Ólafur Ragnar Grímsson – biddu aðstandendur 298 fórnarlamba MH-17 afsökunar!
Ef þú heldur að forsetinn eigi að virða minnungu þeirra 298 saklausu einstaklinga, þar með talið ungabarna, sem voru myrtir fyrir ári síðan, vinsamlega lestu að minnsta kosti neðsta partinn hér og sendu forsetanum síðan skilaboð þessa efnis.
Þann 17. júlí 2014, rétt um kl 13:20 að íslenskum staðartíma voru 298 saklausir einstaklingar myrtir um borð Malasísku farþegaflugvélarinnar MH-17 þegar henni var að grandað yfir Austur-Úkraníu. Þar af voru 38 samlandar mínir frá Ástralíu, yfir 40 Malasíubúar og nærri 200 Hollendingar en ég átti líka heima í Hollandi í 2 ár. Eins og svo margir Ástralir hef ég sjálfur flogið þessa leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur og síðan áfram til Ástralíu. Öll heimsbyggðin var slegin yfir þessu voðaverki en þó sér í lagi Hollendingar, Malasíubúar og Ástralir. Og þó að fyrir flestum sé það nokkuð augljóst að aðskilnaðarsinnar í Austur-Úkraníu beri líklega ábyrgð á þessu voðaverki þá gátu meira að segja ekki þeir sem voru að malda í móinn gegn því borið á móti því að MH-17 hefði verið grandað af mannavöldum. Viku seinna, þann 21. júlí, samþykkti Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna (sjá athugasemd 1) samhljóða, já meir að segja allir fastafulltrúarnir frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Kína, Rússlandi og Frakklandi, ályktun númer 2166 þar sem „Öryggisráð Sameinuðu Þjóðana harmar það að farþegaflugi...MH-17 hafi verið grandað“ (e. The Security council, deplores the downing of a civilian aircraft....MH-17...).
Þannig að þann 21 júlí var eitt sem ALLIR þjóðarleiðtogar heimsins gátu sammælt sig um – þ.e. að MH-17 hafi verið grandað og að þetta hafi því ekki verið „slys“...þ.e. allir NEMA Herra Ólafur Ragnar Grímsson!
Þann 22 júlí birti vefur Forseta Íslands (sjá tengil í athugasemd no 2) frétt þar sem hann segir frá fundi við Sendiherra Rússa þar sem Forsetinn „var fjallað um viðbrögð við hinu hræðilega flugslysi í Úkraníu“.
„Var fjallað um viðbrögð við hinu hræðilega flugslysi í Úkraníu“
Flugslys!! Vélinni var grandað! Það er ekkert slysalegt við það!
Ég skrifaði forsetanum skömmu síðar og bað hann um að biðjast afsökunar á þessum ummælum og leiðrétta þau þar sem þau væru augljóslega mjög særandi fyrir aðstandendur fórnarlamba MH-17 (til dæmis áströlsku hjónanna sem misstu öll sín börn sem voru með afa sínum um borð – sjá athugasemd 3). En svörin sem ég fékk, í gegnum forsetaritara, voru vægast sagt undarleg. Ekki var hægt að skilja þau öðruvísi en að forseti Íslands væri óskeikull (rétt eins og páfinn) og því væri það ekki við hæfi fyrir forsetann að biðja afsökunar eða leiðrétta ummæli! Orðrétt sagði bréfið „Varðandi heimasíðu embættisins þá tilgreinir hún áherslur og efnisatriði funda og atburða á þeim tíma sem þeir fara fram og er ekki endurskoðuð eftir á í ljósi nýrrar vitneskju.“
Þvílíkt og annað eins óforskammað rugl! Hvað er svona erfitt fyrir forsetann að leiðrétta og afsaka sig? Ekkert nema að hann kann kannski ekki að skammast sín? Skiptir minning 298 einstaklinga sem voru myrtir engu máli?
Og nú ætla ég að hvetja ykkur öll, á þessu sorgarafmæli MH-17, að skrifa til forsetans á forseti@forseti.is bréf til að mótmæla þessum ummælum hans. Svoleiðis bréf gæti til dæmis verið einhvern veginn á þessa leið (munið að setja nafnið ykkar undir):
--
Herra Ólafur Ragnar Grímsson
Forseti Íslands
Ég krefst þess hér með að:
1. Þú biðjist afsökunar á ónærgætnum ummælum þínum þann 22. júlí 2014 um MH-17 voðaverkið.
2. Þú gefir út fréttatilkynningu til að leiðrétta ummæli þín á vefsíðu sinni þann 22. júlí 2014 og taki þar af allan vafa að þú sért sammála Ályktun 2166 frá Öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna um að MH-17 hafi verið grandað af mannavöldum.
Virðingarfyllst.
--
Ef þú ert sammála þessu, vinsamlega sendu forsetanum ofangreind skilaboð. Kannski yrði það til þess að hann hætti að skera sig úr þeim hópi (nánast?) allra annarra ráðamanna í heiminum sem viðurkenna að MH-17 var ekki slys heldur að þessari flugvél hafi verið grandað.
Páll Þórðarson
Bowral, Ástralíu
Athugasemdir