Kosningar snúast oftast um eitthvað. Fyrir þremur árum var það niðurfelling húsnæðislána og fjármögnun hennar. Fjórum árum áður var það breiðara loforð um að ná efnahag landsins upp úr hyldýpi hrunsins. Kosningasigur framsóknarmanna 2013 sýnir að það er sniðugt að vera með einföld skilaboð. Þetta vissi kosningastjóri Bills Clinton mæta vel árið 1992 þegar hann lýsti skilaboðum framboðsins í þremur frösum: „Breytingar eða það sama áfram“, „ekki gleyma heilsugæslu“ og „efnahagsmál, hálfviti“. Frasarnir voru víst ætlaðir til innanhússbrúks, en komust á flug enda er James Carville líklega með þekktari kosningastjórum enn þann dag í dag.
En það vill svo merkilega til að frasarnir hans Carville gætu átt vel við í kosningabaráttunni hjá okkur í haust. Kannski er bara enginn flokkur með nægilega snjallan kosningastjóra til að koma þeim á flug. Píratar eru nýbúnir að senda frá sér hefðbundið skjal með áherslum sínum í eitt þúsund orðum. Þeir kalla þetta að vísu ekki því nafni, en væri það ekki flott heiti: Áherslur pírata í eitt þúsund orðum? Kannski – ef ekki væri sú staðreynd að eitt þúsund orð eru of mörg orð. Betra væri kannski: Áherslur pírata í einni setningu. Ennþá betra jafnvel: Áherslur pírata í einu orði. Eða áherslur X-eitthvað í einu orði. Hjá Carvell enduðu frasarnir þrír í einu orði: Economy. Út á það vann Bill Clinton. En hér hefur enginn dottið niður á orðið eða frasann sem nær nákvæmlega því sem er að trufla fólk. Því það er eitthvað að trufla. Það þarf að gera breytingar, skýrar, til lengri tíma, og djúpstæðar. En hvaða breytingar nákvæmlega?
Geðvonska gegn stjórnarskrá og fleiri vandamál
Ókei. Nú eru allir vinirnir sem ég á í hinum ýmsu framboðum örugglega orðnir æstir. Ef þeir eru enn að lesa. Hvernig geturðu haldið því fram að áherslurnar séu ekki nógu skýrar? Þær eru ítarlegar líka. Lestu áherslur VG í fimmtán liðum – eða málefnaskrá Viðreisnar, áherslur Samfylkingarinnar eða Málin okkar hjá Bjartri framtíð (langur listi). Geisp. Ég á við þetta skrítna vandamál að stríða. Verð alltaf svo andskoti syfjaður þegar ég fer að lesa málefnaáherslur flokkanna. Og finnst þær á endanum vera meira og minna eins.
Sjáiði áherslur píratanna. Getur einhver flokkur verið á móti þeim? Svona almennt? Tæplega, jafnvel þótt geðvonska geri sumum erfitt að fallast á að klára stjórnarskrána. Eða að ágreiningur sé um hvernig eigi að fjármagna velferðarkerfið. Munurinn á flokkunum liggur nefnilega ekki nema að litlum hluta í muninum á málefnaáherslum þeirra. Hann liggur aðallega í einhverju öðru.
Ef nokkrir íslenskir stjórnmálaflokkar vildu gera með sér málefna- eða kosningabandalag er augljóst að munur á stefnumálum myndi ekki koma í veg fyrir eða tefja það verk. Píratar eru búnir að bjóða öðrum flokkum en núverandi stjórnarflokkum að setjast niður með sér og vinna að áherslum sínum. Í áherslunum er ekkert sem kemur í veg fyrir að þetta sé hægt. Allt sem máli skiptir er líka að finna í hinum löngu áhersluskjölum hinna flokkanna. Þær eru þar að auki nógu almennar til þess að það má sjá fyrir sér hvort heldur er hægri- eða vinstriútfæslur þeirra. Að því leyti er eins og píratarnir ætli að vera arftaki Framsóknarflokksins – flokkur sem getur verið til hægri eða vinstri eftir atvikum.
Það er eitthvað annað sem truflar. Eitthvað dýpra og myrkara. Eitthvað sem kemur í veg fyrir að maður geti almennilega horft á flokkana og fundið samhljóminn – sannfæringuna. Og kannski er það ekki einu sinni þeim sjálfum að kenna.
Áfallastreita í íslenskum stjórnmálum
Í íslenskum stjórnmálum er eins og allir hafi orðið fyrir áfallastreituröskun. Flokkarnir haga sér eins og þeir þjáist af áfallastreitu, en (svo vitnað sé í geðlækna) birtist hún iðulega í tregðu til að tjá vanlíðan sína og óvilja til að leita sér hjálpar. Er hægt að lýsa ástandinu betur? Þetta á kannski mismikið við um flokkana, en að einhverju leyti um þá alla. Hvað þýðir þetta?
Jú, hver flokkur telur sig hafa eitthvað einstakt fram að færa og býr til innanhússhópefli um það sem snýst um að gera sem allra minnst úr vanköntum þeirrar stefnu sem boðuð er, en sem allra mest úr því hvað tillögur flokksins séu einstakar og stórkostlegar. Um leið er eðlilegri gagnrýni á hugmyndir og tillögur tekið sem ósanngjörnum árásum og blásið er á allar efasemdir um framkvæmd eða framvindu þeirra eftir kosningar. Gert er lítið úr öðrum flokkum og hugmyndum þeirra og svo framvegis og svo framvegis. Í umræðum reyna flokkarnir að láta líta svo út að þeir hafi ásamt sérfræðingum sínum og grasrót hugsað sig í gegnum öll vandamálin sem á veginum kunni að verða og leyst þau fyrir fram.
