Ég vinn á Facebook. Auðvitað ekkert bara, en sem samfélagsmiðlaráðgjafi hjá auglýsingastofunni PIPAR\TBWA er það stór hluti af minni vinnu, ásamt texta- og hugmyndavinnu. Ég heyri í það minnsta einu sinni á dag að samfélagsmiðlar séu tímasóun, yfirleitt frá fólki sem lætur það hljóma eins og það sé einmitt það versta sem til er í veröldinni. TÍMASÓUN! Þetta er sennilega fólk sem aldrei sóar tíma í neitt, vaknar hálfsjö, fer í leikfimi, í vinnuna, borðar hratt í hádeginu og hleypur heim til sín á slaginu fimm til þess að mála gestaherbergið meðan það horfir á fréttirnar.
Ég er áhugamaður um tímasóun, ég er alveg með það á hreinu. Það sem ég er ekki með á hreinu er hvað tímasóun er í raun og veru. Ég gerði mér það að leik rétt áðan að slá orðum eins og „tímasóun“ og „tímaeyðsla“ inn í leitarvélina á www.timarit.is og það er mjög fróðlegt. Fljótt á litið hefur fólk mest litið sjónvarpið hornauga, allar þessar setur fyrir framan skjáinn endalaust. Kvikmyndir líka. Að unga fólkið skyldi flykkjast í kvikmyndahúsin í stað þess að setja niður kartöflur eða stoppa í sokka. Skelfilegt. Spilastokkurinn kemur fyrir fyrir tíma hreyfimynda og lengi eimir eftir af þeirri skoðun að spil séu ekki bara ógöfug heldur líka verkfæri djöfulsins. Við smá eftirgrennslan virðist það haldast í hendur, að andúð á einhvers konar letifíkn sé það sem knýr þessar kölskasögur. Að leggja kapal? Rétt skörinni fyrir neðan endurteknar drykkjuóspektir og strípihneigð að virðingu. Lestur bókmennta fer líka hátt. Skemmtibókmennta vitanlega, fræðibókmenntir hafa alltaf þótt kúl sýnist mér. Einhvers staðar sá ég lýsingu á því hvernig tíminn æddi áfram með tilkomu dagblaða, að nú væri einfaldlega óþægilega auðvelt að koma auglýsingum og upplýsingum á framfæri og þessi æðibunugangur væri engum hollur. Hefur kannski ekki beint með tímaeyðsluna að gera en rímar svolítið við umræðuna um samfélagsmiðlana í dag.
Í dag er Egill Helgason hámenningaruppi með bókmenntaþætti á RÚV fyrir fólk sem veit hvað það syngur og ræktar andann með því að lesa 11 bækur á viku að lágmarki. Tímaeyðsla? Nei. Mannrækt. Stefán Máni er að segja okkur mikilvæga hluti gegnum nautið sitt og svörtu leikmennina. Hver mannskepna skal fylgjast vel með fréttum og vita nákvæmlega hvað iðnaðarráðherra sagði í gær, annars er hún ekki nýtur þjóðfélagsþegn. Sá sem ekki hefur séð Pride and Prejudice, Breaking Bad og Stranger Things fer á mis við merkilega hluti og skyldi frekar skerða nætursvefn sinn en láta meistaraverkin framhjá sér fara. Hefurðu ekki séð Spotlight? Hún vann Óskarinn síðast sko. Hámenning og nauðsyn sem þetta allt saman er. Ok, ég viðurkenni að spil eru litin hornauga af flestum, tölvuspil og raunspil. Reyndar þykir ágætt að grípa í Skrabbl eða Trivjal á aðfangadagskvöldi, að því gefnu að við séum ekki hrædd um að djöfullinn hlaupi í landafræðispurningarnar. Það heitir nefnilega samverustund og það ku gott. Tölvuleikir eru hins vegar ennþá bara rugl, World of Warcraft og Pokémon GO og Candy Crush og hvað þetta allt saman heitir. Og á einhvern undanlegan máta virðist vera miklu verra að veiða Pokémona en að leggja kapal var fyrir þremur áratugum. Ég sé ekki alveg í hverju munurinn liggur en svona er þetta nú samt.
Er þetta ekki gott samt?
„Það gerir engum gott að vera duglegur viðstöðulaust“
Auðvitað þurfum við öll að eyða einhverju af tímanum sem okkur er gefinn. Það gerir engum gott að vera duglegur viðstöðulaust, það segi ég og skrifa. Áhugamál eru frábær og ef hliðarafurð af þeim er eitthvað veraldlegt er það svo sem ljómandi, en enda þótt ég fái bara stafræna bikara fyrir að spila Playstation þykir mér þeim tíma vel varið. Ég verð betri þegar ég er búinn að drepa eins og 200 vonda kalla og skrímsli og það sem meira er, ég verð mun öflugri í þessum hlutum sem þykja göfugri. Stundum þegar ég er kominn nálægt deddlæni með einhver verkefni finnst mér betra að taka mér teiknimyndasögu í hönd og lesa í kannski klukkutíma. Enda þótt sá tími klípist af dýrmætum mínútum sem ég á fram að tímamörkunum hleður tímasóunin heilarafhlöðurnar og mun meira verður úr tímanum þegar allt kemur til alls. Ég gerði fátt í gær, annað en að sinna lágmarks uppeldi og heimilishaldi og enda þótt nokkur verkefni biðu mín horfði ég á tvo þætti af Preacher og sameinaði þar ást mína á sjónvarpinu mínu og teiknimyndasögum. Í dag var ég frábær í vinnunni. Ég sendi mjög marga tölvupósta, tæklaði vandamál og létti meira að segja undir með samstarfsfélaga sem var að falla á tíma. Ég held í alvörunni að ég hefði ekki verið svona pródúktífur, jafnvel þótt Preacher-tíminn hefði farið í svefn.
Tímasóun er nefnilega ekki tímasóun fyrr en hún gengur of langt. Fram að því er hún bráðnauðsynleg, skemmtileg og gefandi. Sumt er vitanlega gáfulegra en annað eins og gengur og því miður verður heimskulegra stöffið stundum ofan á. En hver er munurinn á að spila Candy Crush eða að leggja kapal? Skoppa gjörðum eða veiða Pokémona? Hlusta á húslesturinn eða horfa á Netflix?
Stundum verðum við að gera ekki neitt. Stundum verðum við að vera ein með okkur sjálfum. Stundum verðum við að slá öllu upp í fullkomið kæruleysi og sjá til hvað gerist næst. Við eigum auðvitað aldrei að skorast undan neinu og það er heldur ekkert að því að eyða þessum tíma í ræktinni ef það hentar. En við verðum að slá hlutunum upp í kæruleysi annað slagið. Þá verður svo miklu auðveldara að gera það sem maður á að gera.
Athugasemdir