Öll stæðin næst Laugardalshöllinni voru upptekin, líklega af því ég var svo seinn. Ég neyddist til þess að leggja hjá Laugardalsvelli. Bíllinn minn er ekki á nógu stórum dekkjum til þess að ég geti lagt ólöglega upp á kant. Straumurinn af stífbónuðum Range Roverum og glansandi Audium var svo þungur, og fallegum og rándýrum glæsibílum lagt upp á og meðfram öllum gangstéttum, svo allur rúntur um bílastæðið varð að mjög erfiðri og gremjuaukandi reynslu.
Beyglaða, óskoðaða, háværa og skítuga VW druslan sem ég skrölti á var algjört prump í prófi í þessum félagsskap. Eftir að ég loksins fann stæði og var nýstiginn út úr bílnum kom, á gráum bens jeppa, brunandi Björn Bjarnason. Ég stökk frá, bæði vegna þess að Björn var að verða of seinn eins og ég og mjög illilegur á svip eftir því, en líka vegna þess að síðast þegar ég átti í samskiptum við hann urðum við svo hávært ósammála á Facebook að það endaði þannig að pabbi minn hringdi í mig og skammaði mig. Svo ég stökk frá gráu þrumunni hans svo ég ætti ekki möguleika á að lenda undir honum.
Ég hnýtti á mig palestínuklútinn minn, og hækkaði í botn í Raining Blood með Slayer, sem öskraði í eyrun á mér kakafónískri sinfóníu í algjörri andstöðu við umhverfi mitt, sem var smám saman að verða jakkafataklæddara, blárra og með hærri kinnbein.
Eftir að hafa stokkið undan Þorgerði Katrínu, sem reyndi líka að keyra á mig á hvítu drossíunni sinni, var ég kominn að innganginum að Laugardalshöll. Þar voru lögreglumenn að LARPa sem lvl 2 prakkarar í hópi mótmælenda sem héldu á BSRB fánum, sem og öðrum. Ég gekk í gegnum þvöguna með nokkrum jakkafataklæddum fermingarbörnum og kona úr hópnum kallaði á okkur „Nú verðið þið að standa ykkar plikt“ og ég hugsaði bara að þessi ágæta kona yrði brátt fyrir miklum vonbrigðum með allar þær pliktir sem hér yrðu staðnar næstu þrjá daga.
Fyrir innan innganginn var afgreiðsluborð. Bak við það og allt í kring voru á víð og dreif pappakassar og eldri konur. Yfir borðinu voru skilti sem áttu að skipa fólki í raðir eftir stað þeirra í stafrófinu. Ég fór að„A-D“ skiltinu, og stóð þar frekar penn. Ég hef alltaf, sama hversu slæmum stað ég er á í lífinu, lagt mikið upp úr góðu siðferði í röðum. Fyrsti maðurinn til að gera tilraun til þess að troðast fram fyrir mig var undrabarnið Gunnar Dorfi, blaðamaður hjá Mogganum. Ég reyndi, án árangurs, að troða mér inn í bón hans um blaðamannapassa, með því að spyrja hvort ég mætti fá svoleiðis líka. Í þá mund reyndi Árni Sigfússon að troðast fram fyrir mig, með mjög góðum árangri. Ég skil. Það er svona sem þið rúllið. Frumskógarlögmálið. Ókei.
Áður en ég gat búið til almennilega dæmisögu um réttlæti og karma og hlutverk þess í baráttunni fyrir bættri raðamenningu spurði tætt kona hvort hún gæti aðstoðað mig, og ég fékk blaðamannaskilríkin mín. Ég rölti upp í stúku og stakk mér í samband. Greinilegt var að allir voru komnir til þess að hlusta á ræðu Bjarna Ben, því smám saman fylltust öll sæti í salnum af gráum hárum.
Ég rölti fram á gang, og varð þar vitni að áhugaverðri senu. Allir sem inn í salinn ætluðu þurftu á litlu plastskilríki, hangandi í bláum borða, að halda. Við inngangana stóðu ungir menn í svörtum alklæðnaði, og sáu til þess að enginn óboðinn laumaðist til þess að hlusta á ræðu foringjans. Þar kemur svo aðvífandi Kjartan Gunnarsson, með konu sinni og barni. Þegar Kjartan ætlaði að rölta með litla strákinn inn í salinn var hann hinsvegar stoppaður af svartklæddum dyraverðinum, sem setti upp afbragðs pókerfeis, benti á litla drenginn og sagði að enginn sem ekki væri með passa kæmist inn.
