Nýlega ákvað bæjarstjórn Kópavogs að hætta stuðningi við Tónlistarsafn Íslands, 7 árum eftir að til þess stuðnings var stofnað. Ákvörðunin hefur þau áhrif að safnið mun í raun leggjast niður að sögn forstöðumanns þess, Dr. Bjarka Sveinbjörnssonar.
Óvænt og gleðileg stofnun
Þegar Tónlistarstarsafn Íslands hóf störf vorið 2009 var það óvænt og gleðilegt framfaraspor fyrir allt tónlistarlíf landsins. Hið óvænta var að það skyldu vera ráðamenn Sjálfstæðisflokks í Kópavogi og Menntamálaráðuneytinu sem höfðu veitt málinu brautargengi á undirbúningstímanum. Það var veglynt og viturt. Álíka óvænt var að nýr ráðherra úr andstæðum flokki skyldi standa við ákvörðunina á versta tíma eftir Bankahrunið. Það var veglynd og vitur ákvörðun.
Með því að tryggja Tónlistarsafninu aðstöðu og rekstrargrundvöll var heiðrað áralangt og kraftmikið sjálfboðastarf Bjarka Sveinbjörnssonar og Jóns Hrólfs Sigurjónssonar að málefnum tónlistarsögu Íslands.
Grettistaki lyft á 6 árum
Eitt af fyrstu verkefnum safnsins var að ljúka við útgáfu ritsins Tónlistarsaga Íslands, sem Jón Þórarinsson hafði unnið að með tilstyrk ráðuneytisins um áratuga skeið. Ljóst var að nú yrði tekið til hendinni í þessum vanrækta málaflokki og hefur hvert stórverkefnið af öðru hlaupið af stokkum safnsins frá stofnun þess. Mörgum verkefnum hefur safnið lokið glæsilega og samtímis hefur uppbyggingu og daglegum skyldum verið sinnt að fullu, og vel það. Eitt það merkasta er stafræn miðlun sagnfræðinnar þar sem Tónlistarsafnið er í forystusveit bæði innanlands og á Norðurlöndum. Til að endurgjalda stuðning Kópavogsbæjar við safnið hafa Bjarki og Jón Hrólfur lagt sig fram um að hafa aðstöðu safnsins opna fyrir aðra starfsemi og viðburði í bænum eins og framast er unnt. Með fullri virðingu fyrir öðru safnastarfi í landinu þá hefur elja, fagmennska og ástríða þeirra Bjarka og Jóns Hrólfs fyrir hönd Tónlistarsafnsins verið langt, langt umfram það sem hægt er að ætlast til. Leyfi ég mér að fullyrða að allir sem hafa kynnt sér störf þeirra hið minnsta muni taka undir það.
Óvænt ákvörðun – og þó
Nú ætla nýjir ráðamenn sama flokks og í sömu stöðum og stóðu að stofnun Tónlistarsafnsins að koma okkur aftur á óvart. Á sjöunda starfsári Tónlistarsafnsins ætla þeir að stöðva þá ómetanlegu uppbyggingu sem Bjarki og Jón Hrólfur hafa unnið að með útsjónarsemi og fagmennsku. Að óbreyttu verður starfsemi Tónlistarsafns Íslands að mestu hætt árið 2016. Margir af ávinningum safnsins munu beinlínis eyðileggjast og óvarin söguleg gögn hverfa í óminnið. Þetta eru mjög váleg tíðindi fyrir menningarlíf Íslands.
Hinn tónlistarmenntaði ráðherra virðist ekki skilja gildi innlendrar sögu á því listasviði sem hann reyndi þó að mennta sig í. Er þá betra að vænta af flokksbróður hans í Kópavogi? Alls ekki. Að minnsta kosti ekki þeim sem þar stjórnar núna. Skrækir Valhallarfálkans bergmála nú á milli Sölvhóls og Hamraborgar með enduróm í ráðhúsbjarginu við Borgartún. Vargarnir eru í drápshug og sækja að menningarstofnunum.
Á sama tíma guma þessir ráðamenn af fordæmalausri velgengni í efnahagsmálum og þreytast ekki á að þakka sér afrek á öllum sviðum. Innan skamms geta þeir þakkað sér slátrun Tónlistarsafns Íslands.
Athugasemdir