Um daginn sá ég status á Facebook þar sem virtur prestur sá ástæðu til að hrósa ágætri prédikun starfsbróður síns með þeim orðum að prédikunin væri „heilbrigð rödd gegn sjúku hugarfari“. Í prédikuninni hafði síðarnefndi presturinn andmælt gagnrýni sem kirkjan yrði fyrir um þessar mundir - og fyrrnefndi presturinn taldi sem sé merki um „sjúkt hugarfar“.
Svona „umræða um umræðuna“ er alls ekki óalgeng um þessar mundir. Nú étur hver upp úr öðrum að „umræðan á samfélagsmiðlunum“ sé svona yfirgengilega dónaleg að annað eins hafi aldrei sést, og svo liggur alltaf milli línanna að það þurfti að „gera eitthvað í málinu“, „sporna gegn þessum sora öllum“ og þaðan eru ekki eitt eða tvö skref yfir í kröfu um ritskoðun.
Raunin er aftur á móti sú að umræðan á samfélagsmiðlunum er eitthvert mesta heilbrigðisvottorð samfélagsins og þótt finna megi öðru dæmi þar sem menn hafa farið fram úr sér, þá á að bregðast við því í hverju tilviki fyrir sig, ekki alhæfa um að „umræðan sé komin út yfir allan þjófabálk“.
Þetta - og kvart prestsins um að í gagnrýni á kirkjuna fælist „sjúkt hugarfar“ - datt mér í hug þegar ég rakst í tímariti einu frá 1930 á einn reiðilestur um pólitík þess tíma, og tilraun „afturhaldsins“ (það er að segja Sjálfstæðisflokksins) til að hnýta sig við kirkjuna í bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík. Það gæti verið fróðlegt fyrir þá, sem halda að nú á dögum taki menn sterkt upp í sig, að renna yfir þennan texta.
Greinin byrjar svona:
„Blaðalygara afturhaldsins hér klígjar ekki við því að gera nafn Krists að aðalbeitunni í hinum blygðunarlausu ginningarskrifum sínum nú fyrir bæjarstjórnarkosningarnar. Þessar vábeiður, sem útsjúga hús ekkna og munaðarlausra og eiga ekkert áhugamál annað, en að ná í efstu sætin í samkundunni, til þess að geta spornað gegn alþýðuheillum og hlaðið undir sjálfa sig og vildarmenn sína, sjá, fylkingarbroddur þeirra, pestargerlarnir, sem ræktaðir eru með mútum í líkþrárbælum auðvaldsblaðanna hér í bænum og settir af blóðsugum verkamannsins til höfuðs viðgangi verkamannsins, mennirnir, hverra nöfn ein eru brennimark á sérhverjum málstað, — loks hafa þeir tekið það ráð að leggja frá sér stefnuskrána í kosningabaráttunni, spretta fingrum að allri róksemdafeerslu siðaðra manna, já, hverri tilraun til að kappræða skynsamlega nokkurt pólitískt deilumál, þeir hafa nú kastað tólfunum og tekið til [þess] óyndisúrræðis að reka mannhaturspólitík sína og blekkingarskriffinsku í nafni Jesú Krists þessa síðustu daga fyrir kosningarnar.“
Það var að sjálfsögðu Halldór Kiljan Laxness sem skrifaði þetta, þá nýlega orðinn sannfærður kommúnisti. Og tímaritið sem hann skrifaði í var Réttur. Greinin er skrifuð af þvílíkum þrótti að það er eiginlega ekki hægt annað en birta hana hér alla til enda; stílsnilld hins 28 ára gamal höfundar er ósvikin og eldmóðinn vantar sannarlega ekki. Fyrir áhugamenn um stílgaldur Kiljans, þá er skemmtilegast að rekja sig eftir hinum gríðarlöngu setningum.
En svo má líka velta fyrir sér hvort eitthvað af þessu gæti jafnvel átt við enn þann dag í dag ...
Halldór hélt nefnilega áfram:
„Mennirnir, sem barist hafa með oddi og egg gegn Ijósinu í bænum og toga mundu sólina niður af himinhvolfinu til þess að fela hana fyrir alþýðu suður í Skildinganesi, ef þeir væru þess umkomnir, mennirnir, sem berjast í lífi og dauða gegn almennu hreinlæti í bænum, gegn öllum atvinnu og réttarbótum til handa alþýðu, gegn hvíld sjómanna, gegn uppeldi barnanna, gegn íhlutunarrétti æskulýðsins um opinber mál, gegn hollustu almennra sundiðkana, gegn upplýsingu alþýðunnar, mennirnir, sem hafa hróflað upp yfir verkamenn þessa bæjar byrgjum, sem hvorki eru samboðin óargadýrum eða flækingshundum, mennirnir, sem stela frá brjóstmylkingum, hrekja umkomulausar konur á dyr með harðýðgi og láta þurfamenn grátandi frá sér fara, mennirnir, sem strjúka undan opinberum skyldum og búa um sig eins og ræningjar úti um annes, mennirnir, sem þrotlaust kúga alþýðuna með verslunarránskap og vinnuhörku, undirlauna þá, er vinna nytjar jarðar og sjávar, sem sjúga merginn úr beinum öreigabarnanna og stela síðustu skyrtunni af örvasa gamalmennum til þess að geta auðmýkt þau með hermdargjöfum í körinni, en láta byggja sér glæsileg slot, þar sem þeir liggja í bílífi og veita sér virðuleg embætti á kostnað munaðarleysingjanna, mennirnir, sem gegnum sorpblöð sín leggjast aldrei óljúgandi til svefns og vakna aldrei til dagsins öðruvísi en stelandi og svíkjandi gegn um hin andstyggilegu prángfyrirtæki sín, — það eru þessir stigamenn, sem loks hafa tekið að sér að snúa faðirvorinu upp á andskotann í alþjóðaáheyrn með því að ljúga því í skítpressu sinni að saklausum almenningi, að þeir séu hvorki meira né minna en fulltrúar Jesú Krists hér í borginni.
