Ung stúlka var horfin. Líkt og restin af þjóðinni vonaði ég það besta, þótt undirmeðvitundin hafi búið sig undir það versta. Þegar illi grunurinn var staðfestur og Birna fannst látin helltust sorgin og áfallið yfir. Í kjölfarið hreiðraði gamalkunnur kvíði um sig í maganum á mér. Kvíði fyrir heiftinni, dómhörkunni og skrímslavæðingunni sem stundum einkennir umræðuna í kjölfar ofbeldisverka, sérstaklega þegar kynbundið ofbeldi á í hlut.
Áður en lengra er haldið skal tekið fram að reiði er skiljanleg og stundum bráðnauðsynleg tilfinning gagnvart óréttlæti heimsins. Hún getur knúið okkur til þarfra verka og jafnvel leitt til byltingar, þar sem úreltum viðhorfum er skipt út fyrir ný. En reiði getur líka orðið til þess að við útmálum gerendur ofbeldis sem skrímsli og ómenni sem eiga ekkert skylt við okkur hin, viti borna fólkið af holdi og blóði.
Fórnarkostnaður skrímslavæðingarinnar
Flestir sem útmála ofbeldismenn sem ómennsk óféti gera það eflaust af góðum ásetningi og telja sig vera að undirstrika fyrirlitningu sína á ofbeldi. Mig grunar að fæstir átti sig á því hverjir bera hinn raunverulega fórnarkostnað af slíkri skrímslavæðingu, en það eru þeir sem eiga um sárast að binda: Aðstandendur gerenda en ekki síst brotaþolarnir sjálfir. Þeim mun meira sem ofbeldismenn eru úthrópaðir sem óbermi sem eru gersneyddir mannlegum eiginleikum – þeim mun líklegra er að brotaþolar fyllist af skömm fyrir að hafa treyst skrímslinu, sest upp í bíl með honum, farið á stefnumót með honum, jafnvel gifst honum. Þannig er nefnilega aðdragandi flestra ofbeldisverka. Mál Birnu, blessuð sé minning hennar, er óvenjulegt því fátt bendir til þess að hún hafi þekkt þann (eða þá) sem varð valdur að dauða hennar. Frá 2000 til vorsins 2016 voru tíu íslenskar konur (eða konur sem bjuggu og störfuðu á Íslandi) myrtar. Allar féllu þær fyrir hendi karlmanns sem þær þekktu og treystu á einhverjum tímapunkti. Flestar höfðu þær alið morðingja sínum barn.
„Þeim mun meira sem ofbeldismenn eru úthrópaðir sem óbermi sem eru gersneyddir mannlegum eiginleikum – þeim mun líklegra er að brotaþolar fyllist af skömm fyrir að hafa treyst skrímslinu, sest upp í bíl með honum, farið á stefnumót með honum, jafnvel gifst honum.“
„En hann er svo góður sundmaður!“
Sem betur fer lýkur ekki öllu ofbeldi með dauða. Árið 2010 leiddi rannsókn í ljós að 42% íslenskra kvenna höfðu upplifað líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi á lífsleiðinni. Ég er ein þeirra. Eins og svo algengt er reyndist nauðgarinn í mínu tilviki ekki vera ómennsk skuggavera heldur bjartur og hraustlegur skólabróðir minn sem ég deitaði þegar ég var sextán ára. Hann var – og er – manneskja sem tók hræðilega ákvörðun. Þar sem hann var ekki skrímsli tók það mig lengri tíma að horfast í augu við ofbeldið sem hann beitti mig. Ranghugmyndin seinkaði þannig bataferlinu. Sama má segja þegar menn, sem njóta virðingar, eru opinberlega sakaðir um ofbeldi og þeir sem trúa ekki ásökununum keppast við að ausa þá lofi til að sýna hvað þeir séu fjarri því að vera skrímsli. „En hann er jú svo góður sundmaður/frábær leikstjóri/umhyggjusamur faðir!“
Skrímslavæðing þeirra sem gerast sekir um ofbeldi er flótti frá vandanum, því ef við búum til undirflokk ómenna getum við fjarlægt okkur sjálf og forðast að líta í eigin barm. Þá þurfum við ekki að spyrja óþægilegu spurninganna um hvað í samfélagi okkar elur af sér ofbeldi, né eiga samtal við gerendur um hvaðan hegðun þeirra kemur. Þetta dregur úr líkum þess að þeir, sem vilja hætta að vera hluti af vandamálinu, geti orðið hluti af lausninni. Að lokum stuðlar skömm að þöggun meðal brotaþola, eins og fram hefur komið.
Fordæmum verknaðinn
Ég andaði léttar þegar fordæming og gífuryrði reyndust ekki vera helstu viðbrögðin sem harmleikur Birnu ól af sér, þótt slíkar raddir hafi látið á sér kræla. Fyrst fylltist fréttaveitan mín af hjörtum, ljóðum og sorg, en svo gerðist nokkuð sem ég hafði ekki séð fyrir. Varfærnislegir statusar og hugleiðingar tóku að birtast sem lýstu þrá eftir samkennd og skilningi til að geta fyrirbyggt ofbeldi og skapað betri heim. Ekki bara fyrir þolendur heldur einnig fyrir gerendur og aðstandendur þeirra, sem mynda samfélag okkar. Skrímsli er í besta falli ímynduð ógn sem bíður færis undir rúmi þegar myrkrið skellur á. Raunverulegir gerendur bjóða okkur hins vegar á rúntinn á Laugaveginum, sitja á næsta borði í skólastofunni, ganga við hlið okkar upp að altarinu, feðra börnin okkar. Traust okkar til þeirra er ekki til marks um dómgreindarbrest, það er til marks um hversu algengt ofbeldi er og sannar að það sést ekki utan á fólki hvort það er líklegt til að beita því.
Okkur ber að fordæma hvers kyns ofbeldi og róa öllum árum að því að uppræta það. En á meðan við látum heift blinda okkur fyrir þeirri staðreynd að gerendur eru manneskjur, þá sláum við árarnar úr höndum brotaþola og róum sjálf í hring.
Athugasemdir