Þann 7. september síðastliðinn samþykktu stjórnvöld í Rússlandi að setja tíu ára bann á útgáfu nýrra leyfa til olíu- og gasvinnslu í Norður-Íshafi. Það gerðu þau eftir að samtökin World Wildlife Fund söfnuðu 80 þúsund undirskriftum sem hvöttu til aðgerðarinnar. Undirskriftirnar hafa þó ábyggilega ekki verið eina ástæðan, því það er sífellt að koma betur í ljós að olíuvinnsla í Norður-Íshafi borgar sig tæpast. Olíurisinn Shell tilkynnti til dæmis fyrir ári að fyrirtækið væri hætt við öll verkefni sín í Norður-Íshafi, þrátt fyrir að hafa eytt sjö milljörðum Bandaríkjadala í undirbúning.
Veðjað á að Parísarsamningurinn haldi ekki
En það eru auðvitað fleiri rök fyrir því að leita ekki að olíu á Norðurslóðum. Alls 195 ríki sömdu um það á Parísarráðstefnunni í fyrra að takmarka hlýnun jarðar við 2 °C og stefna að 1,5 °C. Til að tveggja gráðu markið náist þurfa 2/3 af þekktum olíulindum að liggja óhreyfðar í jörðu. Með því að leita að nýjum olíulindum eru þessi sömu ríki því bakvið tjöldin að veðja á að Parísarsamningurinn, sem þau eru aðilar að, haldi ekki.
Hvar liggur ábyrgðin?
Svo er það hættan á olíuleka frá borholu. Í sérleyfunum til olíuleitar og -vinnslu á Drekasvæðinu stendur: „Í samræmi við 28. gr. kolvetnislaga er leyfishafi skaðabótaskyldur fyrir hvers konar tjóni sem stafar af kolvetnisstarfsemi, þar á meðal umhverfisspjöllum, án tillits til þess hvort tjónið verður rakið til sakar. [...] Orkustofnun og íslenska ríkið skal vera skaðlaust (m.a. af kostnaði vegna málaferla) af öllum bótaskyldum atburðum gagnvart þriðja aðila sem tengjast leyfishafa vegna starfsemi hans.“ Sumsé, ef eitthvað gerist þá eiga sérleyfishafar að borga allan skaðann, og íslenska ríkið að vera stikkfrí. Hljómar vel, ekki satt?
Kostnaðurinn við olíusly
Á pappír, jú, en málin eru flóknari en svo. Til að setja hlutina í samhengi þá er talið að kostnaðurinn við Deepwater Horizon-lekaslysið sem varð í Mexíkóflóa árið 2010 hafi verið rúmlega 61 milljarður Bandaríkjadala. Það eru um 7.000 milljarðar íslenskra króna. Það var í raun lán í óláni fyrir Bandaríkjastjórn að það var olíurisinn BP sem átti borpallinn, því BP er eitt af fáum fyrirtækjum í heiminum sem getur borgað viðlíka reikning. Bandaríkjastjórn þurfti því ekki að bíða eftir neinu, hún gat einfaldlega prentað meiri peninga og hafið hreinsunarstörf. Ef þetta hefði verið eitthvað minna olíufélag hefði það einfaldlega getað lýst sig gjaldþrota. Og hver hefði þá setið uppi með reikninginn? Bandaríkin.
„Telur íslenska ríkið sig hafa bolmagn til að borga fyrir hreinsunarstarf ef sérleyfishafar lýsa sig gjaldþrota? Eigum við 7.000 milljarða á lausu?
Málin flækjast enn
Að mér vitandi hefur engum tekist að reikna út hver kostnaðurinn við stóran olíuleka á Drekasvæðinu gæti orðið. Það er ýmislegt sem bendir til þess að leki þar geti orðið miklu dýrari en slysið í Mexíkóflóa. Allar aðstæður til hreinsunar eru verri, olía hegðar sér öðruvísi í köldu hafi og það er erfiðara að hreinsa hana, veðrið er verra og svo er einfaldlega svo dimmt stóran hluta ársins að það er nær ómögulegt að athafna sig. Það gleymist stundum í umræðunni að það má enn sjá merki um slysið í lífríki Mexíkóflóa, þrátt fyrir alla milljarðana sem fóru í hreinsunarstarf. Og lífríki á Norðurslóðum er jafnvel enn viðkvæmara fyrir olíu. Nýlegar rannsóknir sýna til dæmis að það þarf bara lítið magn af olíu í hafi til að hafa verulega slæm áhrif á hrogn ýsu og þorsks, sem eru tegundir sem skipta gríðarlegu miklu máli fyrir efnhag Íslands. Og hvaða áhrif hefði olíuleki á ímynd Íslands? Hvaða áhrif hefði hann á ferðamannaiðnað? Á strandirnar og allt lífríki þar? Og síðast en ekki síst, telur íslenska ríkið sig hafa bolmagn til að borga fyrir hreinsunarstarf ef sérleyfishafar lýsa sig gjaldþrota? Eigum við 7.000 milljarða á lausu?
Endurnýjum þau ekki
Sérleyfin til rannsóknar- og vinnslu á Drekasvæðinu renna út árin 2023 og 2026. Okkur ber engin skylda til að endurnýja þau. Kannski þyrftum við að borga einhverjar skaðabætur ef við gerum það ekki. Kannski ekki. En ég held að þeim fjármunum yrði samt ágætlega varið. Það væri hægt að líta á sem svo að við værum að kaupa okkur tryggingu fyrir því að það verði ekki olíuleki í íslenskri lögsögu.
Athugasemdir