Kjartan varð mjög hvumsi, og spurði ítrekað hvort dyraverðinum væri alvara, hvort hann vissi ekki hver hann væri, sagði „HA?!“ mjög undrandi, mjög oft, og horfði hneykslaður í hringum sig. Dyravörðurinn benti honum á að allir gætu farið upp í stúku sem ekki væru með passa, en að enginn færi inn í salinn án hans, og því mætti litli strákurinn ekki fara þangað inn. Fljótlega fór að myndast löng röð fyrir aftan Kjartan, sem yppti öxlum í hvert sinn sem hann snéri sér hneykslaður í hring. Áður en ég gafst upp á þessari senu sagði Kjartan hátt og snjallt „Farðu, og náðu bara í einhvern af stjórnendum Sjálfstæðisflokksins, og láttu þá segja þér hver ég er!“ en án árangurs, því dyravörðurinn með prinsippin sagðist ekki geta farið úr dyrunum.
Ég flýtti mér inn til að missa örugglega ekki af ræðu Bjarna. Stuttu seinna kom Kjartan og hans fólk þangað og hélt hann áfram að hneykslast muldrandi þangað til þögn færðist yfir salinn, hann myrkvaðist, og myndband fór að rúlla á fimm, líklega 500 fm kvikmyndatjöldum sem gnæfðu yfir sviðinu.
Undir myndbandinu, sem sýndi ósnortna íslenska náttúru, í bland við gríðarlega fallegt fólk að sinna hinum ýmsu störfum, var ómþýð rödd sem þuldi upp runu um hvernig Ísland gæti ekki þrifist nema með Sjálfstæðisflokknum, og var inntakið að án hans mynd frelsi landsins fuðra upp. Eftir áróðurinn var hækkað í laginu Crystals með Of Monsters And Men, skjáirnir urðu smám saman bláir, á þeim birtist svo mynd af Reykjavík, með nafni Bjarna Ben í bláum kassa. Ljóskastarar lýsa upp sviðið og Bjarni kemur sér fyrir í pontunni, með risavaxinn gylltan Sjálfstæðisörninn með spillta vængina útbreidda framan á henni. Allir í myrkvuðu salnum standa upp og klappa. Hóflega yfirvegað þó.
Bjarni byrjaði ræðuna á því að ruglast, og bjóða gestina velkomna hingað í Valhöll. En fall er fararheill, og Bjarni lagði strax af stað í stórsókn. Hann sagði að síðast þegar flokkurinn hittist á landsfundi, árið 2013, hefði hann verið í stjórnarandstöðu. Í kjölfarið hefði hann sigrað í kosningum, þar sem vinstri flokkunum var algjörlega hafnað. Hér notaði Bjarni tækifærið og kom að litlum brandara. Hann sagðist alltaf hafa sagt að það borgaði sig ekki að kjósa vinstri stjórnir, því þær springu alltaf. En nú segði hann fólki að það borgaði sig ekki, af því það væri ekki víst að þær myndu springa. Honum tókst með skrítlunni að slaka aðeins á spennunni, og gráu hárin í salnum hristust saman af hlátri.
Restin af ræðunni nýtti Bjarni svo í að syngja sjálfum sér og sínu samstarfsfólki lofsöng um viðreisn efnahagsins. Inntak næstu 40 mínútna var að Sjálfstæðisflokkurinn hefði í rauninni ekkert gert nema rétt frá stofnun, en hann þyrfti samt að hlusta á unga fólkið, hlusta á konur og almennt breytast mjög mikið til þess að þurrkast ekki út af kortinu.
Undir lok ræðunnar tæpti Bjarni á því að þótt forysta flokksins breyttist við það að Hanna Birna hætti sem varaformaður, þá yrði Hanna alltaf Hanna - alltaf sama kjarnakonan! Við það eitt að heyra minnst á Hönnu Birnu stóð hver einasti rass upp úr sætinu sínu, og klappaði. Á sama tíma stendur Hanna Birna upp rétt fyrir framan sviðið, og ljóskastari baðaði hana birtu. Hún snýr sér hægt við, og vinkar virðulega til fundargesta. Klapp og hróp. Blístur og köll. Einhverskonar gæsahúð hríslaðist um mig.
Bjarni lauk svo ræðunni á þeim orðum að út af landsfundinum færu allir klyfjaðir verkfærum. Þau þyrfti að nota til þess að ná eyrum landsmanna og breiða út boðskap Sjálfstæðisstefnunnar. Fagnaðarerindið má ekki stoppa. Bjarni stóð svo á sviðiðinu og veifaði til fólksins síns á meðan lagið „Don’t stop thinking about tomorrow“ með Fleetwood Mac er spilað óþægilega hátt. Textinn „Yesterday is gone, yesterday is gone“ ómaði á meðan fólk stóð upp, peppað eftir miðlungs góða ræðu. Barn Kjartans steig léttan dans, og ég sá að pabba hafði tekist að redda honum bláum passa um litla hálsinn sinn.
Ég laumaði mér út í rigninguna og passaði mig að stíga ekki á neinar tær, eða verða fyrir neinum bíl sem kostar meira en íbúðin sem ég bý í, á leiðinni löngu aftur að bíldruslunni minni. Fyrsta deginum í ljónagryfjunni var lokið.
Hér má svo lesa hugleiðingar Braga eftir seinni tvo daga landsfundar.
Athugasemdir