Það er ekki hægt að hafa samband við látið fólk. Öll uppsöfnuð vísindaleg þekking mannkyns bendir til þess að það sé ekki mögulegt. Við getum kosið að trúa öðru, en það gerir það ekki sannara.
Hins vegar er hægt að selja fólki að það sé hægt að hafa samband við látið fólk. Því þótt það sé ekki framboð af samskiptum við látið fólk, er til mikil eftirspurn. Allir vilja tala við einhvern látinn. Þegar varan er ekki til, er hægt að reyna að falsa hana. Það er gert í mörgum geirum - sölu á skartgripum, listaverkum og fleiru sem hægt er að falsa á sannfærandi hátt, þar sem það er erfitt að afsanna að varan sé ekta.
Miðlar selja þjónustu sem viðurkennd þekking okkar segir að sé ekki raunveruleg í sjálfri sér. Hins vegar hefur verið sýnt fram á að aðferð þeirra til að telja fólki trú um að varan sé raunveruleg - sé raunveruleg. Svokallað „cold reading“, eða kaldur lestur, er aðferðin sem miðlar nota. Þeir beita almennum fullyrðingum sem geta átt við sem flest fólk og reyna að þrengja sig niður eftir viðbrögðum viðskiptavinarins.
Trúarbrögð eru önnur vara, sem vísindin hafa ítrekað sýnt fram á að eru á villigötum þegar kemur að sannleiksgildi, þótt það hafi sýnt sig að siðferðisboðskapurinn og lyfleysuáhrifin hafi praktískt gildi fyrir velferð fólks. Starfsmenn sem boða skipuleg trúarbrögð, til dæmis prestar, eiga það hins vegar sammerkt með miðlum að selja líka vöru sem er mikil eftirspurn eftir, án þess að nokkuð bendi til að sé nokkuð framboð á. Þar má nefna algóða, alvitra verndandi veru, framhaldslíf og fleira.
Störf miðla og presta eru því í eðli sínu ekki svo ólík, þótt miðlar gangi lengra í sölu á falskri þjónustu og hafi ekki fram að færa siðferðislega hugmyndafræði, ólíkt prestum. Auðvitað geta bæði prestar og miðlar framkallað vellíðan hjá fólki, en samkvæmt þekkingu okkar hefur orsök vellíðunarinnar ekki sannleiksgildi.
Í gær tók fulltrúi skipulagðra trúarbragða, þjóðkirkjupresturinn Jóna Hrönn Bolladóttir, stöðu við hlið miðils. Þetta gerðist eftir að Frosti Logason, sem stýrir útvarpsþættinum Harmageddon og er nú hluti af Íslandi í dag á Stöð 2, sótti skyggnilýsingarkvöld hjá Önnu Birtu Lionaraki miðli í Tjarnarbíói. Frosti gagnrýndi hana í kjölfarið fyrir að selja falska vöru, sem er vísindalega rétt gagnrýni. Auk þess sem hún virðist hafa beitt sér gegn Frosta á miðilsfundinum án þess að hann hafi kallað það yfir sig með öðru en þögulli, vantrúaðri nærveru sinni. Viðbrögð séra Jónu Hrannar við því að Frosti sagði sannleikann var að safna liði til að grafa undan starfsöryggi Frosta og félaga hans, Þorkels Mána Péturssonar.
„Ég hvet fólk til að hætta að versla við Stöð 2 meðan þeir gaukar tveir stýra umræðunni.“
Flestir vilja lifa að eilífu. Flestir vilja endurheimta sambandið við einhvern sem er dáinn. Sumir eru tilbúnir að reyna að græða á því. Fólk á rétt á því að sækja huggun sína í slíka þjónustu. Við getum öll ákveðið að spila með, eða trúa því sem ekki er hægt að sanna eða afsanna, en þeir sem gera það ekki eiga ekki að þola liðssöfnun gegn sér og tilraunir til útskúfunar og þöggunar.
Þegar prestur reynir að grafa undan atvinnu þess sem leyfir sér að koma fram með afstöðu sem byggir á viðurkenndum sannindum er aftur komin ástæða til að efast um trú sína á eitthvað. Í því tilfelli það sem viðkomandi hefur fram að færa siðferðislega, sem var einmitt sá partur trúarinnar sem átti að standa af sér alla vísindalega framþróun.
Uppfært: Séra Jóna Hrönn hefur nú beðist afsökunar á orðum sínum.
Athugasemdir