Þessi færsla er meira en ársgömul.

Efnisorð: Kærleikur og góðvild eða reglugerð?

Efnisorð: Kærleikur og góðvild eða reglugerð?

Grátandi móðir, námfúsar systur, sonur í hjólastól, fylgdarlaust barn (nýorðið sjálfráða), lögregla, handtaka, gæsluvarðhald og leiguflug beint á götuna í Grikklandi, engin leið til baka. Fylgdarliðið er þó komið aftur í hlýjuna.

Dómsmálaráðuneytið sendi frá sér fréttatilkynningu um málið. Efnisorð hennar eru tvö: Löggæsla. Útlendingar. Neðar stendur svo: Til baka. Já förum til baka.

Flestum ofbýður aðferðir löggæslunnar en dómsmálaráðherra virðist ekki næmur á sársauka annarra. Hann gerir tilraun til að setja sig í spor þeirra sem líður illa yfir aðförunum en tekst það bara ekki. Lögreglan virðist því miður eiga eftir að tileinka sér eigin siðareglur og telur að hlýðni sé æðsta dygðin (Hlýðni er ekki dygð).

Viljum við venjast þessu?

Í fréttatilkynningunni 4. nóvember berskjaldar dómsmálaráðuneytið sig. Þar er okkur sagt hvernig þetta er og ráðherra bætir svo við að svona sé þetta vikulega. Málið er þá bara að venjast þessu? Nei, takk.

Við keppumst við að kenna börnum góðvild og samkennd í skólum en búum svo við ráðherra sem setur önnur gildi ofar þegar þýðingarmiklar ákvarðanir eru teknar. Við erum alltaf ábyrg, hjá því verður ekki komist.

Í kaflanum í fréttatilkynningunni „Aðstæður í Grikklandi“ stendur ekkert um aðstæður fólks. (Enda kom í ljós í Kveikþætti á RÚV að enginn hefur farið út til að kanna þær). Í tilkynningunni stendur aðeins að það brjóti EKKI í bága við 42. gr. laga um útlendinga að endursenda.

Núþegar hefur UNICEF, Þroskahjálp, Rauði krossinn, Rektor FÁ, Tabú og ýmis mannréttindasamtök mótmælt þessari endursendingu harðlega og fólk safnast saman á Austurvelli til að mótmæla. En skilaboðin frá ráðuneytinu eru: Við brutum engin lög eða reglugerðir, við megum þetta. En efnisorðin sem vantar í fréttatilkynningu dómsmálaráðuneytisins eru: 

Mannúð. Góðvild. Vinsemd.
Samkennd. Virðing.

Nú er ekki tími til að ræða reglugerðir og leyfa „skynseminni“ að meta kalt rök með og á móti, ekki tími til að telja hausa og ekki tími til að skoða eitthvað í heildarsamhengi eins og oft er sagt þegar málum er klúðrað. Nú er tími til að fara til baka í merkingunni að vanda sig og að spyrja um mannréttindi fólks með nöfn sem stendur andspænis ógn. 

Efnisorð: Kærleikur

Við erum að tala um einstaklinga af holdi og blóði, einstaklinga með nöfn og fjölskyldu sem var stungið grátandi inn í lögreglubíla, fjölskyldu í áfalli og í hættu, fjölskyldu sem við höfum nú þegar skaðað. 

Efnisorðin eru ekki löggæsla og útlendingar heldur kærleikur og góðvild.

Já, förum til baka!

#ekkiímínunafni

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni