Ég er ekki mikill fréttaáhugamaður og horfi til að mynda aldrei á fréttir í sjónvarpi. Fréttirnar eru í mínum bókum flokkaðar sem leiðinlegur sjónvarpsþáttur. Ég les ekki blöðin því dagblöð eru úrelt og segja frá fréttum gærdagsins. Ég les stundum tónlistartímarit og mögulega eitthvað sem hægt væri að flokka sem fréttaskýringarit því mér finnst huggulegt að halda á blaði, en ég er þó mun líklegri til að sjást með teiknimyndasögu en ofangreint. Og almenn dagblöð, aldrei. Þau eru jafn úrelt og símaskráin.
Ég fæ mínar fréttir af internetinu hvar ég eyði miklum tíma, bæði vinnu minnar vegna og eins vegna almennrar netfíknar. Netmiðlaflóra Íslands hefur aldrei verið fjölbreyttari og mér gengur ágætlega að vinsa það úr sem ég vil kynna mér. Með þokkalegri útsjónarsemi get ég valið hvers kyns umfjöllun ég vil fá um hvert og eitt mál, hvort ég vil hátíðlegan plebbaskapinn hjá Kjarnanum, uppgerðarhlutleysi mbl, tómlegt áhugaleysið hjá Rúv.is, poppdægurrunkið hjá Vísi, biturlegar ofurraunsæisárásirnar hjá Stundinni eða flippkisastuðið á Nútímanum. DV og Pressuna les ég næstum aldrei og það þá bara þegar ég læt slúðurfávitann í mér ná yfirhöndinni og finnst ég verða að vita, ekki seinna en strax, hvaða glataða sál þetta geti verið sem er rétt hlaupinn út af Litla-Hrauni. Þekki ég hann ekki örugglega með nafni? Ég hef mismiklar mætur á umræddum miðlum en mér gengur ágætlega að láta þá ekki fara í taugarnar á mér þrátt fyrir augljósar öfgar og marga galla. Auðvitað eiga allir þessir miðlar rétt á sér og það er í mínum verkahring að átta mig á því hvað ég er í raun og veru að lesa, á hvað ég hlusta eða horfi.
Það sem ég get hins vegar látið fara mjög í mínar fínustu er boðháttarblaðamennskan. Þegar mér er sagt að lesa, sagt að horfa og þar fram eftir götum. „Sjáðu myndbandið: 86 ára gömul nunna dettur ofan í heitan pott fullan af nöktum pípulagningamönnum,“ er fyrirsögn sem ég gæti aldrei fengið mig til að smella á sama hversu stórkostlega sem hún kann að hljóma. Rétt er að geta þess að hún er uppspuni og því óþarfi að gúggla (þótt það gæti reyndar reynst áhugavert) en ef hún væri sönn myndi hún lokka mig til sín á flestan hátt. Skipunin: „Sjáðu myndbandið“ fælir mig samt umsvifalaust frá.
Ég er kannski illa haldinn af mótþróa en ég verð brjálaður þegar mér er hálfskipað að lesa eitthvað, horfa á eitthvað, hlusta á eitthvað eða tjá mig um eitthvað. „Lestu allt um Svein Andra Snæ Björn Ragnarsson!“ „Hlustaðu á tvær lesbíur fara í sleik við sama manninn í einu!“ „Horfðu á lóuna kveða burt snjóinn!“ Ég brjálast! Jafnvel þótt ekki sé verið að troða upp á mig innihaldslausu slúðri, jafnvel þótt um sé að ræða eitthvað sem ég hef áhuga á þá brjálast ég. Ekki skipa mér að gera eitthvað þegar ég álpast inn á miðilinn þinn. Bjóddu mér fallega og ég er líklegur til alls. Ég horfi sennilega glaður á tvo svani reyna að maka sig við rafmagnsrör, bara ef ég hef valið það fullkomlega sjálfur.
Ímyndaðu þér að þú sért í heimsókn og á borðum er þríréttað. Þér finnst allt gott sem er í boði en þig langar mest í humarinn. Þú setur nokkra hala á diskinn, leggur fatið frá þér og teygir þig í átt að hvítlaukssmjörinu sem er í raun og veru öll ástæðan fyrir því að þig langaði svona mikið í humar. En hér snúast leikar því húsráðandi nálgast með gríðarlegan pott og segir: „Settu bernaise-sósu út á humarinn, það var alltaf gert heima hjá mér.“ Síðan horfir hann í augun á þér meðan hann lyftir sléttfullri ausunni upp úr pottinum, færir hana hægt yfir diskinn þinn og gomsar síðan gulri slepjunni yfir humarinn. Þér finnst bernaise-sósa ekkert vond og þú hafðir nægan tíma til að útskýra að þig langaði meira í hvítlaukssmjör, þú hefðir getað skýrt mál þitt og afþakkað. Og enginn hefði orðið neitt sérlega sár. En stemningin breyttist samt því húsráðandi var staðráðinn í því að láta þig borða bernaise. Rétt aðferð hjá honum væri að spyrja: „Viltu prófa bernaise með humrinum?“ Og þá gætir þú sagt: „Nei takk, ég ætla að fá mér hvítlaukssmjör.“
Þetta nær langt út fyrir fréttamiðla (og dæmisöguleg matarboð) því þetta fyrirfinnst í miklum mæli á samskiptamiðlunum. „Lækaðu þennan status ef þú fílar að vera berfættur í gúmmískóm.“ Ég myndi frekar brenna gúmmískóna mína og sparka berfættur í bílinn þinn en hreyfa við ó svo nýflóknum læk-takkanum við þessar aðstæður. Hvað liggur að baki? Treystirðu því ekki að þú sért alveg nógu sniðug(ur) til þess að við tökum undir þetta kjaftæði í þér og þess vegna segirðu okkur beinlínis að gera það? Mikið er það nú sorglegt. Og ein af frumútgáfum þessa rugls er þetta hér: „Ræðið.“ Það er sennilega þarna sem ég verð mest brjálaður. Viltu ekki frekar vekja máls á málefni sem gaman er að ræða frekar en skipa okkur hinum að ræða þetta ómerkilega kjaftæði þitt?
Litli bróðir minn, Baldur (31), notar stórkostlega aðferð á símasölumenn sem hringja í hann og bjóða honum viðbótartryggingalífeyrissparnað, afsláttarkort í Lasertag eða áskrift að enn einu örvæntingarfullu dagblaðinu. Hann leyfir þeim að klára og segir svo: „Nei takk, en ég var að enda við að gefa út geisladisk, má bjóða þér að kaupa hann?“ Kannski getum við leyst þetta svona með vefmiðlana, senda þeim daglega tölvupósta með yfirskriftinni „Lesið þennan póst: Þið eruð óþolandi!“
Athugasemdir