Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Hvatningarorð til þingmanna í dag

Það gengur þvert gegn mínum prinsippum að skrifa blogg tvisvar sama dag, í stað þess að vinna að öðrum skrifum eða jafnvel taka til, en mér finnst svo mikið í húfi að ég get ekki annað en hripað niður nokkur orð.

Megi þau vera þeim sem eru sammála mér hvatning, megi þau vera öðrum umhugsunarefni.

Í dag stendur til að kjósa um að fella úr gildi lög sem hafa gert hluta Íslendinga að jaðarhóp og refsað honum fyrir fátt annað en veikindi, geðræn eða líkamleg. Þetta er mikið tilfinningamál því um er að ræða efni sem hafa lagt líf fólks í rúst, og eru enn þann dag í dag að rústa lífum og fjölskyldum.

Þessi efni verða enn hættuleg og munu enn halda áfram að valda skaða hvernig sem atkvæðagreiðsla fer í dag á Alþingi. En önnur hliðin hefur að baki sér vísindaleg gögn sem styðja við nútímalegri og mannúðlegri nálgun í meðferð ríkisins á veikum einstaklingum og aðstandendum þeirra. Hin hliðin lítur svo á að harðar refsingar og viðvarandi brennimerking á ungu fólki sé leiðin áfram, þvert á flestar rannsóknir, almenna skynsemi og reynslu fyrri áratuga.

Svo nú spyr ég, eigum við að reyna aðferðina sem við höfum reynt síðustu áratugi með lökum árangri, jafnvel engum?

Eða eigum við að reyna nálgunina sem snýst ekki um að loka fólk inni og brennimerkja veikindi sem glæp, aðferð sem hefur reynst öðrum vel?

Mér finnst sönnunarbyrðin liggja með þeim sem vill loka fólk inni, brjóta friðhelgi einkalífsins og beita valdstjórninni til að áreita fólk í viðkvæmri stöðu.

Ekki með þeim sem frekar vilja sýna umhyggju, skilning og hlúa að fólki sem hefur kannski verið óheppnara í lífinu en meðalmaðurinn.

Stundum er það bara spurning um happ og glapp hvort manneskja ánetjast löglegum efnum eða ólöglegum. Það er alltaf sorglegt, en yfirleitt er lausnin sjálfviljug meðferð, og stuðningur fjölskyldu og vina á erfiðum tímum.

Verum skynsöm og beitum þeim aðferðum sem virka.

Kjósið rétt, kæru alþingismenn.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu