Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Gleymið túristunum, gerum þetta fyrir okkur sjálf

Ef Íslendingar hafa skoðun á einhverju þá eru það hús og höfuðstöðvar.

Hvernig stendur á því að ekkert hús virðist hafa það hlutverk að sýna handrit Íslendingasagnana? (Talandi um ógagnsæi . . . eins mikinn lýðræðislegan rétt og við eigum á því að sjá öll gögn stjórnsýslunar þá væri ég mun frekar til í að sjá Konungsbók)

Mér er svo sem sama hvort að mörghundruð þúsund manns myndu heimsækja safnið eða ekki. Ef hús íslenskra fræða myndi rísa fyrir framan þjóðarbókhlöðu þá ætti inngangseyrir á handritasafnið að vera falinn í aðgangi að þjóðminjasafni hvort sem er ... það er svo sem bara mín skoðun, en a.m.k. ætti þetta að vera aðgengilegt.

Auk þess er ekkert safn sem hýsir gömul meistaraverk íslenskrar myndlistar. Það er að vísu hægt að ganga að Kjarvali á Kjarvalsstöðum, en vilji maður sjá hina stórmálarana þá þarf að bíða eftir því að listasafn Íslands haldi sér-sýningu.

Svo eru fleiri söfn á gaddinum. Náttúruminjasafn fær hvergi pláss af því framsóknarflokkurinn vill geta úthlutað safnmunum að eigin vild til ferðaþjónustuaðila í einkarekstri. Kannski ekki bara framsókn, heldur allir hinir kjördæmapotararnir líka . . . (Sigmundur Davíð ætlaði reyndar að gefa steypireyð án samráðs við náttúrufræðistofnun, líkt og beinagrindin væri einkaeign hans.)

Það er bráðnauðsynlegt að sem borg hafi Reykjavík upp á eitthvað menningarlegt að bjóða. Ekki fyrir túristana heldur okkur sjálf, skólakrakka og Íslendinga sem vilja hafa eitthvað að gera þegar þeir eru á vappi um miðbæinn. Þess vegna held ég að það væri frábært að nota t.d. gömlu Landsbankabygginguna á Austurstræti til að hýsa málverkasafnið sem er í eigu listasafn Íslands svo við öll getum notið þess. (Eitt annað safn er líka óþarflega í geymslu, nefnilega leikmunasafnið, en gamlar sviðsmyndir og búningar gætu jafnvel verið sérdeild í málverkasafninu).

Við ættum að drífa í því að reisa náttúruminjasafn einhvers staðar á háskólasvæðinu í Vatnsmýrinni, t.d. nálægt Norræna húsinu og íslenskri erfðagreiningu.

Svo að sjálfsögðu fylla upp í holu íslenskra fræða.

Þetta myndi lífga upp á borg sem er að drukkna í lundabúðum og almennri framkvæmdagleði. Tveir skemmtilegir göngutúrar væru komnir, einn í nágrenni Háskóla Íslands og annar frá nýlistasafninu í Marshallhúsinu á Granda, sem teygði sig í gegnum listasafn Reykjavíkur, málverkasafnið á Austurstræti og endaði í listasafni Íslands.

Það væri höfuðborg til að vera stolt/ur af.

(Þar að auki legg ég til þess að Sigmundur Davíð hætti að færa grjótið í gamla hafnargarðinum til og láti peningana renna þangað sem þörf er á. Hvaða helvítis rugl er að færa áttatíu ára grjótgarð til?).

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni