Þann þrítugasta nóvember hefst loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í París. Markmið hennar er að fá ríki heims til að skuldbinda sig til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda svo hlýnun jarðar verði innan við 2°C að meðaltali miðað við fyrir tíma iðnbyltingar. Hið svokallaða tveggja gráðu mark er vissulega umdeilt, enda ljóst að áhrifa loftslagsbreytinga gætir þegar við 1°C hlýnun og sum eyríki munu hreinlega hverfa ef við förum yfir 1,5°C.
Nú þegar hafa 150 lönd – sem saman eru ábyrg fyrir rétt tæplega 90% af allri losun gróðurhúsalofttegunda – lagt fram markmið sín um samdrátt. Hinn samanlagði lofaði samdráttur nægir þó ekki til að halda hlýnunni undir 2°, heldur yrði hlýnunin 2,7° ef staðið er við gefin fyrirheit. Það er þó vissulega miklu betra en þær 3,6° sem áður stefndi í fyrir ráðstefnuna, en nægir ekki til að koma í veg fyrir hörmungar. Heimurinn virðist þó vera að átta sig á þeirri raunverulegu ógn sem okkur stafar af loftslagsbreytingum. Og þó Parísarráðstefnan ein og sér leysi ekki loftslagsvandann, þá er hún samt stórt skref í rétta átt og hún hefur gefið mörgum, sem héldu að þessi barátta væri þegar töpuð, aftur von um að kannski sé ekki öll nótt úti.
Loftslagsbreytingar eru stóra málefni 21. aldarinnar. Þær eru þegar hafnar og þær munu móta líf okkar allra. Þær eru samtímis stærsta ógnin og flóknasta áskorunin sem við okkur blasir. Margir benda á að þær feli í sér tækifæri til að breyta lífsháttum okkar til hins betra; hætta að ganga óhóflega á auðlindir, draga úr óþarfa neyslu og auka um leið jöfnuð. Það má því færa rök fyrir því að Parísarfundurinn sé einn mikilvægasti fundur í sögu mannkyns. Það má allavega slá því föstu að það sem þar verður ákveðið muni hafa djúpstæðari áhrif á framtíð okkar en ég held að flestir átti sig á.
„Ég vil fá að vita hvað ríkisstjórnin, sem fer til Parísar fyrir mína hönd, ætlar að gera.“
Þrátt fyrir það hefur gengið illa að fá ríkisstjórn Íslands til þess að gefa neitt upp um þau markmið sem hún hyggst leggja fram á fundinum. Reyndar hefur Ísland sótt um og fengið að vera með í sameiginlegu markmiði ESB um 40% samdrátt á losun gróðurhúsalofttegunda, en hefur ekki gefið út neina tölu sjálft. Stjórnvöld hyggjast bara taka á sig „fair share“ af þessum 40% samdrætti, hvað sem það annars þýðir. Ráðamenn hafa svo verið tvísaga um markmið Íslands og það virðist skipta máli hvort þeir eru að tala við Íslendinga eða útlendinga.
Mér finnst það ótækt. Ég vil fá að vita hvað ríkisstjórnin, sem fer til Parísar fyrir mína hönd, ætlar að gera. Ráðamenn eiga að tala skýrt og leggja spilin á borðið, í staðinn fyrir að haga seglum eftir vindi og laga málflutninginn að því hvað þeir halda að líti best út fyrir þá hverju sinni. Auðvitað á Ísland að lofa að minnsta kosti 40% samdrætti. Við eigum líka að stefna að kolefnishlutleysi ekki síðar en árið 2050. Það yrði ekkert stórmál, aðstæður hér eru með besta móti og fyrst önnur lönd geta það þá getum við það líka. Mjög hæglega.
Svo vil ég líka sjá áætlanir um það hvernig á að draga úr losuninni. Ætlar ríkisstjórnin til dæmis að hætta við frekari plön um mengandi stóriðju? Á að gera eitthvað í því að draga úr mengun frá samgöngum á landi, til dæmis með því að rafvæða bílaflotann og bæta almenningssamgöngur? Og ætlar ríkisstjórnin enn að þrjóskast við þá augljósu tímaskekkju að leita að og bora eftir olíu á Drekasvæðinu?
Það er nákvæmlega engin ástæða til þess að halda spilunum þétt að sér. Það eru bara tvær vikur í Parísarfundinn og þetta er ekki póker. Jafnvel þó það sé mikið lagt undir og jafnvel framtíðin sjálf að veði.
Athugasemdir