Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Einmanaleikinn er barningur

Einmanaleikinn er barningur

Dauðinn er barningur
Khaled Kalifa
Angústúra 2019.

Lesendur bókarinnar Dauðinn er barningur eftir sýrlenska höfundinn Khaled Khalifa fá íhugunarefni þegar lestri lýkur: Að gera einmanaleikanum skil. Eftir að hafa lesið og hugsað um byltinguna og stríðið í Sýrlandi, óttann, brostnar vonir, ástir, hugrekki, hugleysi, dauðann og hlutskipti mannsins í veröldinni bætist við allt um lykjandi forvitni um einmanaleikann. Spurningin „Hvers vegna verður fólk einmana?“ er undirliggjandi í verkinu.

Söguhetjurnar eru systkini og lík föðursins í hættuför í smárútu milli ótal varðstöðva inn í borgir og þorp - en þau hugsa:

 „Öll um heimferðina eftir jarðarförina, um það að snúa aftur í einveruna og einmanaleikann og um óttann við að horfast í augu.“ (125).

Einmanaleiki er tilfinning eða upplifun á stöðu sinni í eigin lífi í samhengi við aðra. Þessi upplifun greinist m.a. í ógleði, ósætti og vonbrigði gagnvart sjálfum sér og öðrum. Hún byggist ekki á öfund eða afbrýðisemi. Ef til vill kallast hún á við heimþrá sem er nístandi löngun, þess sem er ekki heima hjá sér, til að vera í öruggu skjóli innan um ástvini og í umhverfi sem hann þekkir.

Einmanaleiki (umkomuleysi) er raunveruleg sálarkvöl. Það er líkt og einmanakenndin geti sprottið upp hvar sem er. Ástæður hennar eru af margvíslegum toga. Það gæti t.d. verið vegna þess að einstaklingur hefur tapað fjölskyldu sinni og heimalandi, það gæti verið sökum höfnunar í hóp, vinaleysis eða að hafa ekki ræktað hæfileika sína.

Einmanakenndin vex hvorki né dvín við það að sjá aðra glaða eða vinamarga. Sá sem nýtur ekki virðingar og vinsælda er líklega þjakaður af einmanakennd en sá sem nýtur virðingar og vinsælda getur líka verið einmana. Það er eitthvað annað sem skilyrðir einmanakenndina, eitthvað af óræðum toga.

Sá sem er hvergi í essinu sínu og getur ekki ræktað hæfileika sína og sinnt hugsjónum sínum eða ástríðu og sá sem á sér ekkert heimaland verður óhjákvæmilega einmana. Gjá myndast, er gjá einmanaleikans  í bókinni ef til vill of djúp eða er hægt að brúa hana?

„Ekkert þeirra [systkina] kærði sig um að sjá hversu djúp gjáin var sem skildi þau að.“ (125).

Persónur bókarinnar eru óhjákvæmilega einmana, hver fyrir sig og þeim tekst ekki að vinna bug á þessari kennd þótt þau séu saman, þótt þau séu systkini og gætu rifjað upp góðar æskuminningar. Hvers vegna? 

Ef til vill vegna þess að einmanakenndin ræðst af tengslum og tengslaleysi við aðra og heiminn. 

Persónur bókarinnar Dauðinn er barningur eiga það sammerkt að hafa ekki fylgt æskudraumum sínum, hafa brugðist sjálfum sér eða öðrum og þær komast aldrei yfir þau mistök. Áform þeirra runnu út í sandinn og þær urðu ekki það sem til stóð og eftir að landið var lagt í rúst virðist það einfaldlega vera of seint.

Oft reynir fólk að bjarga því sem bjargað verður þegar líða tekur á lífið en:

 

„Árin á milli bernsku og elli eru einungis dægrastytting … Sæl eru þau sem verja ellinni með þeim sem þau elska.“ (106).

En hversu líkleg er sú sæla í landi þar sem fæstir deyja af náttúrulegum orsökum og:

Styrjöld sem breytir sálum, draumum og er alla daga prófsteinn á þol og þrautseigju hvers og eins?

Það er ævinlega eitthvað sem hindrar för og frelsi. Systirin býr við kúgun feðraveldisins en höfundur bókarinnar hlífir henni ekki því hún sjálf tekur einnig rangar ákvarðanir – eins og reyndar allar aðrar persónur. Annar bróðirinn var of huglaus og kvíðinn til að til að taka réttar ákvarðanir og hinn var of metnaðargjarn og óþolinmóður til að úr gæti ræst.

Líkið eða faðirinn stóð ekki með systur sinni sem ungur maður og giftist ekki ástinni sinni. Hann varð þekkt nafn í byltingunni en samt dróg hann upp ranga mynd af sjálfum sér gagnvart öðrum, var ekki sá sem hann þóttist vera.

Þessar persónur finna sér hvorki stað né hlutverk og óttinn kvelur þau öll, angistin. Hver þeirra er:

 „lífvera sem enginn þarfnast og auðvelt er að losa sig við“, þannig líður persónu sem „hafði aldrei verið jafn einmana“. (228).

Khalifa (f. 1964) ólst upp nálægt borginni Aleppo en hefur síðustu 20 ár búið í Damaskus. Sagan á sér stað og er ferðalag einmitt á milli þessara borga og þau eru hvergi óhult innan um villt dýr, sjaríadómstóla, sprengiárásir og leyniskyttur. Líf lætur undan dauða, ást undan tómi, hugrekki undan ótta, kærleikur undan tortryggni, vinsemd undan einsemd. Höfundurinn hefur þrátt fyrir það ekki flúið land, hann heldur greinilega í vonina og skrifar og við höldum líka í vonina og lesum.

Hamingjan svífur um í þröngu rými

Hamingjan felst í því að hafa tækifæri til að rækta hæfileika sína og strita við það sem við unum okkur best við að gera. Hún felst í því að vera með þeim sem okkur líkar við, að búa þar sem við kunnum við okkur og að takast á við verðugar áskoranir. Persónur bókarinnar búa ekki við nein skilyrði hamingjunnar og þeim tekst ekki einu sinn að glæða samband sitt lífi því dauðinn er barningur.

„Þegar lífið líður hjá gera minningarnar ekki annað en að draga meiri sársauka fram í dagsljósið.“ (111).

Bókin er skrifuð af leikni og djúpri löngun til að skilja lífið í ljósi dauðans og einmanaleikans. Sagan veitir harða innsýn í stríðið í Sýrlandi en einnig í sálarlíf manneskjunnar. Saga hvers og eins er sögð og sambandsleysi þeirra rakið. Skuldinni er ekki allri skellt á stríðið heldur einnig á þætti í stjórnarfarinu, menningunni, trúnni og kynjakerfinu. Skýringarnar finnast heldur ekki allar þar heldur einnig í áræði hverrar persónu, dyggðum, löstum og tilfinningalífi.

Lestrarupplifunin er áhrifamikil. Lesandinn er fimmti farþeginn í bílnum ásamt líkinu og þessum þungbúnu systkinum. Lesandinn þarf einnig að koma líkinu niður í jörðina til að skilja ástandið og ljúka ferðalaginu.

Einhvern vegin tekst okkur öllum að lifa þetta af. Annaðhvort hverfur veröldin okkur eða við henni.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni