Mamma mín er grunnskólakennari. Þegar ég var 6 ára fór hún í verkfall með öðrum kennurum. Það var langt og þó að ég hafi fyrst um sinn verið alsæll með að vera í fríi frá skólanum varð umræðan alvöruþrungnari eftir því sem verkfallið dróst á langinn og þetta hætti að vera gaman. Þarna heyrði ég stjórnmálamenn í fyrsta skipti útskýra af hverju ekki mætti hækka laun kennara nema mjög takmarkað. Halli á ríkissjóði og verðbólga. Eðlilega kunni ég ekki skil á þessum hugtökum og var því engu nær. Þegar ég spurði fullorðna fólkið út í málin fannst mér fátt um svör, en þetta hlaut að vera eitthvað sem væri of ungur til að fatta.
Eftir stóð að mér fannst það ekki meika neinn sens að fólk sem gengi um með skjalatöskur og starfaði við pappíra væri með miklu hærri laun en kennarar. Á sama tíma og hamrað var í mann að skólaganga væri öllu mikilvægari voru störf þeirra sem sáu um menntunina greinilega ekki mikils virði. En eins og oft gerist þegar börn tala við fullorðna um hluti sem eru flóknir þá er það einhvern veginn afgreitt þannig að þau muni skilja þetta seinna.
Nokkrum sinnum á ári kemur nokkurra daga tímabil á Íslandi þar sem fátt annað kemst að í umræðunni en fjárlög ríkissjóðs eða kjarasamningar. Þá heyrum við fólk með alvörugefna ásýnd tala um „framúrkeyrslu“, „hallalausan Ríkissjóð“, „útgjaldavöxt“ og fleira í þeim dúr. Umræðan verður, eins og alltaf flókin, frasakennd og tæknileg, sem kemur í veg fyrir að venjulegt fólk skilji af hverju það hefur það ekki betra í landi sem er sennilega ríkara af auðlindum per haus en nokkuð annað í veröldinni. Með því að halda umræðunni flókinni heldur áfram leikrit þar sem enginn þorir að taka að sér hlutverk litla barnsins sem bendir á berrössun keisarans.
Það kann vel að vera að ég hafi rangt fyrir mér, en því oftar sem ég heyri stjórnmálamenn tala um efnahagsmál, því sterkari tilfinningu fæ ég fyrir því að langflestir þeirra hafi aldrei virkilega spurt sig þeirrar grundvallarspurningar hvað peningar raunverulega séu. Peningar eru ekki verðmæti, heldur mælieining á verðmætum. Rétt eins og metri er mælieining á lengd.
En eru peningar yfir höfuð góð mælieining? Það hlýtur að vera lykilatriði að fólk sem telur sig í stakk búið að stýra samfélögum hafi spurt sig þessarar spurningar.
Einu sinni var eitthvað raunverulegt á bakvið peningana, gull. En meira að segja þegar bókhald heimsins átti að byggja á gullfæti var hringiða heimsins aldrei háð gullinu. Smá dæmi því til stuðnings:
Gefum okkur að bankar heimsins komist einn daginn að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að það sé gífurlegt óhagræði að geyma gull í hverjum einasta banka og flytja það á milli þeirra á hverjum degi. Þeir ákveða því til hagræðis að koma öllu gullinu fyrir á lítilli eyju í Indlandshafi og í stað þess að færa það áþreifanlega á milli staða halda þeir einfaldlega bókhald yfir gullið á pappírum og búa til kerfi sem tryggir að hver og einn fái sinn skerf af gullinu í samræmi við bókhaldið þegar þar að kemur. Næstu árin blómstrar efnahagskerfi heimsins og hlutirnir hafa aldrei gengið betur. Því ber að fagna og nokkrum árum eftir þessa breytingu á kerfinu ákveða yfirmenn helstu banka heimsins að hittast á eyjunni, eiga þar frí í sólinni, fara yfir málin og kíkja á gullið. Á þriðja degi er komið að því að berja gullið augum. Nú bregður svo við að yfirmaður gullgeymslunnar verður hálf-kindarlegur á svip og segir loks hópnum sannleikann. „Það er ekki hægt að skoða gullið. Hér urðu rosalegar náttúruhamfarir í fyrra og gullið glataðist allt. Ég ætlaði að vera búinn að segja ykkur þetta, en hafði mig einfaldlega ekki í það.“
Viðstöddum verður á svipstundu ljóst að hvarf gullsins hafði engin áhrif á efnahagskerfi heimsins, þar sem enginn vissi af því nema yfirmaður gullgeymslunnar. Á meðan bókhaldið gerði ráð fyrir gulli tók enginn eftir neinu. Með öðrum orðum var gullið bara mælikvarði sem var notaður í bókhald, en velsæld heimsins byggði aldrei á því að stöðugt finndust nýjar gullnámur.
