Hvað finnst Pírötum um nornaveiðar?

Eftirfarandi spurning barst frá útlöndum:
Sæll, ég hef lesið bloggið þitt lengi og sá að þú ert kominn í framboð fyrir Pírata. Líst vel á ykkur, en segðu mér eitt, hvað finnst Pírötum um nornaveiðar?
Kveðja, nafnlaus
Sæl/Sæll Nafnlaus,
Takk fyrir góða spurningu.
Það vill svo til að fyrir liggur ályktun af félagsfundi fyrr í mánuðinum fjórða október sem svarar þessari spurningu ágætlega:
Með tilvísun til eftirfarandi greinar í grunnstefnu Pírata:
4.1 Gagnsæi snýst um að opna hina valdameiri gagnvart eftirliti hinna valdaminni
álykta Píratar að:
Hófsamar og ábyrgar nornaveiðar gagnist samfélaginu í heild. Sér í lagi þegar nornin er að valda gríðarlegum skaða nærri smærri og stærri byggðarlögum. Þegar spilling veldur miklum efnahagslegum skaða í samfélaginu er full ástæða til að opna allt bókhald og hafa allt uppi á borðum. Við fögnum öllu málefnalegu aðhaldi.
Íslenski nornastofninn var talsvert í rénun og því þótti ástæða til að friða hann. En á síðastliðnum árum hefur orðið gríðarlegur vöxtur í honum aftur. Stofninn hefur meira en tvöfaldast að stærð. Við teljum því eðlilegt að hefja nornaveiðar aftur í vísindaskyni, meðal annars til að geta betur áttað okkur á því hvernig samspil norna í vistkerfinu virkar. Óljóst eignarhald fyrirtækja og leynd yfir innra starfi stjórnmálaflokka gefur nornum ágætt skjól en í því þrífast lýðræðislegri tegundir síður. Hugsjónafólk lætur sjá til sín æ síðar á vorin og kjósandinn farinn að hyggja á önnur mið, situr jafnvel heima hjá sér í stað þess að fara út að kjósa. Að þessum tegundum verður einnig að hlúa.
Athugasemdir