Í síðustu viku var kynntur til leiks þungavigtarmaður. Maður sem er svo fær í verkefnastjórnun og í því að leiða saman ólík sjónarmið að hann var ráðinn af atvinnuvegaráðuneytinu í nýtt, krefjandi starf í atvinnugrein sem hann hefur aldrei áður komið nálægt. Og já, hann var ráðinn án auglýsingar.
Gerður var við hann munnlegur samningur um að hann skyldi fá tvær milljónir króna á mánuði fyrir að taka að sér að greina, leiða og stýra breytingaferli í ferðaþjónustu á Íslandi og á hann að „samhæfa aðgerðir og útfæra leiðir í samvinnu við stjórnsýslu, sveitarfélög, stoðkerfi greinarinnar vítt og breitt um landið, greinina sjálfa og aðra hagsmunaaðila.“
Þetta verður að teljast verðugt verkefni enda er um ótalmarga, ólíka aðila að ræða með ólíka hagsmuni að gæta.
Ferðamálastofu var hins vegar ekki falið verkefnið og ekki heldur nýlega skipuðu ferðamálaráði, sem einnig er skipað opinberum fulltrúum í bland við einkaaðila og virðist í fljótu bragði hafa mjög svipuðu hlutverki að gegna og nýstofnuð Stjórnstöð ferðamála.(Þess má geta að formenn ferðamálaráðs voru sömuleiðis skipaðir án auglýsingar af Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.) Verkefnahópur leiddur af fyrrverandi þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Guðfinnu Bjarnadóttur, komst aftur á móti að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að setja á fót nýjan samráðsvettvang. (Ráðgjafafyrirtæki Guðfinnu fékk 14,6 milljónir króna frá atvinnuvegaráðuneytinu fyrir að komast að þessari niðurstöðu.) Og yfir þennan nýja vettvang var fenginn þungavigtarmaður.
Hann er nú á flótta.
Hörður Þórhallsson hefur hvergi komið fram í fjölmiðlum frá því hann var ráðinn framkvæmdastjóri nýrrar Stjórnstöðvar ferðamála í síðustu viku, ef frá eru talin tvö stutt samtöl við Stundina. Síðustu samskiptum lauk með þeim hætti að hann sagðist ekki hafa áhuga á að svara spurningum Stundarinnar símleiðis framar og bað um að fá þær sendar skriflega, í smáskilaboðum. Stundin varð við þeirri beiðni, en hefur enn ekki fengið svör.
En hvers vegna hefur enginn annar fjölmiðill rætt við Hörð? Er ástæðan sú að enginn annar fjölmiðill hefur áhuga á að ræða við manninn sem er svo mikill fengur að hann er ráðinn af ráðuneyti án auglýsingar til þess að leiða stefnumótun í stærstu atvinnugrein landsins? Eða er ástæðan kannski sú að Hörður hefur ekki viljað ræða við fjölmiðla?
Ég hallast að seinni kostinum.
Stundin sagði frá því fyrir sléttri viku að Hörður væri skráður til þátttöku á landsfund Sjálfstæðisflokksins, en hann þvertók hins vegar fyrir að hafa tengsl við flokkinn. Fréttin byggði á skráningu Harðar á Facebook-viðburð á vegum Sjálfstæðisflokksins þar sem hann hafði boðað mætingu á landsfund.
Í texta með viðburðinum segir að aðildarfélög og fulltrúaráð flokksins skipi landsfundarfulltrúa og að allir sjálfstæðismenn geti sóst eftir seturétti. Þeim sem hafa skráð sig til þátttöku á viðburðinum ætti því að vera ljóst að til þess að mæta á landsfund þurfi þeir að vera skráðir í Sjálfstæðisflokkinn og skipaðir landsfundarfulltrúar. Út frá þessum upplýsingum er hins vegar ekki hægt að fullyrða að Hörður sé landsfundarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, enda hefur hann þvertekið fyrir það. Hins vegar verður að teljast skrítið að boða mætingu á viðburð sem þú hefur engan möguleika á að sækja. Kannski skráði hann sig í hálfkæringi og af léttúð. Aldrei að vita. Hörður hefur hins vegar ekki viljað tjá sig um málið og því erfitt að komast að hinu sanna.
