Samkvæmt áramótaávarpi forsætisráðherra Íslands, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, er það tvennt sem helst ógnar íslensku þjóðinni; kæruleysi og neikvæðni. Ég get ekki sagt að ég sé sammála honum (ég held okkur stafi til dæmis mun meiri ógn af frjálshyggju, fasisma, rasisma, spillingu og svo auðvitað loftslagsbreytingum og súrnun sjávar (það má reyndar færa rök fyrir því að ofangreint grasseri einmitt í kæruleysi þeirra sem eiga að vita betur og taka í taumana (sumir myndu jafnvel benda á að það ætti ríkisstjórnin sjálf að gera), en ég held það sé óhófleg bjartsýni að túlka orð Sigmundar á þann veg, enda minntist hann aldrei á ofangreindar ógnir í ræðunni)) en mér finnst þetta merkilegt hættumat hjá honum. Því kæruleysi og neikvæðni eru bæði mjög huglæg hugtök og það er hægt að lesa næstum hvað sem er í þessi orð.
Því það sem einum finnst vera uppbyggileg og réttmæt gagnrýni getur öðrum fundist eintóm neikvæðni. Og að sama skapi getur einhver upplifað ákvörðun annars sem glæfralegt kæruleysi, þótt ákvörðunin hafi verið vegin og metin og tekin að vandlega athuguðu máli.
Og ég held að bæði sé nauðsynlegt. Sum okkar eiga jafnvel kæruleysinu lífið sjálft að launa. Það má ímynda sér að þannig verði jafnvel þjóðarleiðtogar til; í ástríðu og augnablikskæruleysi. Neikvæðni hefur sína kosti líka. Vorið 2014 vorum ég og vinkona mín meira að segja búnar að leggja drög að heilli útvarpsþáttaröð á Rás eitt um hina fjölmörgu kosti neikvæðni. Við fengum að gera klukkutímalangan prufuþátt sem við enduðum á því að flytja sjálfar frumsamið lag við frumort kvæði, en dagskrárstjóranum fannst þátturinn ekki nógu vel heppnaður, eða kannski fannst honum lagið ekki gott (sem við skrifum augljóslega á eintóma neikvæðni í honum og/eða ófágað tóneyra), svo hann afþakkaði frekara samstarf.*
Jákvæðnikrafan er nefnilega skoðanakúgun. Hún er tilraun til þöggunar. Og hún er hættuleg.
En það sem truflar mig mest við þessar meintu þjóðarógnir sem forsætisráðherra hræðist er að ég þykist finna fnykinn af jákvæðnifasismanum sem hefur tröllriðið samfélaginu undanfarin ár, eða jafnvel áratugina. Jákvæðni getur auðvitað verið mjög gagnleg og ég brúka hana við ýmis tækifæri. En þegar aðrir telja sig eiga heimtingu á henni frá mér, þá er það allt annað og mun verra mál. Þegar það er komin skýlaus krafa um jákvæðni, þá erum við komin út á hálan ís.
Dæmi: Ég heimsótti grunnskóla um daginn og rak þar augun í skilti inni á skrifstofunni þar sem stóð einhver útfærsla á útjöskuðu möntrunni: „Ef þú hefur ekkert jákvætt að segja er betra að segja ekki neitt“. Og ég velti fyrir mér: Hvað á nemandi sem verður fyrir einelti að gera? Á hann að þegja yfir því? Eða nemandi sem vill kvarta yfir framkomu eða áreitni kennara? Og hvað ef einhver hefur einfaldlega tekið eftir einhverju sem betur mætti fara í skólastarfinu? Á hann að sleppa því að tala um klúðrið af því það er ekki jákvætt og þá er betra að segja ekki neitt?
Jákvæðnikrafan er nefnilega skoðanakúgun. Hún er tilraun til þöggunar. Og hún er hættuleg. Svo þurfum við líka alltaf að hafa varann á þegar ríkjandi valdhafar, sem eiga allt sitt undir því að óbreytt ástand haldist, reyna að gera lítið úr gagnrýnisröddum og girða fyrir umræður um mögulegt eða ómögulegt klúður sem gerist á þeirra vakt.
*Ef þið viljið fræðast um frekari kosti neikvæðni þá hvet ég ykkur til þess að senda dagskrárstjóra Rásar eitt póst og biðja hann vinsamlegast um að endurskoða ákvörðunina sem hann tók, því handritið að þáttunum liggur bara enn hérna inni á harða diskinum á tölvunni minni og bíður eftir því að njóta sannmælis.
Athugasemdir