Kæra Kristín og aðrir hjá Útlendingastofnun
Nú hefur tveimur barnafjölskyldum á flótta verið vísað úr landi.
Flestum íbúum þessa fámenna, fábrotna lands er fyrirmunað að skilja hvernig Útlendingastofnun getur komist að þeirri niðurstöðu að senda þessar tvær barnafjölskyldur úr landi.
Landsmenn hafa fylgst með atburðunum í Sýrlandi, á sjóleiðinni þaðan til Grikklands og í Balkanlöndunum með tárin í augunum í allt sumar og haust.
Það er mikill vilji hjá þjóðinni að taka á móti innflytjendum sem að flýja erfiðar aðstæður, allavega þeim hluta hennar sem skilur að við erum öll í raun ein og sama fjölskyldan, og að okkur ber að líta á það sem sameinar okkur en ekki það sem aðskilur okkur, til þess að sem flestum vegni sem best.
Ég bjó sjálf í evrópsku landi, var þar innflytjandi í 6 ár og þar fékk ég forgang í kerfinu sökum norður-evrópsks uppruna míns, fólkið sem leitaði sömu aðstoðar en kom sunnar eða austar að, þurfti ævinlega að fara í aðra, öllu lengri, og langtum seinvirkari röð en ég. Og jafnvel þrátt fyrir þetta misrétti mér í hag, rak ég mig á allskyns kerfisgloppur og meinlokur, endalaus tilfelli af 'computer says no' og mér leið oft eins og viljandi væri verið að bregða fyrir mig fæti. Þá varð mér hugsað heim til Íslands, og hversu gott væri að vera þar. Að þar, sökum smæðar samfélagsins, væri embættismönnum fært að líta framhjá tölum og svarthvítum reglugerðum, að þar væru embættismenn færir um að sjá einstaklinginn á bakvið. Því öll kerfi eru mannanna verk, og eins og öll önnur mannanna verk eru þau ófullkomin.
En þessi tilfelli þessarra tveggja barnafjölskyldna sýna glöggt að við erum síst skárri.
Hvernig má það vera að þið ætlið að senda úr landi sýrlenska fjölskyldu með tvö lítil börn sem er af sjálfsdáðum búin að koma sér alla leiðina hingað, og vill vera hér! Því það er ekki sjálfgefið.
Á svo í staðinn að bjóða fólki af handahófi að koma hingað frá Sýrlandi? Hvernig er hægt að réttlæta það? Afhverju geta þau ekki fengið að vera hér áfram þrátt fyrir að hafa skrifað undir eitthvað plagg um hælisvist í landi sem er ekki aðeins gjaldþrota og á langt í land með að standa undir sjálfu sér, heldur einnig aðframkomið af byrðinni af þeim gífurlega fjölda flóttamanna sem þangað er kominn.
Þið getið veitt dvalar- og atvinnuleyfi af mannúðarástæðum. Er einhver kvóti á því? Eruð þið að spara þau leyfi?
Hvernig getið þið komist að þessari niðurstöðu ... eruð þið með brynvarið hjarta? Þið getið veitt dvalar- og atvinnuleyfi af mannúðarástæðum. Er einhver kvóti á því? Eruð þið að spara þau leyfi?
Af hverju? Fyrir hvern?
Og hvaða tilgangi þjónar það að senda albönsku fjölskylduna úr landi?
Vitnisburður þeirra er metinn trúverðugur. Og hann sýnir glöggt að þau eiga sér enga framtíð í Albaníu. Þau eru bara að leita að tækifæri til þess að börnin þeirra geti átt sér einhverja framtíð. Og þau eru virkilega velkomin.
Þeim hefur verið sýnd mikil samstaða, boðin velkomin í hverfið, börnunum var tekið opnum örmum um leið og þau komust í skóla og eru strax búin að eignast vini. Þau vilja vera hér, taka þátt í samfélaginu, eiga sér líf hér. Hvað gengur ykkur til að senda þau út á gaddinn?
Þið eruð á hraðleið með að verða verst liðna fólkið á landinu, hvað er hægt að gera fyrir ykkur til þess að þið náið að tengja við samkenndina sem hlýtur þó að búa einhvers staðar innra með ykkur?
Lífið er ekki svarthvítt.
Það er skömm að því hvernig farið er með þessar fjölskyldur.
Athugasemdir