„Peningar eru ekki verðmæti.“
Flest getum við verið sammála um að eftir að gullfætinum var aflétt hafi svo mælieiningin (sem aldrei var fullkomin til að byrja með) farið að skekkjast verulega. Með tilkomu afleiðuviðskipta, skortstöðu og fleiri hluta sem fæstir skilja er mælieiningin smám saman algjörlega hætt að mæla það sem ætlunin var að hún mældi. Í skjóli flækjustigsins hafa verið búin til verðmæti úr engu, en á sama tíma eru raunveruleg verðmæti sárlega vanmetin með hinni ófullkomnu mælieiningu. Þeir sem starfa nálægt „peningunum“ en skila í raun engum verðmætum (og eyðileggja jafnvel verðmæti) fá margfalt meira borgað en þeir sem raunverulega skila verðmætum til samfélagsins en eru í meiri fjarlægð við „peningana“.
Í kreppu verður þetta sérlega áberandi. Þó að nóg sé til af öllu og ekkert hafi breyst í raunverulegum verðmætum jarðarinnar skerðast kjör fólks af því að „það vantar pening“. Sálfræðilega erum við enn á sautjándu öld þó að tæknilega séum við á þeirri tuttugustu og fyrstu.
Setningar eins og: „Það er ekki til fjármagn“ og „hvaðan eiga peningarnir að koma?“ eru alls ekki ósambærilegar því að manni sem ætlaði að byggja hús væri sagt að það væri ekki hægt með eftirfarandi rökum: „Hvaðan ætlar þú að fá sentimetra?“
Fyrir meira en 200 árum síðan setti sósíalistinn Robert Owen fram þá kröfu að verkafólk ætti ekki að vinna meira en 8 tíma á dag, sem síðar varð að meginkröfu í lýðræðisríkjum. 200 árum síðar vinnum við jafnmikið eða meira þrátt fyrir að nú sé hægt að gera hluti með vélum á nokkrum mínútum sem þá tók fjölda manns fleiri vikur að gera. Tilgangur vélarinnar var upphaflega að auðvelda lífið. Nú er tilgangurinn að stóru leyti sá að búa til gróða fyrir þá sem eiga vélarnar og halda uppi skökku verðmætamati. Eftir því sem ég skoða málin betur verð ég æ sannfærðari um að skýringuna á því að líf okkar sé ekki miklu einfaldara og áhyggjulausara sé að finna í skökku mælikerfi á verðmætum. Sem betur fer er ég ekki einn um það. Mjög góðar hugmyndir um annars konar kerfi en það sem við búum við í dag má til dæmis finna á thevenusproject.com.
Ef við höldum áfram að kaupa okkur inn í alvöruþrungna, tæknilega og frasakennda umræðu um efnhagsmál munum við áfram búa við gífurlega óréttlátt kerfi. Kerfi þar sem verðmætamatinu er haldið uppi af þeim sem hafa hag af kerfinu og þeim sem skilja það ekki.
Eftir nokkuð langt tímabil þar sem ég keypti mig inn í hugtakaleikritið er ég aftur að komast á sömu skoðun og þegar ég var sex ára. Það er tómt rugl hvernig við mælum verðmæti!
Athugasemdir