Með öðrum orðum, þeir vilja láta líta svo út sem Jesús Kristur sé orðinn ræningjaforingi hér í Reykjavík.
Þegar fullreynt er, að málstaðurinn er ekki leingur frambærilegur og öll sund lokuð fyrir þeim í skynsamlegri kappræðu um deilumálin, þá koma þeir til yðar í sauðarklæðum og þykjast vera spámenn yðar, þá kitla þeir eyru yðar með grátklökku kjaftaglamri um »trúna«, gánga í sand og ösku á gatnamótum í þeirri von, að þér takið ofan fyrir slíkri manngöfgi og trúið þeim eins og áður fyrir börnum yðar, svo þau megi framvegis halda áfram að veltast fyrir hunda og manna fótum í sorpinu, og fyrir örvasa foreldrum yðar, svo að þeir geti haldið áfram að smána þá með tuttugu—þrjátíu króna eftirlaunum á ári, þegar þeir hafa offrað lífi sínu í æfilaungu striti fyrir þá.
Óupplýstur, samviskulaus prángaralýður, rótlausir stjórnmálaspekúlantar, valdagráðugar tækifærahýenur, sem aldrei hafa hugsað félagslega hugsun né beint sínum minsta fíngri til viðhjálpar málum, sem varða almenna heill, sérgóðar auðvaldskerlíngar, sem halda að takmark mannlegs félags sé það, að gera sem mestan hluta þjóðfélagsins að þurfalíngum, svo þær geti orðið dýrlegar á því að sletta í kríngum sig skítugum ölmusum um jólaleytið og feingið þakkarávörp í blöðunum, — þetta er fólkið, sem biðlar þessa dagana til atkvæðis yðar í nafni Jesú Krists, — lítið á nöfn þeirra, hæ, festið yður í minni nöfn þessara dýrlinga, hæ, þeir eru með Krist á vörunum, þetta purkunarlausa íhaldspakk, þeir hafa gert kirkjuna að sínum síðasta bakhjarli, sínu hinsta vígi, þar sem þeir skríða inn og hópast saman kríng um altarið, þegar alt annað brestur, þessir Jónar Gerrekssynir tuttugustu aldarinnar, og þér — þér eigið að vera ginníngarfífl þeirra!
Nei, góða reykvíska alþýða! Látið ekki blekkjast! Sendið þá ekki inn í bæjarstjórnina, heldur á letigarðinn!
Hver einasti maður, sem skrifað hefir í blöð íhaldsins síðustu dagana og reynt að verja glæpi þess á fundum, eru ýmist heimskíngjar eða íllmenni, sem eru sett til höfuðs yður, og það er ekki sagt upp á eigin býti eins einstaklíngs, heldur tala ég út frá allri hinni dýpstu félagslegu reynslu þessara alvörutíma, þegar ég segi, að það eru ekki til í heiminum aðrir menn en heimskíngjar og hundíngjar, sem fjandskapast gegn jafnaðarstefnunni, því jafnaðarstefnan er samviska tíma vorra, hún er rödd Guðs á vorri öld, hún ein er fulltrúi Krists á jörðinni á vorri öld, hún ein sú leið, sem fjöldanum er fær ekki aðeins á braut sinni til líkamlegs og veraldlegs þroska, heldur einnig til andlegs og guðlegs frelsis.
Andi jafnaðarstefnunnar er andi bræðralagsins og þeirrar endurlausnar, sem ein getur lukt um gervalt mannkyn og gert f élagsheildina að þeirri tignarveru gagnvart alheiminum, sem samræmist þeim ágætum, sem skaparinn hefir niður lagt í brjóst vor umfram aðrar lífverur.
Varið ykkur á afturhaldslygurunum! Varið ykkur á kramaralýðnum, stjórnmálaspekúlöntunum, trúarlvræsnurunum, tækifærahýenunum og þrælahöldurunum, sem hafa ofurselt yður og börn yðar hinni glæpsamlegu spillíngu örbirgðarinnar!
Sjá, þeir koma til yðar í sauðarklæðum, en hið innra eru þeir glefsandi vargar.
Athugasemdir