Ég hef verið svo ótrúlega dapur og stjarfur eitthvað síðustu sólarhringa að ég get varla sagt neitt. Mér finnst til dæmis mjög skringilega óþægilegt að tala um reynslu mína af þeim stöðum þar sem morðin voru framin í París (Le Carillon, Le Petit Cambodge, rue de la Fontaine au Roi), en sumir þessara staða eru akkúrat þar sem ég bjó í nokkur ár og eru mér afskaplega kærir, heimahverfi fjölskyldu minnar og vina. Samt finnst mér eins og maður sé hálfpartinn að sletta sér inn í einhverjar hörmungar sem maður var svo lánsamur að lenda ekki í, ef maður lýsir eigin reynslu á slíkan hátt. Á sama tíma skil ég það svo vel þegar aðrir gera það, því að svona hugsum við sem manneskjur. Við áttum okkur betur á umfangi annarra eins hörmunga ef þær hafa einhvern snertiflöt við okkar eigin líf. Auðvitað er það þannig og það er ekkert að því.
Ég var til dæmis síðast í ágúst á Le Carillon og heilsaði einum gauranna sem hafa unnið þar síðustu árin, ég held jafnvel að hann sé kannski eigandi staðarins. Ég man að ég hugsaði hvað ég væri glaður að sjá hann og fagnaði því að þessi staður breyttist aldrei neitt, líkt og hinir tveir, þrír uppáhaldsstaðirnir mínir í ellefta hverfi og Belleville. Einu sinni týndi ég trefli þarna inni, nýlegri jólagjöf frá kærustunni minni, og hljóp aftur þangað til að leita og þessi kunningi minn sneri öllu við holt og bolt í von um að finna trefilinn, þó án árangurs. Núna vona ég bara að hann sé enn á lífi, að hann hafi ekki verið skotinn af bláókunnugri manneskju með vélbyssu. Þetta er skrítin og óvanaleg tilhugsun fyrir Íslending, en auðvitað daglegur veruleiki margra annarra í heiminum.
Ég held líka áfram að hugsa: Það voru framin morð þar sem ég keypti oft blóm handa kærustunni minni, á rue de la Fontaine au Roi, og það voru framin morð á kaffihússsveröndinni þar sem ég skrifaði stóran hluta af skáldsögunni minni, við rue Alibert sem er gata sem ég geng daglega þegar ég er í París. Í gær skoðaði ég ótal ljósmyndir af hvítum líkpokum þarna. Á föstudagskvöldum er þessi staður (þ.e. Le Carillon) líka alltaf algjörlega pakkaður, einkum af ungu listafólki, og tilhugsunin um ungan, byssubrjálaðan strák þarna er svo hræðileg að ég næ ekki að hugsa hana til enda. Þetta er portið á Kaffibarnum, bara fleira fólk. Það voru líka framin morð á Le Petit Cambodge, sem var staður sem ég hef oft farið með vini mína á. Maður er svo saklaus og vitlaus að maður getur ekkert sagt þegar svonalagað gerist. Af hverju líður manni eins og svona eigi ekki að geta gerst hjá „okkur“, þegar svonalagað gerist ítrekað og stöðugt í öðrum heimshlutum (núna síðast í Beirút)?
Konan mín, sem er uppalin í París, man vel þegar í borginni voru framin hryðjuverk árið 1995, og hún hugsaði: Við erum ekki örugg, annað eins getur gerst hvenær sem er. Hún hefur alltaf vitað þetta, eða frá því að hún var átta ára. Við Íslendingar eigum til að finnast við standa svoldið fyrir utan veröldina (enda gerum við það á vissan hátt) en við megum aldrei hugsa þannig.
Mér fannst til dæmis mjög erfitt og óþægilegt þegar við kepptumst um að tala um tjáningarfrelsið í kjölfar Charlie Hebdo. Gengi af arabískum uppruna hélt til í götunni minni í meira en ár, strákar sem töluðu harða götufrönsku og áttu enga sérstaka framtíð fyrir sér aðra en að selja eiturlyf (enda gerðu þeir það). Þeir voru stundum með stæla við mig, en vildu held ég í rauninni bara að ég heilsaði þeim og hunsaði þá ekki, eins og einhver snobbhundur. Enda hættu þeir allri vitleysu þegar ég tók að heilsa þeim daglega og spjalla við þá. Þeir voru dæmi um svo ótrúlega marga sem samfélagið hefur algjörlega hafnað. Auðvitað eru þeir reiðir og frústreraðir. Auðvitað særir þá hvað sumir hafa það gott – og líta á það sem sjálfsögð réttindi sín – og hvað misskiptingin er gapandi og miskunnarlaus. Og tjáningarfrelsið, hvað er það eiginlega í augum fólks sem á sér enga málsvara, sem getur hvergi látið rödd sína heyrast?
Og ég hugsa líka: Hversu illa líður ungum drengjum ef eldri menn í öðrum löndum geta sannfært þá um að myrða tugi ókunnugs fólks og binda svo enda á eigið líf? Í hvernig samfélagi verða slíkir menn til?
Um daginn las ég fína bók, Between the World and Me, eftir Ta-Nehisi Coates. Þar er útgangspunkturinn einkum meðferðin á svarta líkamanum í bandarísku samfélagi; hvernig hann er „annars flokks“, hvernig honum er rústað og hann skrumskældur og hann myrtur og niðurlægður. Í New York bý ég í hverfi sem er „svart“ og hef aldrei vitað vinalegra umhverfi. Á sama tíma myrða hvítir (og svartir) lögreglumenn litað fólk vikulega, án ástæðu, í Bandaríkjunum öllum. Rasisminn hér er ótrúlegur og sömuleiðis stéttaskiptingin. Forfeður fjölmargra nágranna minna voru sjálfsagt þrælar einhverra hvítra manna á nítjándu öld.
París er heimabær minn. Þar búa fjölskylda mín og vinir og föstudagskvöldið fór í að ná sambandi við fólk, í hræðilegum ótta við að einhver hefði slasast, jafnvel dáið. Mér líður eins og heimamanni á báðum þessara staða, ekki síður en í Reykjavík – en það er vegna þess að ég nýt forréttinda, í krafti útlits míns og uppruna. Ég er heppinn og ég geng út frá því að geta flakkað um heiminn og að allir séu vinir mínir. Þannig á það líka að vera. En það er svo sannarlega ekki þannig fyrir alla – raunar njóta aðeins örfáir slíkra forréttinda.
Í mínum huga er allt sem við gerum og segjum tjáning, en ekki síður allt sem við gerum ekki og segjum ekki. Skotmörk föstudagskvöldsins voru ungir, inngrónir, franskir borgarar, ekki túristar, ekki handahófskennt samsafn af fólki heldur ungt fólki sem var úti að skemmta sér. Þetta hefði eins getað verið einhver krakkahópur á Húrra. Eins og ef heilum Airwaves-tónleikasal hefði verið slátrað. Veröldin er lítil og snertir okkur öll. Það er enginn munur á Íslendingi og Frakka og Sýrlendi og Bandaríkjamanni eða manneskju í Beirút og samt virðumst við oft líta svo á að þarna á milli sé himinn og haf. En það var skotið á okkur á föstudaginn og mér líður eins og það hafi einnig verið við sem héldum á byssunum. Og að það verði áfram við sem skjótum á okkur sjálf í hvert skipti sem við erum rasísk, höfnum flóttafólki, sýnum hræðslu okkar í verki, lítum svo á að við eigum meðfæddan rétt til að njóta betra lífs en flestir aðrir á jörðinni.
Athugasemdir