Ég á fáeina hluti eftir ömmu mína sem nú er hætt að vera til. Eina stofuklukku sem sló svo svakalega að hún hélt vöku fyrir öllum Hagamelnum (og kettirnir voru orðnir að óþekkjanlegum taugahrúgum) þannig að ég gerði mér lítið fyrir og fjarlægði hljóðið úr henni. Nú stendur hún þögul og tekst á við tímann, prúð og fremur frjálsleg í fasi.
Klukkan minnir mig á það sem amma sagði mér einvern tíma. „Lífið líður hjá eins og örskotsstund, Þórunn Hrefna, örskotsstund. Þegar ég lít í spegil er ég alltaf jafn standandi bit á því að sjá þar áttræða konu, ekki tólf ára gamla stúlku.“
Í fjölmiðlun samtímans er tíminn klikkað fyrirbæri.
„Kannski er einhver sökudólgur sem flestir tryllast út í, en eftir nokkra klukkutíma eru flestir farnir að áfellast hina fyrir að tryllast.“
Sko. Þetta gerist svona: Á einhvern netmiðilinn eða í Kastljósið ratar frétt eða viðtal sem allir tryllast yfir á samfélagsmiðlum. Allir hafa skoðun. Allir vilja tjá hana. Margir fara að froðufella og aðrir áfellast hina fyrir að froðufella. Kannski er einhver sökudólgur sem flestir tryllast út í, en eftir nokkra klukkutíma eru flestir farnir að áfellast hina fyrir að tryllast, þeir taka upp hanskann fyrir sökudólginn og segja: „Aðgát skal höfð í nærveru sálar“. Oftast gengur tryllingurinn yfir á einum degi (það þarf Breiðavík eða Karl Vigni til þess að hann endist lengur), menn slaka á í nokkrar klukkustundir og svo tekur næsti tryllingur við.
Talað var um „hysteríu“ í aðdraganda sólmyrkvans um daginn og Sólmyrkva-Sævar fékk gusuna yfir sig frá starfsfólki leikskóla. Það þótti mér ansi fyndið. Samkvæmt einhverjum erkibiskupi ætluðu nunnur að „éta Frans páfa lifandi“, en páfinn fékk svo pítsu og jafnaði sig. Það fannst mér líka fyndið. Ungar konur beruðu á sér brjóstin einn dag og þann dag talaði enginn um annað. Daginn eftir hlustaði ég á viðtal við stúlku sem greindi ítarlega frá því hversu mikil áhrif dreifing brjóstamyndar af henni hefði haft á líf hennar, en hún bar sig vel og sagðist styrkjast við þessa raun. Já. Daginn eftir. Ég er fegin að hafa tekið hljóðið úr stofuklukkunni.
Sennilega hefur slögunum fjölgað svo mjög að hvorki ég né kettirnir myndum þola það.
Athugasemdir