Að biðja yfir sig
Ekki biðja fyrir Brussel. Hugsið til Brussel, og hugsið hvernig við getum gert þennan heim betri, öruggari og fallegri.
Það er ekki að ástæðulausu sem fyrsta erindið í Imagine John Lennons fjallar um heim án trúarbragða, engin paradís að ofan, ekkert helvíti að neðan, ekkert til þess að drepa eða deyja fyrir.
Það er til votts um ákveðna hugmyndafræðilega fátækt hjá okkur alþjóðlega þenkjandi vinstrimönnum að þegar krísan hefst þá byrjar fólk strax að veifa fánum og bera fram innantómar bænir. En það eru einmitt þessir fánar og þessar bænir sem sundra okkur.
Ég er ekki að segja að múslimar og kristnir geti ekki lifað hlið við hlið. Það geta þeir og verða að gera. Örlög okkar allra á plánetunni eru samofin, við þurfum að bregðast sameiginlega við umhverfisvánni sem við sköpuðum með of hraðri iðnvæðingu og neyslu-maníu.
Bænir gagnast lítið í þeirri baráttu. Einungis rökhugsun og samkennd getur komið okkur áfram. Til að finna lausnir þarf að hugsa, og til að finna réttar lausnir þarf að elska allt mannkynið jafnt.
Ég hef skrifað um Salah Abdeslam og Abelhamid Abaaoud. Hér. Þeir voru engir ofsatrúarmenn, frekar hedónískir smákrimmar sem höfðu ekkert til að lifa fyrir nema dóp, fyllerí og hetjudrauma. Þeir eru langt frá því að vera dæmigerðir múslimar, rétt eins og Breivik verður seint sagður dæmigerður Norðmaður.
En það er ekki hægt að afskrifa hugmyndafræðina algerlega. Alveg eins og hugmyndafræðin sem leiddi þýsk ungmenni út í Bader Meinhof er eitruð, þá er sá þankagangur sem abrahamísk eingyðistrú byggir á líka mein-skaðlegur. (Og þar eiga Breivik og Abdeslam sameiginlegan forföður).
Róttækur kommúnismi sem boðar frelsun mannkyns og óhjákvæmileg söguleg umskipti á líka margt sameiginlegt með kristnum og íslömskum hugmyndum um hvernig blóðsúthellingar í miðausturlöndum leiði til einhvers konar gullaldar. (Mæli með bókinni Black Mass eftir John Gray sem leiðir saman þá hugmyndastrauma sem einkenna þankagang róttækra íslamista, róttækra kommúnista og þeirra ný-íhaldsmanna sem ráðlögðu George W. Bush).
En áður en ég fordæmi þá bjánalegu einföldun sem felst í að sjá mannkynssöguna sem eitthvað með upphaf, miðju og enda, þá vil ég bara segja eitt: Hugsið, hugsið, hugsið! Sparið bænirnar og notið þann hluta heilans sem reynir að skilja.
Og þegar við göngum þá leið fer kannski að renna upp fyrir okkur það ljós að í grunninn er hryðjuverka-krísan og uppgangur þjóðernisfasismans, efnahagslegar krísur. Það er 40% atvinnuleysi á meðal ungs fólks í úthverfum Norður-Parísar, og vissum kjörnum Molenbeek. Svona hátt atvinnuleysi leiðir óhjákvæmilega til tilvistarkreppu hjá fjölda fólks, sem leiðir til þess að brot af þessum stóra fjölda freistast til að ganga til liðs við öfgahreyfingar. Hef skrifað um þessa hluti, hér og hér.
Í sveitahéröðum Frakklands hafa sambærilegar tölur leitt til uppgangs Front National, og ef við skoðum tölur frá Svíþjóð sjáum við að Sverige-demokraterne eru líka öflugastir í sveitahéröðum með háu atvinnuleysi.
En nú er ég farinn að koma full víða við. Auðvitað getum við náð saman þrátt fyrir þjóðernistákn og trúarlegt uppeldi, en það væri gott ef við gætum vírað krakkana okkar og samfélagið í heild sinni á annan máta.
Nothing to kill and die for!
Höfundur bjó í Brussel og elskar Brussel, enda er það einstök borg með góðum anda.
Athugasemdir