Ég hef verið nokkrar vikur í Berlín. Þrammað sveittur á tánum, silast stressaður í strætó og skrölt neðanjarðar í U-bahn í kolvitlausa átt. Lítill kröfuharður einræðisherra, fjögurra mánaða dóttir mín, ákvarðar að miklu leyti radíusinn sem við foreldrar hennar getum ferðast innan. Og það flatarmál er ekki með mjög há π r2 gildi. Til þess að hlúa að geði og líkamlegri heilsu fórum við foreldrar hennar að skiptast á að skokka um hverfið. Eftir nokkra daga áttaði ég mig á því að ég virtist alltaf vera að hlaupa meðfram skurðum.
Borgin er nefnilega skorin í sundur af kanölum – skurðum sem menn hafa plægt um borgina þvera og endilanga og þannig breytt ánni Spree í net fljóta sem renna renna svo hægt að þú sérð það ekki. Áður voru þeir notaðir til að tengja skipasmíðastöðvar við ár sem renna út í sjó. Þeir gerðu fólki einnig kleift að flytja vörur inn og út úr borginni á vöruprömmum og skipum og svo voru einhverjir sem bjuggu í húsbátum sem flutu um skurðina.
En með framvindu tímans hafa þeir öðlast ný hlutverk. Þrátt fyrir að vera enn notaðir af íbúum og ferðamönnum er allt sem gerist á þeim í dag leikur einn. Í stað kartöflusekkja og sykurs skríða nú um skipaskurðina ferjur fullar af ferðamönnum. Akkúrat nógu stórar til að fylla vel út í 20 metra breiða og tveggja metra djúpa skurðina, vagga þær hægt um borgina á meðan túrgædar frussa út úr sér fróðleik í gegnum hátalarakerfi á sama tíma og eigendur misathugulla eyrna troða í sig currywurst eða þriggja rétta og rauðu – allt eftir stétt og stöðu.
Í kringum þessa hægfara risa eru enn aðrir fljótafarþegar á leigðum kanóum eða uppblásnum bátstuðrum úr dótabúðum. Þessir skipstjórar setja varir sínar á aðrar varir, ölflöskustút, eða utanum sjálfvafin misdýr reykelsi.
Umhverfis hinar mörgu brýr sem ganga yfir skipaskurðina er örtröð gangandi vegfarenda, reiðhjóla og bíla af öllum stærðum og gerðum. Brýrnar gegna einnig hlutverki striga fyrir pólitísk slagorð: Róttækir og valdlausir krefjast breytinga – Ísraelar fyrir frjálsri Palestínu! Rústum feðraveldinu, fordómum og kapítalismanum! Flóttamenn verið velkomnir! Brýrnar eru líka mistilkomumiklar, eftir því hvar í borginni þær standa og hvenær þær voru byggðar. Í gömlu Austur-Berlín eru þær bogadregnar, rembast við að tilheyra framtíðinni, löðrandi í elegant Sovéskstoltu notagildi, á meðan vesturbrýrnar eru meira í takt við háalvarlega kapítalíska ábyrgðarkennd, í formi blágrýttrar fjöldaframleiddrar ferhyrndrar formfegurðar.
Meðfram skurðunum eru svo götur og garðar. Girðingar og göngustígar. Græn svæði og gangstéttar. Þetta eru svæðin sem ég skokka í gegnum á hverjum einasta degi. Ég skokka yfir umferðargötu og inn í íbúðarhverfi og yfir tún og inn í almenningsgarð og í gegnum veitingastað og í moldinni því hún er mýkri fyrir hnén á mér og yfir drullupolla í rigningunni og í skugganum af trjánum í hitabylgjunni og í gegnum tyrkneska markaðinn á þriðjudögum og föstudögum og stíg í hundaskít og traðka honum svo á gulnandi laufblöðin sem falla úr trjánum eins og þyrlur og svitinn perlast á enninu á mér, rennur inn í eyrun og brennir á mér augun.
Þegar ég slánast meðfram Landwehrkanal upp úr hádegi í miðri viku eru þar háalvarlegir boccia-spilarar á þartilgerðum völlum. Í kringum þá myndast múgæst stemning hóps sem er búinn til af blöndu kærulausra ungra túrista með bakpoka og bjór og annarra leikmanna sem benda upp og niður völlin með augabrýrnar ýmist þungar eða léttar. Í görðunum annarstaðar flatmaga ungir foreldrar og vinir þeirra á teppum í pikknikk ferðum sem tröllríða þýsku þjóðinni þessi misserin. Með nesti og nokkra ískalda sitja þau flissandi á grasinu, smyrja sér brötchen og hrista maurana af teppinu ofaní karftöflusalatið. Rétt hjá þeim eru aðrir borgarbúar í sínum allra svörtustu fötum. Anarkó pönkarar í páfuglaleik - hver er mest á móti kerfinu og hvernig getum við sigrað það? Út um allt er fólk ræðandi ástandið. Hugmynd að bættum heimi. Með áhuga á raunverulegum lausnum á óréttlætinu og hryllingnum, sumir með illa lyktandi logandi kyndlana og rauðu augun blikkandi yfir glottinu. Ég mæti fólki á reiðhjólum af öllum mögulegum gerðum. Með börnin stráð víðsvegar yfir sig; í vagni dregnum fyrir aftan hjólið, í kassa byggðan framaná það, á bakinu, í stólum á stýrinu eða bögglaberanum. Ég hef séð tvo fætur hjóla fyrir átta. Hér er það reiðhjólið sem er þarfasti þjónninn.
Á föstudags og laugardagskvöldum skokka ég í rökkrinu og nú hafa skurðbakkarnir umbreyst í 4.1 km x2 km langan skemmtistað. Árbakkar, veggir, brýr og garðar, þaktir endalausum hópum fólks á öllum mögulegum aldri: Fínt beige-litað eldra fólk með léttvín og osta á litlum köflóttum klútum við hliðina á hóp af kolsvörtum mönnum í fánalitum Jamaíka, japlandi á logandi lurkunum með stórar, perulaga húfur sem þungir og vandaðir dreddlokkarnir gægjast undan við hliðina á ungum pönkurum með glansandi keðjur og gadda og marglit hár og spreybrúsa við hliðina á fátenntum en þéttholda ógæfumönnum rámum í snjáðum galla-alklæðnaði að súpa úr örsmáum sprúttflöskum og aldrei deyr í sígarettunni við hliðina á bocciavellinum sem núna er orðin að breakdansgólfi þar sem ristórt búmmbox blastar bassaþungum tónum yfir allt stóðið þar sem listamaður í jogginggalla snýst í hringi á höfðinu ofaná útflöttum bylgjupappanum við hliðina á ungu pari í sleik við hliðina á hipster sem er að greiða á sér skeggið undir ljósastaur drekkandi microbrew af allra sjaldgæfustu sort á meðan hann þykist vera að lesa bók við hliðina á manni sem byrjaði kvöldið á undan öllum öðrum og er aðeins að hvíla augun í sólblómabeði.
Bara aðeins að hvíla augun.
Í gegnum allt þetta skokka ég sveittur og flissandi. Heim til dvergvaxna einræðisherrans míns, sem hefur nýlokið við að setja lög þess efnis að radíus ferðafrelsis míns takmarkist þetta kvöldið við íbúðina okkar litlu við Harzer Straße 11. Ég kyssi litla kúgarann minn á ennið og hlýði möglunarlaust.
Athugasemdir