Við erum komin á þann stað að þurfa að velta fyrir okkur hver eru grundvallarréttindi okkar sem manneskja á jörðinni – réttinum til að sjá náttúruna. Og við vitum að þetta frelsi er ekki varið heldur fellt af talsmönnum frelsis einstaklingsins, því þeir vilja frekar verja frelsi fólks og fyrirtækja til að takmarka ferðafrelsi okkar og græða á því.
Hver landeigandinn á fætur öðrum takmarkar nú aðgengi Íslendinga að landinu sínu. Ástæðan sem þeir gefa upp er aukinn straumur erlendra ferðamanna, þetta sem átti að bæta hag okkar, en stefnir í að skerða lífsgæði á meðan það gerir lítinn hóp ríkan.
Við höfum reynt í mörg ár að fá fleiri erlenda ferðamenn, en fyrir hverja er aukin ferðamennska helst?
Aukin ferðamennska er mest í hag þeirra sem eiga ferðaþjónustufyrirtæki og hafa oft láglaunafólk að störfum við að þjóna, þrífa og matreiða, og svo þá sem hafa slegið eign sinni á náttúruperlur og rukka okkur fyrir að sjá þær.
Straumur ferðamanna eykur líka skatttekjur. En þeir sem stýra ríkinu virðast einbeittir í því að afsala sér ábyrgðinni á því að vernda og verðmætustu eignina okkar fyrir okkar hönd.
Breytingin sem er að verða er líka sú að við þurfum í vaxandi mæli að borga einhvers konar skynjunartoll fyrir að fá að sjá það fallegasta á landinu okkar, landið sem er þá ekki okkar, heldur landeigendanna.
Meiri ferðamennska fyrir hverja?
Auðvitað eru margar góðar afleiðingar af fjölgun ferðamanna, til dæmis meira framboð veitingastaða, meiri þjónusta, líflegra mannlíf, fleiri störf og svo framvegis.
Afleiðingar aukinnar ferðamennsku fyrir almennan Íslending felast að hluta í skertu aðgengi að náttúruperlum, ýmist vegna ágangs og mannfjölda eða gjaldtöku. Hækkandi verð á því sem er takmarkað framboð af. Til dæmis fasteignum á góðum stöðum, gistingu í skálum eða tjaldsvæðum á fágætum svæðum, og svo framvegis.
Það er eðlilegt að verð hækki þegar eftirspurn eykst og framboð eykst ekki, eins og af náttúruperlum og óspilltu landi, en við erum hvorki að tryggja sameiginlegan hag okkar, eðlilegt aðgengi okkar né framtíðarhagsmuni okkar.
Eigendur Bláa lónsins tóku inn 930 milljónir króna í arð á einu ári í fyrra. Nú kostar um 20 þúsund krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu að fara í Bláa lónið, en það er gjarnan uppbókað.
Eigendur Kersins græddu sjö milljónir árið 2014 eftir að ríkið fjármagnaði göngustíga, bílastæði og vegi að því. Ekkert stoppar þá frá því að hækka gjaldið eftir geðþótta. Ríkið ákvað að bjóða 3,5 milljónir króna í sprengigíginn þegar það hafði forkaupsrétt, en ákvað svo að sleppa því að eignast hann.
Leiðinni að hellinum Víðgelmi í Borgarfirði hefur verið lokað með hliði og þeim aðeins veittur aðgangur að honum sem borga landeigandanum 6.500 þúsund krónur á mann. Börnin mega sjá náttúruna á hálfvirði, 3.500 krónur per hellir.
Þegar börnin þín eru farin að borga skynjunartolla fyrir að sjá náttúrufyrirbæri landsins þíns veistu að þú stefnir í ranga átt.
Eitt er að borga fyrir þjónustu í gegnum skatta, en annað að þurfa að fjármagna arð eigenda landsins. Þegar við erum komin þangað, eins og allt bendir til að gerist meira, er betra að ríkið eigi náttúruperlur og haldi þeim við.
Tollheimtufólk í vinnu
Núverandi ríkisstjórn leggur áherslu á að ríkið lágmarki aðkomu sína að því að halda við innviðum samfélagsins, eins og má lesa um í grein í Stundinni. Hún stefnir á frekari einkarekstur.