„Samt vita allir að enginn flokkur getur í rauninni boðið upp á meira en kannski ákveðna grunnhugsun um hvernig best sé að nálgast vandamálin.“
Samt vita allir að enginn flokkur getur í rauninni boðið upp á meira en kannski ákveðna grunnhugsun um hvernig best sé að nálgast vandamálin. Enginn veit í smáatriðum hverjar afleiðingar tiltekinna kerfisbreytinga verða og þess vegna þarf að taka þær skref fyrir skref. Allir vita að við þurfum á faglegu og skilvirku stjórnkerfi að halda, en enginn veit nákvæmlega hvernig á að tryggja það – flokkar sem komast í stjórn þurfa að prófa sig áfram. Enginn veit nákvæmlega hvað tiltekin efnahagsaðgerð þýðir til lengri tíma, þess vegna þarf líka að prófa sig áfram. Núverandi ríkisstjórn hefur sett fram ríkissfjármálaáætlun til fimm ára. Nú þegar eru allir búnir að sjá að hún er ómöguleg. Meira að segja ríkisstjórnin sjálf. Hvaða ályktanir má draga af því? Kannski erum við ekki með nægilega stöðugt efnahagslíf og stjórnkerfi til að orðið sé raunhæft að gera slíka áætlanir? Kannski áfallastreituröskunin valdi einmitt því að fólk þykist vera með hluti á hreinu sem það er alls ekki með á hreinu. Eða lánaleiðréttingin, svo enn sé komið að henni. Stjórnin setti upp mikla kynningarsýningu þar sem því var haldið fram að hún hefði stórkostlegar afleiðingar til lengri tíma. Gagnrýnendurnir bentu á að hún myndi hafa hörmulegar afleiðingar. Ætli sé hægt að meta það? Kannski hafði hún engin áhrif.
Meðferð og kappræður
Hugsum okkur dálítið aðra mynd af stjórnmálabaráttu. Hugsum okkur að í staðinn fyrir hinn steindauða kappræðuvettvang sviðsins eða fjölmiðlanna væru frambjóðendur látnir fara í dálitla samtalsmeðferð. Í staðinn fyrir að svara spurningum á borð við; hvernig ætlar þú að endurreisa heilbrigðiskerfið? eða hvernig ætlar þú að láta nýja stjórnarskrá taka gildi? eða hvað ætlarðu að gera við háskólana? þyrfti þetta ágæta fólk að svara spurningum á borð við: „Hverju hefurðu mestar áhyggjur af?“ „Hvar ætlarðu að leita hjálpar?“ „Hvernig ætlarðu að bregðast við ef þér mistekst?“ Er þetta fáránleg hugmynd?
Því það sem verður úrslitaatriði í stjórnmálum framtíðarinnar er ekki hversu vel flokkum tekst að látast hafa allar lausnir á öllum málum á borðinu, heldur hvernig þeim tekst að vinna með kjósendum, með almenningi, eftir kosningarnar. Sjáiði bara síðustu tvær ríkisstjórnir: Báðar unnu kosningar – það er, flokkarnir unnu saman meirihluta – en töpuðu svo kjörtímabilinu. Þetta er eins og að vinna stríðið en tapa svo friðnum. Næsta ríkisstjórn sem tekur sigri hrósandi við stjórnartaumunum eftir nokkrar vikur og kveðst hafa umboð til þess sem ákveðið hefur verið í málefnasamningi ætti að velta þessu fyrir sér. Við þurfum meiri auðmýkt, ekki tregðu til að tjá vanlíðan og óvilja til að leita hjálpar.
Traust til þeirra sem ætla að byggja upp traust
Í byrjun vikunnar var haldinn fundur í Norræna húsinu með Evu Joly, Lawrence Lessig og fleira fólki sem hefur beitt sér af hörku gegn spillingu. Fundarmenn voru sérstaklega beðnir um að vera lausnamiðaðir í ávörpum sínum og þeir reyndu það: Einn sagði að það væri svo frábært við Ísland að hér væri tekist á við ólöglega spillingu, fólk kæmi jafnvel út á göturnar til að mótmæla henni og heimtaði afsagnir. Annar sagði að afsagnir tveggja ráðherra á kjörtímabilinu vektu von um betri starfshætti í pólitík og Eva Joly sagði að Íslendingar væru alveg sérstakir og hún vonaði að Birgitta Jónsdóttir yrði forsætisráðherra.
Ekki ætla ég að leggja mat á þessi ummæli en andi þeirra minnir okkur á aðalatriðið. Hver svo sem tekur við embætti forsætisráðherra, þá stendur næsta ríkisstjórn frammi fyrir massívu vantrausti á kerfum og stofnunum og til þess að horfast í augu við þetta þurfa flokkar ekki bara að setja fram fínpússaðar áherslur í eitt þúsund orðum eða færri, heldur að ávinna sér traust kjósenda með starfsháttum sínum eftir kosningar.
Þetta snýst semsagt um traust, en ekki traust á pírötum eða Bjartri framtíð, eða Vinstri grænum, eða Viðreisn eða Samfylkingu eða einhverjum öðrum flokkum. Þetta snýst um traust á kerfinu í heild sinni. Það mætti alveg setja það fram í einu orði: Traust. Og nota svo kosningabaráttuna til að ræða og útfæra hætturnar og áskoranirnar, rýna í möguleikana sem þessi flokkur eða hinn hefur á því að ná árangri og með hverjum, viðurkenna vankantana, hlusta á aðra, tjá vanlíðan sína og leita hjálpar.
Athugasemdir