Undanfarið hefur þessi gula á himnum verið virkilega áberandi og margur kulsækinn Íslendingurinn rýkur upp til handa og fóta, rífur sig úr fötunum og út á pall með sólstól. Nú hefur veðurtilkynningaskyldan á Facebook tekið U-beygju og í stað þess að væla um vont veður og snjó sést nú fátt annað en myndir af berum leggjum og rauðbrystingum í sumarbústöðum með sólgleraugu og hélaðan drykk í hönd. Allt til þess fallið að gera okkur, sem vinnum innandyra flesta daga, afbrýðisöm. Grátleg sóun að missa af sólríkum dögum og þurfa að hanga inni, segir einhver. Hugsanlega er það þó blessun fyrir einhverja.
Nú er húð mín eins lífeðlisfræðilega íslensk og hægt er, bleik, þrútin og sólbrennur þegar ég opna ísskáp. Að auki má ég ekki blása úr nös, fá mér bjór eða heyra lélegan brandara þá roðnar hún upp úr öllu valdi. Svo má hitinn helst ekki fara upp fyrir 10 gráður þá er ég orðin svo klístruð á innanverðum lærunum að ég fæ núningssár við að labba út með ruslið.
Nú lenti ég í því um daginn að eiga frídag. Sólin skein sínu skærasta og 17 gráðu hiti. Ég sat inni bróðurpart dagsins, með samviskubit yfir því að vera ekki úti í sólbaði. Hugsanlega að missa af tani. Tanið hefði ég þó aldrei fengið, þó ég hefði legið úti klukkustundum saman, stiknað eins og hamborgarhryggur og látið Sigga Hall pensla mig með sýrópsgljáa. Ég brenn, verð bara rauð og svo aftur hvít.
Ekki halda að ég hafi sloppið í gegnum unglingsárin án þess að taka skinkutímabil. Í dentíð lét ég ekkert stoppa mig og lá grimmt í ljósabekkjunum. Jólin máttu ekki koma árið 2006 án þess að ég kæmist í tvöfaldan túrbótíma á Þorláksmessu. Ég uppskar vægast sagt eins og ég sáði og leit út eins og sviðakjammi. Ég get hugsað til baka og þakkað fyrir að hafa lifað þetta af, geta drukkið bjór innandyra, skyrhvít og beðið bara að heilsa henni gulu.
Athugasemdir