romsuna móð. (Sem verður helst eitthvað eins og Ari sá sól. Sól sá Ara. Eða mjög fullorðinslegt ljóð sem enginn krakki nær tengingu við). Start level seven. Píp.

Ég vil meina að með sameiginlegu átaki geti okkur tekist að gera það jafnleiðinlegt að lesa fyrir börn og það er að hlaupa fram og til baka. Flest börn elska að hlaupa fram og tilbaka þar til þau komast í tæri við píp-test, en það er nú önnur saga.

Píp. Start level ten. Að lokum stendur uppi einn sigurvegari í átta ára bekknum. Krakkinn sem þylur merkingarlausan texta á mestum hraða. Sá getur aldeilis lesið sér til gagns og á framtíðina fyrir sér á vinnumarkaðinum þar sem sá sem les hraðast vinnur mest. Hraði er framleiðni, og framleiðni er góð.

Kannski munu einhverjir halda áfram að lesa hægt. Einhverjir úr eldri kynslóðum. En hvaða gagn er í því? Píp!

Einlæglega, og laus við alla hæðni,

S.B. Listflakkarinn

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Snæbjörn Reynisson skrifaði
    Alveg heillast ég af rithöfundum sem hafa á valdi sínu að endurskapa orðatiltæki. "Að heltast úr lestinni" verður "að hellast aftur úr lestinni". Mig grunar að málskilningurinn sem lestrarnám hans hefur gefið honum bjóði upp á margskonar frumlegar túlkanir á okkar ástkæra ylhýra máli - það er list!
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni