Fyrsta minningin mín frá Reykjavík er frá því þegar við mamma fluttum frá Stykkishólmi í bæinn og ég byrjaði á leikskóla á Vesturborg. Árið var 1988 og ég var 4 ára. Skólasystkini mín þarna voru til dæmis Hrafn Jónsson, nú landsfrægur pistlahöfundur, svo var þarna stelpa sem vantaði í báðar framtennurnar og ég man mjög vel eftir því að hafa verið skotinn í en hún átti, 12 árum síðar, eftir að verða fyrsta kærastan mín í menntaskóla.
Svo bjó ég í Mosó í um 20 ár. Reykjavík var lengst af munaður ef mamma átti erindi í bæinn eða eftir að ég komst á aldur til að taka strætó í Nexus, rölta á Devitos og svo strætó heim. Árið 2000 byrja ég í MR. Áður en ég fékk bílprófið tók ég strætó. Við þurftum að stoppa í Ártúni og skipta úr tuttuguogfimmunni yfir í fimmtán eða eitthvað. Þegar þú skröltir í gegnum allan Mosfellsbæinn og svo úr Ártúni niður í bæ, dag eftir dag, færðu virkilega sterkt á tilfinninguna hversu fáránlega dreift höfuðborgarsvæðið er, og hversu skrítið það er að sækja alla þjónustu og menningu niður á þetta útnes sem Reykjavík er.
Ég man eftir því hvað borgin var róleg flesta morgna. Þegar við skrópuðum og fórum á kaffihús var enginn þar. Pöntuðum pressukaffi á Mokka og púuðum sígarettur (inni!) Ef mánuðurinn var nýlegur splæsti maður í ristaða samloku með skinku, osti og aspas. Laugavegurinn. Lækjargatan. Skólavörðustígurinn. Ég þekkti þarna hverja skökku hellu og veggjakrot.
Samhliða menntaskólanum kom djammið, skemmtistaðirnir, aukið hangs í kjöllurum og skúmaskotum. Smám saman verður til tengslanet. Félagslegt nærumhverfi. Ég fór sjaldnast um miðbæinn án þess að stoppa og spjalla við nokkrar manneskjur sem ég þekkti. Svona hefur þetta verið síðan þá. Síðustu 17 ár.
Ófræg á ferð
Fyrir stuttu fór ég í hjólaferð með dóttur mína um miðbæinn. Við þurftum að fara í Brynju til að kaupa króka og girni til þess að hengja myndir upp á vegg í íbúðinni okkar á Vetrargörðum, þannig við fórum upp og niður allan Laugaveginn. Alla leiðina var Laugavegurinn algjörlega stappaður af fólki, en ég þekkti ekki eina einustu manneskju. Eina fólkið sem ég kannaðist við voru starfsmenn Brynju, sem eru alltaf sömu djöfulsins öðlingarnir og ekkert nema almennilegheitin.
Eftir að hafa keypt króka og girni hjóluðum við niður að Tjörn og gáfum öndunum brauð. Þar var ekki mikið af fólki, nokkur ferðamannapör að taka myndir af hvort öðru og fuglunum. Við lögðum hjólinu og ég lét Úu (2 ára) fá brauð til þess að henda í kjamsandi goggana. Smám saman, eftir því sem brauðmolarnir tíndust ofan í fuglana, tíndust tugir ferðamanna í kringum okkur. Alls held ég að tæplega 100 manns hafi verið við Tjörnina hjá Iðnó, en samt vorum við einu einstaklingarnir með brauð. Þau voru með myndavélarnar á lofti að taka myndir af einstökum íslenskum viðburði; feðgin á hjóli að gefa öndunum brauð.
Mér leið eins og við værum hluti af fræga fólkinu og í smástund fann ég til með þeim einstaklingum sem eru svo hundeltir af ljósmyndurum að þeir brotna og gefa þeim á kjaftinn. Dóttir mín var algjörlega tekin úr þeirri upplifun að gefa öndunum brauð með pabba sínum. Hún stóð agndofa með harðnaða brauðsneiðina í hendinni og horfði bara á þessa hjörð af fólki sem var að ljósmynda okkur og ljósmynda hvort annað, ljósmynda okkur og ljósmynda fuglana.
Við vorum ekki einu sinni hálfnuð með brauðhleifinn þegar ég gafst upp, pakkaði henni niður í hjólið og fór í burtu. Við hjóluðum fjórðungshring utan um Tjörnina, að Tjarnargötu, þar sem færri ferðamenn eru á ferli. Við kláruðum að fóðra fuglana þar, í friði frá ágengum linsum. Ég hitti heldur engan sem ég þekkti á þessari ferð. Við vinkuðum samt Tómasi Guðmundssyni á leiðinni heim, bara til þess að hafa vinkað einhverjum.
Reh-cha-vick
Það gerðist eitthvað fyrir borgina okkar. Krúttlegu bárujárnshúsin eru ekki lengur full af alls konar fólki, fjölskyldum, dópistum, námsmönnum. Þau eru bara full af ferðafólki. Hjartagarðurinn, Laugavegurinn, Tjörnin, Lækjargata. Það hefur einhver filter lagst yfir þessa staði og hann tók út það sem var þar áður. Einni reyksprengju var kastað og Reykjavík er ekki lengur Reykjavík heldur Reh-cha-vick.
Hægfara ferðamenn stífla gangstéttir þegar þeir silast á milli lundabúða og láta gullgrafandi okrara ræna sig löglega. Einstefnugöturnar eru stíflaðar af rútum í eigu fjölskyldu Bjarna Ben og ég sver það að þeir ráða bara siðblinda einstaklinga til þess að keyra þær. Þú getur staðið hvar sem er í borginni, lokað augunum, snúið þér í hring, stoppað og bent beint fyrir framan þig og sagt „Núna er þetta hótel“ og það mun mjög líklega vera rétt hjá þér. Í grænni lautu þar geymi ég hringinn sem mér var gefinn og hvar er hann nú?
Hvar er Nasa? Hvar er Sirkus? Hvar er Hjartagarðurinn? Hvar er allt fólkið? Ég þekki engan sem getur búið hérna lengur. Ég þekki einhverja sem sækja vinnu í borgina, en mjög fáa sem fara til Reykjavíkur til þess að hafa það kósí. Myndir þú fara í Disneyland til þess að hafa það kósí? Disneyvík. Borgin sem breyttist í lundabúð og hótel. Íbúum skipt út fyrir túrista og þjófa. Þorpið sem varð að sjálfsala.
Reykjavíkin sem þessir útlendingar komu að heimsækja er ekki til lengur. Okkur mistókst að bjóða þessu fólki í heimsókn án þess að rústa því sem þau vildu sjá. Sérvitru listamennirnir eru horfnir af því þeir hafa ekki efni á að búa hérna. Hálf-niðurnítt borgarskipulagið sem rissað var upp með rasshöndinni, en hafði þó einhvern smávægilegan sjarma, hefur vikið fyrir byggingarkrönum sem magna hótel upp úr húsgrunnum og lóðum þar sem sál borgarinnar átti einu sinni aðsetur.
Út - út - útnes
Og nú eru allir á leiðinni út. Í úthverfin, út á land, til útlanda. Ég er með þessum neikvæða pistli þó ekki að fullyrða að þessi þróun sé slæm. Reykjavík hafði á tímabili eitthvað einstakt væb sem gaf af sér alls konar skemmtilega list, geggjaða tónleika og góðar bækur. Kannski kemur eitthvað annað út úr þessu. Að minnsta kosti er flest fólkið sem tók þátt í þessari sköpun annaðhvort búið að yfirgefa borgina eða farið að vinna á auglýsingastofum. Kannski verður Ísafjörður næsta Reykjavík, þar sem fátækir listamenn geta búið í ódýru leiguhúsnæði og skapað afþreyingu fyrir yfirstéttina.
Það er að minnsta kosti full ástæða til að viðurkenna hamskiptin sem hafa átt sér stað. Þegar búið er að skipta um hausinn og skeptið ertu þá enn með sama hamarinn? Þegar íbúarnir eru farnir, er borgin þá enn borg? Er þetta minningargrein?
Sálusorg fyrir borg sem var kannski aldrei mjög merkileg, en hún var samt sú eina sem við áttum. Reykjavík er Chernobyl. Í staðinn fyrir sprengingu í kjarnaofni númer 4 þá varð hrun. Í staðinn fyrir geislavirkni kom Sölvi Blöndal. Fuglarnir fljúga enn yfir rústunum. Grasið sprettur. Byggingakranarnir vagga sér. Eitthvað er breytt.
Í Landnámu sagði Karli, þræll Ingólfs Arnarsonar, um staðinn sem Reykjavík átti eftir að rísa á: „Til ills forum vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.“ Núna höfum við bæði tækifæri og ástæðu til að fara í góð héruð. Kannski förum við aftur á útnesið þegar túristarnir eru farnir. En það verður önnur borg á sama stað.
Athugasemdir