„Hins vegar verður að teljast skrítið að boða mætingu á viðburð sem þú hefur engan möguleika á að sækja.“
Nokkrir hafa stigið fram til varnar Herði frá því fréttaflutningur hófst af ráðningu hans. Þeirra á meðal er Þórir Garðarsson, varaformaður Samtaka ferðaþjónustunnar, sem segir það hafa verið fulltrúa SAF í stjórn Stjórnstöðvarinnar sem hafi lagt til ráðningu Harðar. Hins vegar hafi alveg gleymst að skoða flokkskírteini hans. Þá segir hann ráðningu Harðar hafa verið „ákveðnum aðilum hugleikinn, sérstaklega þegar orðrómur var uppi með að maðurinn færi á Landsfund Sjálfstæðisflokksins sem maðurinn hefur ítrekað reynt að leiðrétta.“ Þetta er ekki rétt. Frá því Stundin birti fyrstu fréttina af ráðningu Harðar, fyrir sléttri viku, hefur ritstjórn ekki borist eitt símtal, tölvupóstur eða SMS-skilaboð þar sem reynt er að koma á framfæri leiðréttingu. Það var ekki fyrr en Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, skrifaði leiðara á sunnudag, þar sem meðal annars var vísað í frétt Stundarinnar, að Hörður kom því á framfæri við Kjarnann að hann væri ekki landsfundarfulltrúi og var leiðaranum breytt í samræmi við þá ábendingu.
Líkt og ritstjóri Kjarnans bendir á í áðurnefndum leiðara gerir það Hörð alls ekki vanhæfan í starf framkvæmdastjóra Stjórnstöðvar ferðamála að taka þátt í stjórnmálastarfi. „En það er tortyggilegt þegar maður með enga reynslu af ferðaþjónustu er ráðinn án auglýsingar af stjórnmálamönnum til að þiggja mjög há laun við stýra apparati sem er búið til af hinu opinbera,“ eins og hann orðar það.
Þá eru viðbrögð Ragnheiðar Elínar við fréttaflutningi af tengslum Harðar við Sjálfstæðisflokkinn einnig til þess fallin að vekja tortryggni. Fyrst gróf hún upp upplýsingar um að Hörður hefði verið í 14. sæti á lista Alþýðubandalagsins á Reykjanesi þegar hann var tvítugur. Skemmtileg staðreynd, en tengist núverandi stjórnmálastarfi Harðar ekki neitt, enda má teljast líklegt að skoðanir hans kunni að hafa breyst á síðastliðnum 28 árum. (Ólafur Ragnar Grímsson var í öðru sæti á sama lista.) Þegar Ragnheiður Elín var síðan spurð út í ráðninguna á Alþingi í gær sagðist hún meðal annars hafa litið til fordæma sem sett voru af fyrri ríkisstjórn. Þessi röksemdafærsla er orðin ansi þrálát, en eins og maður lærði í rökfræðinni í háskólanum þá er ekki hægt að færa rök fyrir eigin gjörðum með því að benda á einhvern annan sem hegðaði sér eins, eða verr.
Staðreyndir málsins eru þessar:
- Hörður Þórhallsson var ráðinn í starf framkvæmdastjóra Stjórnstöðvar ferðamála, án auglýsingar, af atvinnuvegaráðuneytinu. (Eftiráskýringar upplýsingafulltrúa Samtaka ferðaþjónustunnar um að það hafi í raun verið SAF sem tilnefndu Hörð í umrædda stöðu við Ragnheiði Elínu Árnadóttur og Halldór Halldórsson skipta því ekki máli, því lokaákvörðun um ráðninguna var tekin af ráðuneytinu.)
- Ríkið og Samtök ferðaþjónustunnar skipta launakostnaði, tæpum tveimur milljónum á mánuði, með sér til helminga.
- Hörður skráði sig til þátttöku á landsfund Sjálfstæðisflokksins í gegnum Facebook-viðburð á vegum flokksins, en hefur síðan afskráð sig. (Mynd af Herði þar sem hann situr að snæðingi með framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og öðrum ritstjóra Morgunblaðsins er hins vegar ennþá aðgengileg á vefnum).
- Og að lokum, Hörður svarar ekki spurningum Stundarinnar um málið.
Athugasemdir