Hetjuleg hunangsveiði milli heimkynna
Hunangsveiði
Soffía Bjarnadóttir
Angústúra 2019.
Ef til vill er vandasamt að lýsa því nákvæmlega yfir um hvað bókin, Hunangsveiði eftir Soffíu Bjarnadóttur, er. En þó er óhætt að fullyrða að áhrifin af lestrinum eru djúp og áhrifarík fyrir lesandann. Aðalsöguhetjan Silva stefndi sennilega einhvern tíma á dæmigert borgarlíf í skilgreindri atvinnu og í sambandi við týpískan karlmann. Innra með henni knýja þó á mikilvægar spurningar úr fortíðinni sem þarfnast svara og skilnings. En er hún tilbúin til að taka áhættuna í leitinni?
Silva Saudade gerir sér grein fyrir að svörin kalla á ferðalag, sem getur ekki verið hættulaust, því hún þarf að losna úr viðjum vanans og fara á stað sem hjartað óskar sér en óttast samt. Ef við strokum yfir þá félagsfræði að hver persóna sé mótuð afurð tíðarandans og félagsmótunar þá opnast leið inn í fortíðina þar sem jafnvel kúgun, óhamingja og áföll í fjölskyldusögunni geta endurtekið sig og kallað á uppgjör, hefnd eða fyrirgefningu.
Soffía Bjarnadóttir spinnir vef í bókinni þar sem atburðir eru ekki drifnir áfram af skynsemi (logos) eða nútíma vísindum heldur kröftum (mythos) sem eru eldri í mannkynssögunni, þar sem hvorki mannleg náttúra né nein önnur verður hamin. Áfangastaðurinn framundan er að komast aftur heim en ekki fyrr en kannski sálrænt niðurbrot eða nýjan skilning á sjálfum sér. Söguhetjan er reiðubúin til að þjást til að skilja og gista svo á heisluhæli sorgmæddra.
„Öll leitum við að leiðinni heim. Það er eina leiðin.“ (6).
Hugarflug og hæfileikar
Silva söguhetja hefur hugarflug og hæfileika til að skapa goðsögn úr lífi ömmu sinnar sem hún vill síðan rannsaka á eigin skinni. Hún vill draga fram þekkingu með því að endurtaka og endurspegla þætti úr lífi hennar. Hún veit að í manneskjunni og efnisheiminum er ekki allt sem sýnist. Það er eitthvað fleira á seiði, áhrifaþættir sem oftast eru duldir, sérstaklega ef það er ekki talið æskilegt að rannsaka hið hættulega.
Goðsögn getur verið sönn ef hún hefur áhrif sem skipta sköpum og gefur okkur innsýn í dýpri merkingu tilverunnar. Saga ömmunnar og geymdur vitnisburður hennar sem Silva geymir í bréfi við brjóst sér verður leiðarljós hennar og knýr hana til að lifa af meiri ákafa en áður, bæði af sál og líkama.
Silva er hetja í dirfskuför vegna þess að hún hættir öllu til, öryggi, vinnu, elskhuga og orðspori. Hún veit að hún þarf að fórna til að öðlast. Hún svífur upp í ljósið og hún stígur niður í myrkrið sem er nauðsynlegt því án einhvers konar dauða verður ekki til neitt líf. Kannski er líka nauðsynlegt að snú aftur til að finna svo leiðina heim. Goðsögnin sem fylgt er eftir þarf ekki að tákna von og sátt eða eitthvað fallegt, hún getur líka táknað grimmd og dauða.
Endurnýjun jafnvægis og samræmis verður þó aðeins eftir fyrirgefningu.
„Það þarf sérstakt hugrekki til að halda á vit fyrirgefningar.“ (70).
Vegur alls sem lifir
Silva fer í pílagrímsferð til Portúgal með öðrum helstu persónum bókarinnar, Rónaldi rithöfundi og Tómasi tengslafræðingi, ferð sem tekur á andlega og holdlega. Þau heimsækja sjamankonu sem hafði gert skurðaðgerð á sálarlífi Tómasar fyrir aldarfjórðungi en hann býst sennilega við að hún fari svipuðum höndum um förunauta sína. Örlög Silvu felast einnig í því að spegla sig í ömmu sinni, þjáningu hennar, ást, ofbeldi og dauða.
„Tómas horfði tómum augum á sofandi líkama Silvu sem var blóðrisa á stöku stað. Dökkt mar að framkallast gegnum þunna húð á úlnliðnum. Storknað blóð í litlu sári við kinnbein ... með lokuð augun strauk hún skapabarmana sem voru bólgnir.“ (175)
Hver og einn lesandi þarf auðvitað að túlka bókina. Eins og gott verk býður hún upp á fleiri en eina túlkunarleið. Ég veit ekki ennþá hvað aðrir lesendur munu hugsa eða hvernig sambandi þeir ná við verkið. Mín nálgun hér er bara tilraun til að skilja. Mér fannst bókin vera handan dæmigerðra skýringa á hlutunum og leita fremur í aðferðir forna kynslóða til að öðlast skilning á tilveru okkar hér og nú. Tilgátan í bókinni er:
„En ef grannt er skoðað er vegur alls sem lifir kannski bara einn.“ (KÓ, 194)
En vegurinn liggur alla leið til baka, höfundurinn leitar m.a. til ársins 1939 og segir sögur af ömmunni, og vegurinn liggur alla leið fram á við. Vissulega lýkur vegi lífsins annað hvort með dauða eða nýrri fæðingu. Í bókinni kallast dauðinn og fæðingin á og einnig guðlegir kraftar á við kynhvötina.
Hungangsveiðin er mjög vel heppnað verk, það er vel hugsað og skrifað, það er gott samhengi og söguhetjan breytist svo sannarleg á ferðalagi sínu. Einnig er bókin dularfull, sár og óræð sem er kostur og á samtal við goðsöguna, að mínu mati. Þetta er ágeng og krefjandi bók sem knýr lesandann til að hugsa um sjálfan sig á annan hátt en hraðasamfélagið leyfir.
Það felst líka hugrekki í því að skrifa svona sögu.
Eftir lesturinn þarf lesandinn aðeins að hugsa um efnið og ganga með það. Það tekur kannski þrjá daga að mynda sér skoðun á verkinu og leyfa því að framkallast í huganum. Þrír dagar eru liðnir og skoðun mín felst án hiks í meðmælum. Ég ætla ekki að rekja söguþráðinn, söknuðinn og þrána heldur hvetja til lesturs.
Það sem framkallast í huga mínum er ferð burt úr yfirborðskenndum tíðaranda 21. aldarinnar á fund umbreytandi goðsagna. „Bak við augnlokin er heimur, mennskur og dýrslegur í senn." (195).
„Það var slík kyrrð í andrúmsloftinu að það var eins og fæðing hefði átt sér stað. Himnesk stilla. Eins og nýfallinn snjór um mitt sumar og undrið er enn að framkallast í skynjun þinni.“ (159).
Athugasemdir