Stundum þyki ég vera dálítið öfgakenndur í öryggismálum. Ég er sú týpa sem neitar að tala við fólk í síma þegar ég að keyra, er með stórar flaggstangir á hjólum yngri dætranna til að þær sjáist betur í umferðinni og leyfi börnum ekki að fara á trampolín nema á því sé öryggisnet og þá bara eitt barn í einu. Reyni að kaupa lífræn matvæli í börnin og bera á sólarvörn.
Öryggisfasismi, heyrist stundum eldri kynslóðin kalla þetta uppeldi og dásama hvað allt var frábært í þeirra ungdómi þegar enginn hjólaði með hjálm, brunað var á bremsulausum kassabílnum niður brekkurnar og börnin léku sér frjáls og óbundin í aftursæti bílanna með blýmálningarleikföng í reykjarkófinu frá vindli ökumannsins. Þeim finnst foreldrar nútímans vera að ofvernda börnin og að verið sé að ala upp hálfgerða aumingja sem ekki eru búin undir mótlæti lífsins. Ég hlýt að vera eitt þeirra foreldra sem talað er til.
Já, uppeldið hefur breyst. Ég lék mér venjulega í aftursætinu á fjölskyldubílnum án bílbeltis. Sem betur fer lentum við aldrei í slysi. Þegar ég var 10 ára man ég eftir að hafa fundið húsgrunn fullan af snjó og leikið mér með frænda mínum að hoppa ofan í djúpan snjóinn úr talsverðri hæð. Hraustlegur og skemmtilegur leikur myndu sumir af eldri kynslóðinni líklega segja. Þegar snjóa leysti tókum við frændurnir eftir því að búið var að steypa hluta af undirstöðum í grunninn og í snjónum leyndust steypustyrktarjárn þráðbein upp í loftið. Fyrir tilviljun stukkum við á milli þeirra og hvorugur okkar þræddi sig upp á steypustyrktarjárn. Ég bjó ekki við óbeinar reykingar, át aldrei blýmálningu né lenti í kynferðisglæpamanni. Ég var í sveit og keyrði meðfram skurðunum á traktor án veltigrindar án þess að velta yfir mig traktornum og hjólaði um borgina hjálmlaus án þess að verða fyrir bíl. Ég lifði bernskuna af og komst út í lífið stóráfallalaust.
Ég var heppinn. Því miður eru allt of mörg dæmi um þá sem ekki voru jafn heppnir.
Um það leyti sem ég fæddist lést tæpur tugur barna á hverju ári í bílslysum og nokkrir tugir örkumluðust. Eftir átak í bílbeltanoktun og öðrum öryggismálum í umferðinni hefur banaslysum barna fækkað í „bara“ um þrjú á ári, þrátt fyrir margföldun á fjölda bíla. Sláandi er þó að hluti þeirra banaslysa sem nú verða eru rakin beinlínis til þess að öryggisbelti eru ekki notuð rétt.
Verulega hefur dregið úr skaða barna vegna óbeinna reykinga og blýmengunar frá bensíni og málningu. Enn er þó loftmengun á höfuðborgarsvæðinu langt yfir heilsuverndarmörkum marga daga á ári þannig að börnin hljóta skaða af og það er okkur fullorðna fólkinu til skammar. Ég bý í Háaleitinu þar sem Hvassaleitisdóninn er sem betur fer ekki dinglandi með prjóninn lengur. Ef slíkt gerðist í dag væri hann stöðvaður án tafar. Samt eru líklega enn tugir ef ekki hundruð barna í samfélaginu okkar sem verða fyrir kynferðisofbeldi á hverju ári. Þó við verndum börnin okkar betur í dag en áður getum við gert miklu betur.
„Þessa öldina höfum við venjulega misst 4-8 einstaklinga á ári 25 ára og yngri úr sjálfsvígum, fleiri en láta lífið í umferðinni.“
Á einu sviði erum við þó sérstaklega ekki að standa okkur nægilega vel í að vernda unga fólkið. Þessa öldina höfum við venjulega misst 4-8 einstaklinga á ári, 25 ára og yngri úr sjálfsvígum, fleiri en láta lífið í umferðinni. Því miður gerist það reglulega að ungt og annars heilbrigt ungmenni verður fyrir áfalli sem er svo yfirþyrmandi að engin önnur leið virðist í sjónmáli en að svipta sig lífi. Þó okkur sem aðeins eldri eru finnist áföll á við ástarsorg léttvæg í stóra samhengi lífsins er það deginum ljósara að nýleg sambandsslit eru vel þekktur áhættuþáttur fyrir sjálfsvíg. Þetta vita allir læknar.
Að spenna börnin í bílbelti, vernda þau gegn mengun, slysum og ofbeldi er skylda okkar foreldra. Það er ekki ofverndun á barni. Mér finnst sjálfsagt og rétt að börn fái að hjóla, synda, fara á skíði og hestbak jafnvel þótt þau gætu hugsanlega slasast og jafnvel látið lífið. Á sama hátt flýg ég í flugvél og keyri um þjóðvegina með fjölskylduna þó því fylgi alltaf lífshætta. En að fara í flugvél þar sem öryggisreglum er ekki fylgt, að keyra án öryggisbeltis, stunda íþróttir án þess læra öryggisreglurnar eða nota viðeigandi hlífðarbúnað kemur ekki til greina.
Kannski er eitthvert foreldri til sem gengur aðeins of langt, pakkar barninu inn í bómull þannig að það þurfi aldrei plástur á sár, blotni aldrei við að ganga heim úr rigningu eða þurfi að svara fyrir sig þegar það mætir yfirgangi.
Það er bara ekki helsta vandamál samtímans.
Öll börn munu þurfa að upplifa að detta af hjóli og hrufla sig, að syrgja nákominn ættingja og lenda í ástarsorg. Slíkt er eðlilegur gangur lífsins en það er munur á að meiða sig eða slasast, ástarsorg og sjálfsvígshættu. Þegar áföllin verða viljum við að börnin leiti sér aðstoðar, einfaldari sár á líkama og sál fá aðhlynningu nærstaddra á heimili en í alvarlegri málum þarf aðstoð fagfólks.
Ef barn slasast eða er í sjálfsvígshættu ætla ég rétt að vona að þau komi til okkar í heilbrigðiskerfinu og fái viðeigandi aðstoð. Þar eiga þau ekki að þurfa að eiga von á því að mæta heilbrigðisstarfsfólki sem lítur á slys og eitranir sem eðlilegan hluta bernskunnar og sjálfsvígshugsanir sem aumingjaskap.
Athugasemdir