En það að rukka fyrir að keyra um vegi og ganga á göngustíg hefur augljósan ókost, sem hefur afleiðingu. Það þarf að búa til stétt fólks sem innheimtir tolla.
Til dæmis hefur kostað um milljarð króna að halda úti tollinheimtumönnum við Hvalfjarðargöngin, sem voru einkaframkvæmd af því að einkaframkvæmdir eru svo hagstæðar. Þetta þýðir í grófum dráttum að milljón fargjöld – þrjú á hvern Íslending – hafa á þessum tíma farið í að borga laun þess sem innheimtir fargjaldið. Göngin ættu að vera orðin gjaldfrjáls núna, en einkafyrirtækið virðist finna sér ýmis tilefni til að viðhalda sér. Frjálshyggjan telur að sérhagsmunir og almannahagsmunir séu það sama, þótt svo sé augljóslega ekki.
Nánast allir Íslendingar fara um Hvalfjarðargöngin. Af undarlegri ástæðu er hægt að viðhalda göngum, vegum og brúm annars staðar á landinu án þess að innheimta sérstakan toll með tilheyrandi tollheimtufólki í vinnu, þótt sömu rök ættu að gilda annars staðar.
Þegar við borgum aðganginn í Kerið fer stór hluti af gjaldinu í að borga manneskjunni fyrir vinnuna sem fylgir því að bíða vegfarenda, takmarka frelsi þeirra og innheimta af þeim toll.
Picasso-málverkið okkar
Óspillt náttúra hverfur ógnarhratt á jarðsögulegum skala. Það er vegna þess að umfang og umsvif mannkynsins eru helsta ógnin, og mannkynið hefur til dæmis tvöfaldast frá árinu 1968. Eftirspurn af landi eykst en framboð eykst ekki. Óbyggðirnar á Íslandi eru því að verða fágætari. Á vissan hátt eins og Picasso-málverk, því ný óspillt náttúra er ekki að verða til.
Frjálshyggjan, sem hefur verið ráðandi á Íslandi og Vesturlöndum síðustu áratugi, verðleggur hins vegar ekki óspillta náttúru í almannaeigu, því hún sést ekki í bókhaldinu og einkaaðilar innheimta ekki gróða af henni. Hún tekur ekki mið af lífsgæðunum sem felast í ferðafrelsi um náttúruna. Verndað, óspillt land í almannaeigu er hins vegar líklega mestu verðmæti sem Ísland hefur yfir að búa. Og við erum ekki að taka sameiginlega ábyrgð á því að vernda verðmætin og frelsið til fullnustu, því hópurinn sem hefur verið valinn til valda setur sérhagsmuni og gildi þeirra í forgang og afsalar sér sameiginlegri ábyrgð í nafni hugmyndafræði sem hentar mest þröngum hópi þeirra sem eiga mest af heiminum og frelsi hans.
Fyrstu skrefin til martraðarlands
Í gríðarlegri mannfjölgun, hverfandi náttúru og gróðavon erum við að leggja drög að dystópíu, martraðarlandi, þar sem við og börnin okkar, barnabörn og barnabarnabörn þurfum að borga toll fyrir að sjá það sem þótti sjálfsagt að sjá.
Því fólk sem starfar við þrif fyrir erlenda ferðamenn fær ekki nægilega háar tekjur til að geta ferðast um landið eins og við gerðum áður.
Það verður til afstæð fátækt, þar sem stór hluti íbúanna hefur ekki ráð á því að njóta þeirra upplifana sem eru í boði.
Á sama tíma stóraukast tekjur ríkisins og þeir sem halda utan um fjármál þess stæra sig af því að halda úti lágum sköttum á fyrirtæki. Hvað hafa boðendur frelsis einstaklingsins á móti frelsi einstaklingsins?
Við þurfum landverði frekar en tollheimtumenn. Og stóran þjóðgarð á hálendinu meira en mikinn arð landeiganda. Jafnvel þótt afmarkaður hópur skráðra eigenda Íslands græði minna til skamms tíma ef þeir fá ekki að leggja á skynjunartolla.
Við eigum Ísland saman. Og megum sjá það.
Athugasemdir