Ég rek stundum augun í viðbjóðsleg myndbönd á netinu þar sem verið er að kreista bólur með miklum tilþrifum. Og með „rek augun í“ á ég við að ég fletti þeim upp af sjálfsdáðum. Mörgum. Oft. Það eru heilu reikningarnir á Youtube sem þjónusta þetta undursamlega blæti mitt. Það blundar í mér mikill áhugi á alls kyns sjúkheitum. Ég hef staðið mig að því að kaupa læknisfræðibækur og lesa af ákefð. Ég hef rennt í gegnum alla læknadramaþætti sem til eru, margsinnis. Einn mánuðinn horfði ég ekki á neitt annað en heimildarmyndir um heilaæxli og eyðni. Ég get þrifið upp hvaða horköggla sem er og borið magainnihald mitt í hljóði. Enginn viðbjóður er mér óviðkomandi. Það höfðar til mín hvað mannslíkaminn er ótrúlegt og jafnframt hræðilegt fyrirbæri.
Í starfi mínu sem hjúkrunarfræðingur fæ ég þessu áhugamáli ágætlega sinnt. Það eru mikil forréttindi að taka þátt í að lina hvers kyns þjáningar. Ég gleymi því þó seint þegar ég var nemi og fékk að sjá lærimeistara minn kreista gröft úr sýktu sári. Það lá við að ég færi á hnén, með sleftauminn niður á gólf, biðjandi til almættisins að einn daginn fengi ég að vera í hennar sporum. Enn hef ég ekki komist í tæri við vellandi sýkt sár sem þarfnast kreistingar, en vonin er ekki úti. Ég á mér draum.
Ég vil opna kreistimiðstöð, þar sem ég sit með hendur mínar tvær, hanska og rakvélablað, reiðubúin til að kreista út alla þá gulu, þykkfljótandi djöfla sem krauma undir húð landsmanna. Gegn vægu gjaldi. Eða bara ókeypis. Florence Nightingale style. Er strax komin með nafnahugmyndir fyrir stofuna, „Út vil ek“ eða „Út með gæruna“. Meðan aðrir hugsjónamenn stinga á kýlum samfélagsins mun ég stinga á kýlum ykkar. Ánægjan er öll mín.
Athugasemdir