Í vef Stundarinnar í gær birtist grein eftir Svan Sigurbjörnsson lækni sem bendir á að möguleg lausn til þess að binda enda á hryðjuverk í heiminum og koma á friði sé fullnaðarsigur kvenréttindabaráttunnar. Mikilvægi baráttunnar fyrir jafnrétti kynjanna og útrýmingu hvers kyns kynbundins ofbeldis er óumdeilanlegt. Aftur á móti þá hefur leiðarstefið „björgum brúnum konum frá brúnum körlum“* sem endurrómað hefur í vestrænni orðræðu á undanförnum áratugum, bæði velviljandi femínista sem og stjórnmálamanna, verið notað til þess að réttlæta hernaðaríhlutanir og innrásir í lönd á borð við Írak og Afganistan þar sem fórnarlömbin verða oftar en ekki þau sem að átti upprunalega að vernda/bjarga. Fórnarlambavæðing kvenna og barna í þessu samhengi gerir því nákvæmlega það sem hún segist ekki vera að gera.
Samkvæmt óháðu eftirlitssamtökunum Airwars (airwars.org), sem safna upplýsingum um mannfall óbreyttra borgara í Miðausturlöndum og víðar af völdum drónaárása, hafa um 2590 menn, konur og börn látist í drónaárásum frá árinu 2014 í Írak og Sýrlandi. Þessar tölur eiga bara við um þessi tvö lönd, þrjú ár og eina tegund vopnabeitingar. Þessar tölur eiga jafnframt aðeins við um óbreytta borgara sem hafa fallið í hryðjuverkaárásum sem hafa beinst að ISIS eða ríki Íslams og hafa verið leiddar af Bandaríkjaher þó svo að fleiri ríki sameinist um drónaárásir, þeirra á meðal eru Bretland, Belgía, Frakkland, Holland og Danmörk. Notkun drónaárása í hernaði hefur verið umdeild á sviði alþjóðalaga þar sem lögmæti þeirra, eins og svo margt sem við kemur hernaði, er bæði vafasamt og oft alls ekki til staðar fyrir utan hversu ónákvæmar þær geta verið, samanber háum dánartölum óbreyttra borgara. Notkun drónaárása stríðir því gegn grundvallarmannréttindum fyrir utan þann ómælanlega skaða sem þær valda á þeim einstaklingum og samfélögum sem fyrir þessum árásum verða auk annarra stríðsátaka. Líkt og hryðjuverkaárásir af öllu tagi þar sem ráðist er á óbreytta borgara og þá sérstaklega börn*. Hryðjuverk ber ávallt að fordæma og það hvernig hægt er að framkvæma slíkan gjörning er með öllu óskiljanlegt fyrir flestu fólki sem þráir að lifa í heilbrigðum og friðsömum samfélögum. Það er samt sem áður mikilvægt að skoða atburði í samhengi, hryðjuverk gerast ekki í tómi og öfgafull samtök á borð við ISIS verða heldur ekki til í tómi og heldur ekki hryðjuverkamenn eins og Anders Breivik sem varð 77 manns að bana í Noregi.
„Hernaðaríhlutanir og drónaárásir hafa ekki komið á auknu kynjajafnrétti eða brotið á bak aftur öfgasamtök“
Aðfararnótt 12. mars síðastliðinn leitaði hópur fólks skjóls í byggingu í Kasrat Al Faraj í Sýrlandi, menn, konur og börn sem voru að flýja undan átökum. Um miðja nótt var byggingin sprengd í loft upp í drónaárás og að minnsta kosti 22 manns létust, þar af 9 konur og 7 börn, að minnsta kosti. Heimild: (https://airwars.org/news/1000th-allegation/). Samband ofangreindra ríkja með Bandaríkin í fararbroddi bar ábyrgð á þessari árás eins og svo mörgum öðrum þar sem óbreyttir borgarar hafa látist.
Við lifum vissulega í gríðarlega flóknum heimi þar sem mikil átök eiga sér stað og það verður sífellt erfiðara að skilgreina hernaðarvígvelli og þátttakendur í stríði. Það er engin ein töfralausn til þegar kemur að því að leysa þennan stóra vanda. Það er aftur á móti þrautsannað að hernaðaríhlutanir og drónaárásir hafa ekki komið á auknu kynjajafnrétti eða brotið á bak aftur öfgasamtök í Miðausturlöndum eða annars staðar. Þvert á móti hefur ástandið versnað ekki bara þar heldur líka í Bandaríkjunum eftir kosningu Donalds Trump til forseta Bandaríkjanna þar sem lýðræðinu og allri samtvinnaðri jafnréttisbaráttu þar í landi er nú ógnað.
Samfélög á norðurhveli jarðar þurfa að spyrja sig stórra spurninga og horfast í augu við afleiðingar nýlendustefnu, þrælahalds, auðvaldsstefnu, þjóðernishyggju, hernaðaríhlutana, áhrif og ítök vopnaframleiðanda og ólíufyrirtækja, nýfrjálshyggju, efnahagslegs ójöfnuðar og svo vissulega þann þátt sem feðraveldið spilar í þessu samhengi, en konur eru líka hluti af feðraveldinu og taka þátt í að viðhalda því. Kvenréttindabarátta sem er háð gegn hryðjuverkum án þess að taka tillit til þessara margvíslegu og flóknu þátta vinnur enga raunverulega sigra.
*Ég byggi á skrifum bæði Gayatri Chakravorti Spivak og Chandra Talpade Mohanty um hættuna sem fólgin er í fórnarlambsvæðingu barna og kvenna og hvernig hún er í raun notuð gegn þeim í hernaðarlegum tilgangi.
*Hvernig eru óbreyttir borgarar annars skilgreindir? Þegar það kemur að hernaði geta mörkin á milli þeirra sem skilgreindir eru hernaðarleg takmörk og óbreyttir borgarar verið mjög óljós og oft háð breyskum og einstaklingsbundnum sjónarhornum þeirra sem beita vopnunum.
Athugasemdir