Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Forsjálni - þjóðgildi Íslendinga fyrir 2020?

Forsjálni - þjóðgildi Íslendinga fyrir 2020?

Sjaldan afrekrar ein stund margra daga forsómun – er málsháttur sem merkir einfaldlega það sama og hann segir: Sjaldan vinnst það upp á skammri stund sem lengi hefur verið vanrækt. Orðið afrek vekur athygli. Afrek kallar á forsjálni, að undirbúa jarðveginn af kostgæfni.

Þessi málsháttur getur átt erindi til einstaklinga og samfélags á marga vegu. Einstaklingar sem vilja gera vel ættu að íhuga hann og samfélag sem vill vera til fyrirmyndar mætti gjarnan vinna út frá honum. Málshátturinn virðist einnig vera í mótsögn við meint leiðarljós Íslendinga: „Þetta reddast“.  Sérstaklega vegna þess að við vitum núna að þetta reddast ekki nema með breyttum lífsháttum.

Þetta reddast hugarfar

Auðvitað getur margt reddast á síðustu stundu og vonandi verður það alltaf þannig. Skjótt skipast veður í lofti er óhjákvæmilega eitthvað sem mun alltaf eiga við hér á landi og þá þarf að bjarga hlutunum strax. Ekki þó með því að grafa undan framtíðinni.

Vissulega reddast hlutir af tilviljun og vegna þess að einhver hugsar fljótt og bregst skjótt við. Ekki er þó vænlegt að temja sér „þetta reddast“ hugarfar og lífsstíl eða treysta á það - því oftast reddast hlutirnir einungis vegna þess að við höfum búið okkur vel undir þá. Við eigum þung gagnasöfn af þýðingarmiklum upplýsingum um framtíðina og lífsskilyrðin næstu ár. Framtíðin er í höndum okkar, fyrir allt lífríkið.

Hvað liggur á bak við afrek?

Afrek kosta yfirleitt einbeitni og alúð, þjálfun og metnað, forsjálni og hugrekki. Afrek eru ekki unnin af tilviljun þau eru afrakstur þess að strita að markmiði, hugsjón, verki, björgunarstarfi. Bak við eina stund af afreksverki getur legið áralöng þrautseigja og þolinmæði. Umhverfisverndarfólk, umhverfisverndarar, hefur unnið afrek í baráttunni gegn óheillaþróun mannlegrar breytni gagnvart auðlindum jarðar.  Svo verður vonandi áfram.

Árið 2020 gæti orðið ár nægjusemi, forsjálni og afreka í málefnum jarðarinnar. 

Gleðilegt nýtt ár!

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni