Þessi færsla er meira en ársgömul.

Barnamálaráðherra vs. dómsmálaráðherra

Barnamálaráðherra vs. dómsmálaráðherra

Forvarnir styðjast við lög og reglugerðir um hvað er leyfilegt og bannað og hvar mörkin liggja. Tilslökun á reglum sem tengjast alkóhóli geta þurrkað út árangur sem hefur fengist með forvörun. Nefna má að í könnun árið 1995 kom fram að 80% tíundu bekkinga höfðu smakkað áfengi. Ný könnun sýnir að 30% tíundu bekkinga hafa smakkað áfengi.

Þessi árangur getur gengið til baka meðal annars vegna þess að ákefð fullorðinna í áfengi virðist vaxa með árunum og hefur farið úr 4,5 lítra árið 1988 í 7,5 á kjaft árið 2021. Einnig eru áform um tilslakanir á Alþingi í þessum málaflokki.

Verst fyrir börn og eldri borgara

Slæm áhrif áfengis á heilsu og hugarstarf eru óumdeild. Það er staðreynd að áfengi er eitur (etanól) sem líkaminn reynir að hafna með því að vekja ógleði og valda uppköstum. Áfengi er verst fyrir börn og eldri borgara og af þeim sökum er takmarkað aðgengi að áfengi góð forvörn, því sú aðgerð dregur úr neyslu.

WHO í Evrópu hefur hvatt ríki til að draga úr heildnotkun áfengis um 10% á næstu tveimur árum með öllum tiltækum ráðum. Hvernig ætlar Ísland að standa að því?

Opinber Lýðheilsustefna og -markmið snúast um að draga úr skaðlegum áhrifum og afleiðingum áfengisdrykkju. En á Alþingi veit hægri höndin ekki hvað sú vinstri gerir í þessum efnum.

Áform um farsæld barna en ekki foreldra

Barnamálaráðherra hefur sett í samráðsgátt áform um gagnasöfnun um farsæld barna á sama tíma og dómsmálaráðherra setur í samráðsgáttina áform um að leggja til afnám banns við heimabruggun.

Barnamálaráðherra vill skapa barnvænt Ísland sem skal byggja á markvissri söfnun gagna. Stjórnvöld vilja hlusta á börn og tala við börn. Svo verður sett fram heildstæð stefna í málefnum barna og unglinga. En dómsmálaráðherra vill ekki að byggja á gögnum í áformum sínum um afnám banns við heimabruggun, hann vísar fremur í það sem heyrst hefur.

Alþjóðleg ritrýnd gögn sýna að ef dregið er úr takmörkunum á aðgengi að alkóhóli þá eykst neyslan og heilsa þjóðarinnar versnar og það þarf væntanlega að hækka skatta í kjölfarið til að styrkja heilbrigðiskerfið. Þetta staðfesta vísindaleg gögn.

Ljóst er að um leið og heimabruggun er leyfð þá fjölgar söluaðilum á brugggræjum og efnum, markaðssetning hefst og þetta breiðist út. Brugg á heimilum barna mun aukast. Börn munu venjast bruggtækjum, tilhlökkun foreldra um hvernig lögunin muni heppnast, hvenær megi smakka og bjóða í veislu. Slysatíðni og heimilisofbeldi mun aukast o.s.frv.

Áform um frumvarp um heimabruggun er í hróplegri andstöðu við áform um frumvarp um farsæld barna. Ekkert lýðheilsumat liggur fyrir um áhrif á heilsu og velsæld, ekki um áhrif á farsæld barna. 

Hverjir eru taldir upp sem helstu hagsmunaaðilar sem eiga að segja skoðun sína á áforum um heimbruggun? Það eru ekki börn eða foreldrar heldur framleiðendur og söluaðilar: Fágun, félag áhugafólks um gerjun, Samtök íslenskra handverksbrugghúsa, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök atvinnulífsins, Félag atvinnurekenda, Samtök iðnaðarins, auk Embættis Landlæknis og Neytendasamtökin.

Söfnum heldur gögnum og könnum líðan, velferð og farsæld barna, fáum yfirsýn og tökum svo ákvarðanir út frá mælikvörðum um barnvænt Ísland. Metum stöðuna og spáum svo í hvort ástæða er til að leyfa bruggun bjórs og víns á heimilum.

Önnur áform án gagnasöfnunar

Í endurfluttu frumvarpi (135. mál, lagafrumvarp. 153. löggjafarþing 2022–2023) er lögð til ein lítil breyting á áfengislögum eða að 5. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 12. gr. laganna falli brott. Hún snýst um að afnám afgreiðslubanns á frídögum.

Rökin sem færð eru fyrir þessu er að að hjálpa ÁTVR í samkeppni við aðra söluaðila. Vínbúðin fær þá leyfi til að selja vín á sunnudögum og á almennum frídögum landsmanna, rauðum dögum á mánaðatalinu. Tæpir foreldrar geta þá látið undan freistingunni og brugðið sér í ríkið.

Barnvænt Ísland getur ekki leyft sér að slaka á lögum og reglugerðum sem varða heimabrugg og sölu áfengis. Gögn og rannsóknir mæla stórlega gegn því. Eða hvernig ætlar Ísland að draga úr heildnotkun áfengis um 10% á næstu tveimur árum eins og WHO í Evrópu mælir fyrir um?

Fleiri greinar

Að drekka ekki áfengi

Að takmarka aðgengi

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni