„Það var rosalega gott veður í gær og gaman að vera úti og fylgjast með hvað var að gerast,“ sagði Gunnlaugur Sigmundsson í samtali við DV um stóru mótmælin sem voru á Austurvelli síðastliðinn mánudag. „Það væri alveg galið ef fólk væri að mótmæla ástandinu í þjóðfélaginu núna.“
Hann gerist síðan heimspekilegur í fasi og spyr um skilgreininguna á „almenning“, og kemst sjálfur að þeirri niðurstöðu að mótmælendur séu ekki alþýða þessa lands.
Samkvæmt talningarmönnum sem stóðu á hornum Austurvallar mættu 22.000 til þess að mótmæla störfum ríkisstjórnarinnar – en þó aðallega óheilindum Sigmundar Davíðs. Það er tæplega sjö prósent af öllum Íslendingum. Hægt er að bera þetta hlutfall saman við stærstu mannamót í sögu annarra þjóða.
Óheilindi forsætisráðherra vöktu heimsathygli og brandarinn var á kostnað þjóðarinnar. Staðan breyttist þó eftir mótmælin og afsögnina. Íslendingar geta nú borið höfuðið hátt og verið stoltir. Þeir láta ekki bjóða sér hvað sem er.
„Sigmundur Davíð virðist einungis hafa hætt að nafninu til; hann hefur enn mikil völd í skjóli flokksformennskunnar.“
Og ekki verður annað sagt en að þjóðin hafi verið vel inni í málinu. Félagsvísindastofnun gerði könnun sem leiddi í ljós að 83 prósent landsmanna höfðu séð umfjöllun Kastljóss um aflandsfélög að hluta til eða í heild. Þeir sem mættu á mótmælin vissu því alveg hvað sneri upp og hvað niður.
Ríkisstjórnin telur sig hafa brugðist við kröfu mótmælanna með því að skipta Sigmundi Davíð út. En er það rétt?
Sigmundur Davíð virðist einungis hafa hætt að nafninu til; hann hefur enn mikil völd í skjóli flokksformennskunnar. Það sést best á því að hann valdi sjálfur eftirmann sinn í embætti og einnig þann ráðherra sem kemur nýr inn, hvor um sig mikill trúnaðarvinur Sigmundar Davíðs.
Framsóknarmenn virðast einnig standa með foringja sínum og enginn þeirra hefur enn lýst því yfir opinberlega að hann hafi gert neitt rangt í Tortóla-málinu. Það er óásættanlegt. Sjálfur sýnir Sigmundur Davíð enga auðmýkt og tönnlast á atriðum sem engu skipta í stóru myndinni; skattamálum sínum og óveraldlegri fórnfýsi þeirra hjóna.
Þessi staða er langt frá því að vera fullnægjandi svar við kröfu fjöldans um að Sigmundur Davíð víki. Og sama gildir um loforð Bjarna Benediktssonar um að kosningum yrði flýtt. Það loforð er einskis virði án nákvæmrar dagsetningar. Hann hefur nefnilega áður brugðist í svipuðu máli.
Athugasemdir