Þegar ég fylgist með ungu fólki í dag og sé hve meðvituð þau eru um allt sem þau gera þá get ég ekki annað en fundið til með þeim. Að verða stöðugt fyrir áreiti allan sólarhringinn og fyrir allra augum. Hvort sem þau vilja eða ekki. Samfélagsmiðlar hafa yfirtekið líf þeirra og það er ekki hægt að vera ekki með. Þau eru á sviði, alltaf. Allir vita allt strax. Einhver fær gjöf og setur það strax á samfélagsmiðla. Samanburðurinn er hafinn. Einhver fer til útlanda og samanburðurinn er hafinn. Einhver lendir í að vera taggaður með óheppilega mynd og er útskúfaður. Hvergi friður og aldrei frí. Aldrei má missa af og því þarf að vera tilbúinn allan sólarhinginn til að grípa næsta Snap eða Insta eða þá setja eitthvað frábært í Story.
Ég er svo heppinn að vera alinn upp þegar það þurfti að koma heim til mín, banka og spyrja: „Er Valli heima?“ Eða hringja í heimasímann til að spyrja eftir mér. Á kvöldin svöruðu foreldrar mínir og þar með var ekki hægt að trufla mig þegar ég var að fara að sofa en nú bara pípir síminn og athyglin er farin. Samanburður á lífi viðkomandi kominn í gang með öllum kvíðanum og spennunni sem því fylgir. Vonlaust er svo að slappa af aftur og sofna. Ef skilaboðin eru spennandi hvað þá meiðandi, þá verður engin hvíld þá nóttina.
„Það er einmitt í grunnskóla sem allt ógeðið verður til. Þar er skilið út undan, lagt í einelti.“
Það er einmitt í grunnskóla sem allt ógeðið verður til. Þar er skilið út undan, lagt í einelti. Allir þurfa að falla inn ellegar eiga á hættu að lenda utangarðs. Versta martröð unglingsins er að falla ekki inn í hópinn og því er mikil pressa að vera með gott efni á samfélagsmiðlum, snappa allt, insta allt, vera tilbúinn ef eitthvað er að gerast ellegar falla niður um deild. Svo kemur fyrsta árið í framhaldsskóla. Þá er allt nýtt og nú skal alls ekki verða út undan. Þá skal setja samfélagsmiðlana upp um stig. Kynnast nýju fólki sem verða vinir þeirra á Facebook. Svo verða vinir nýju vinanna fljótlega líka komnir á Facebookið hjá þeim og þá er komið opið samband og eins gott að það sé fólk sem er uppbyggilegt. Þetta hlýtur að valda meiri kvíða en nokkurn tíma eru dæmi um í mannkynssögunni. Ef við tölum svo ekki um þegar krakkar byrja að fikta við áfengi og gera heimskulega hluti. Guð hvað ég gerði marga heimskulega hluti sem ég þakka fyrir að eru ekki til á netinu í dag. En ef ég væri núna 15–17 ára gamall og myndi gera sambærilega hluti þá væru þeir á netinu og yrðu þar alltaf hvort sem ég vildi eða ekki. Frasinn; „dæmdur af endemum“, hefur aldrei átt betur við.
Það er þekkt að barnastjörnur hafa átt erfitt með að höndla athyglina sem því fylgir. Að heimurinn eða nærsamfélagið fylgist með þeim vaxa úr grasi. Michael Jackson er steríótýpan fyrir slíka persónu. En er líf barna og unglinga í dag eitthvað mikið frábrugðið þrýstingnum sem hann varð fyrir? Opið inn á lífið hvar og hvenær sem er. Ein mistök og allir vita af þeim. Verður að geðjast þeim sem fylgjast með alltaf. Er þetta ekki bara það sama og að alast upp með samfélagsmiðlum og GSM-símum? Ungir krakkar með þúsundir sem fylgja þeim á Snap eða Insta. Ókunnugir að hafa skoðun á útliti þeirra, klæðnaði eða hvernig herbergi þeirra líta út. Og þó svo bara þeir sem eru með þeim í bekk séu að fylgjast með, þá er það allur heimurinn á þeim aldri. Enda er ekki óalgengt að ungar stúlkur óski sér lýtaaðgerðar í dag. Ungir drengir lyfta endalaust lóðum til að fá stærri kassa, axlir og upphandleggsvöðva. Svo gengur ekki nógu hratt og þá er fljótlegast að taka stera. Pressan að vera unglingur hefur alltaf verið mikil en núna er hún margfalt meiri. Svo hættir þetta ekkert þegar unglingsárin klárast. Fólk á miðjum aldri lifir í gegnum samfélagsmiðlana og brotnar reglulega niður vegna einhvers sem aldrei þurfti að vera neitt mál ef ekki væri fyrir samfélagsmiðla og eitt „comment“ sem einhver ónærgætinn setti við einhverja myndina sem viðkomandi setti á samfélagsmiðilinn sinn.
Ég veit auðvitað að það þýðir ekkert að segja; „Þessir samfélagsmiðlar eru að skemma ungdóminn. Við verðum að stoppa notkun þeirra.“ Það mun aldrei virka. En við getum hjálpað til við umgengnina og hvernig við tökumst á við þessa streitu. Þarf ekki bara að vera fag í grunnskóla um það? Samskiptaæfingar sem byggja á samfélagsmiðlum og hvernig hægt er að bregðast við og útiloka áreitið. Hvernig hægt er að útiloka streituna sem fylgir því að vera stöðugt á sviði fyrir framan fólk. Hvernig hægt er að útiloka niðurrifið og hvað það borgar sig að vera uppbyggilegur við skrif á samfélagsmiðla. Ef þetta heppnast vel þá verður kynslóðin á eftir okkur mun betri en við og þolir meira. Hefur minni áhyggjur af því hvað öðrum finnst og verður sjálfstæðari og betri í samskiptum. Það eru nefnilega alltaf tækifæri í öllu og boð og bönn virka aldrei. Eigum við að nýta þetta tækifæri?
Athugasemdir